Sannleikann, lög og samninga ber að virða

Þorsteinn Máni

Þá lágmarks kröfu verður að gera til þeirra, sem sem bjóða sig fram til setu í sveitarstjórn, og sem í umboði kjósenda starfa, að lög séu virt, að staðið sé við samninga, og að satt og rétt sé sagt frá. Því miður hefur kjörtímabilið 2018-2022 í sveitarstjórn Borgarbyggðar einkennst af óboðlegum vinnubrögðum. Framkoma sveitarstjórnar við Fornbílafjelag Borgarfjarðar (FBF) er sorglegt dæmi um það.

Í maí árið 2011 leigði sveitarstjórnin í Borgarbyggð FBF 900 m2 iðnaðarhúsnæði í Brákarey, til nota fyrir Samgöngusafn. Um mitt ár 2018 var gerður nýr samningur um viðbótar húsnæði, þ.e. eldri hlutinn, með gildistíma frá 1. maí 2018 til 30. apríl 2035 – til 17 ára. Samningur frá 2018 gerir ráð fyrir að FBF geri á sinn kostnað nauðsynlegar endurbætur og breytingar á húsnæðinu. Endurbætur yrðu síðan eign sveitarfélagsins að leigutíma loknum, ef ekki semdist um lengri leigutíma eftir árið 2035.

Í leigusamningi frá í maí 2018 segir: „Leigusala er kunnugt að ástand hins leigða húsnæðis var slæmt þegar leigutaki tók upphaflega við því. Leigutaki hefur frá fyrstu tíð unnið jafnt og þétt að lagfæringum og endurbótum á húsnæðinu, bæði innan húss og utan… Leigutaki skal annast allt viðhald á hinu leigða húsnæði, hvort sem um er að ræða utanhúss eða innan.“

Samningur aðila er um leið skýrsla um ástand húsa frá upphafi leiguviðskipta. Kemur þar greinilega fram hvað félagar og styrktaraðilar verkefnisins voru búnir að leggja gríðarlega mikið af mörkum með vinnu og fjármunum, enda er aðstaðan öll, félagsmönnum og samfélaginu, til sóma.

Skýrsla slökkviliðsstjórans í Borgarbyggð til forstöðumanns stjórnsýslu- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins frá 11. febrúar 2021 staðfestir það, og einnig að FBF brást án tafa við öllum athugasemdum, og gerði meira að segja betur en um var beðið. Í skýrslu slökkviliðsstjórans segir: „Slökkviliðið fór fram á að þeir myndu koma upp samtengdu brunaviðvörunarkerfi,… og eins að tiltæk væru handslökkvitæki og flóttaleiðir greiðar og vel merktar, við þessum óskum urðu fornbílamenn strax, og gerðu meira eins og til dæmis að endurnýja ljós og raflagnir í kjallaranum…

Og eldvarnafulltrúinn í Borgarbyggð segir 9. febrúar 2021 um sama húsnæði: „Aðstaða góð með viðunandi brunaviðvörunarkerfi. Flóttaleiðir þurfa að vera betur merktar og bæta þarf aðgengi. Vöntun er á loftræstingu/reykræstingu í rýminu.“ – Slökkviliðsstjórinn í Borgarbyggð þekkti félaga í FBF af því einu að bregðast strax við athugasemdum, og að gera meira en ætlast var til.

Þar sem FBF ber samkvæmt leigusamningi að sjá um allt viðhald hins leigða húsnæðis, að innan sem utan; er óskiljanlegt hvers vegna slökkviliðsstjórinn í Borgarbyggð, og síðan sveitarstjórn, beindu ekki athugasemdum um úrbætur á brunavörnum til FBF, og gaf eðlilegan frest, í stað þess að grípa tafarlaust til ákvörðunar um lokun.

Félagar í FBF hefðu augljóslega aldrei lagt þá fjármuni og þúsundir vinnustunda í að bjarga eignum sveitarfélagsins í Brákarey, hefðu þeir vitað að til valda ættu eftir að komast í Borgarbyggð einstaklingar sem hvorki virtu lög eða samninga. Einstaklingar sem héldu að hægt væri að hlaupa frá ábyrgð sinni þegar 14 ár voru eftir af leigusamningi, sem segja verður upp með að lágmarki þriggja ára fyrirvara, og aldrei fyrr en í mars 2025.

Þrátt fyrir það boðaði sveitarstjórnin í Borgarbyggð riftun samnings 27. október 2021. Forsendur riftunar, eiga samkvæmt því sem fram kemur í bréfi sveitarstjórnar til leigutaka 16. desember, ástand hússins, sem var þó í betra ástandi en þegar sveitarfélagið leigði það. Skýrsla Verkís frá vori 2021 skiptir því engu máli. Enda bíta verkfræðingar frekar en lögfræðingar ekki í hönd þess er fæða þá.

Skýrslu Verkís hefur sveitarstjórnarfólk í Borgarbyggð notað sem skálkaskjól, sem engu heldur, það kostar engar 600 milljónir að koma eldvörnum húsanna í lag, eða snerist ekki lokunin um það – hún snerist ekki um það sem skýrsla Verkís snýst um, þ.e. samanlagðan kostnað við að endurbyggja húsin og rífa þau. – Því miður hefur sveitarstjórnin staðið fyrir óreiðu þegar kemur að því sanna og rétta í málinu öllu.

Það hlýtur að vera fáheyrt að sveitarstjórn í nokkru landi skuli standa í slíku skítaati við íbúa sína sem að framan er lýst – Samningar skulu standa!

 

Þorsteinn Máni