Sandkorn

Axel Freyr Eiríksson

Ætti maður að láta svona pistla heita sandkorn eða staksteina? Nokkur mál tekin fyrir og krufin. Veit ekki. Held mig við sandkorn, staksteinar hljóma svo fornlega. Kannski ekki samt, ég tengi orðið staksteina við haustið. Ég ímynda mér þá staksteinaritara sitjandi í skrifstofustól úr Eirberg við stillanlega skrifborðið pikkandi texta inn í stílhreina hönnun sem samanstendur af áli og gleri. Haustvindar blása létt fyrir utan skrifstofugluggann, nægilega mikið til að hreyfa laufin sem féllu í fyrradag, og thermostatið er stillt á 3 (því það er byrjað að kólna). Pressukannan bíður þess að hellt verði úr henni í bollann sem á stendur „Coffee is coming“ sem er auðvitað fyndin tilvísun í Game of Thrones frasann „Winter is coming“. Allavega, ég á ekki svona bolla, síður en svo stílhreinan Makka, keypti stólinn minn í nytjamarkaði á 1000 kall og Mikael skrifborðið mitt er ekki stillanlegt. Svo ég held mig við Sandkorn.

Eitt af því sem gladdi mig mest í síðustu viku var stórbrotinn fréttaflutningur af frekum íbúum einbýlishúsa við Vesturbæjarlaug. Samkvæmt þeim höfðu þau ákveðið portion af túninu í fóstri. Allt í lagi með það, ekkert hægt að fetta fingur út í það, en þegar það uppgötvaðist að svæðið hafði verið girt af (og það frekar verktakalega verð ég að segja) varð allt vitlaust. Best þótti mér myndin af forsprakka sjálftökufólksins, pixluð mynd af konu með sólgleraugu, leðurhanska sitjandi í blæjubíl. Það vantaði bara einglyrnið, munnstykkið fyrir filterslausan Camelinn og smáhatt til að fullkomna myndina. Hún er örugglega leiðinlega góð í Monopoly.

En mér er spurn, tók fólk ekkert eftir því þegar það var verið að setja girðinguna upp? Héldu allir að Dagur B og félagar hefðu ákveðið að setja þetta upp? Ég meina, girðinging var ekki sett upp á einum degi, þetta er svona það sem ég myndi kalla verktakagirðing og hefur kostað fullt af monní. Nei, borgin hefur örugglega ekki átt neinn pening í þetta þar sem á þessum tíma hefur blessaður Bragginn (já, ég skrifa hann með stjóru Bjéi) verið að sjúga allt útsvarið í nautasnitsela, strá frá Danmörku og ráðgjöf/hönnun o.s.fv. Maður hefði ekki getað skrifað meiri lygasögu en það sem er búið að gerast í kringum þennan bragga. Guð hjálpi okkur ef ákveðið verður að fara í braggana sem fyrirfinnast hér á Vesturlandi og nágrenni!

Það sannaðist líka nýverið að þú getur verið með svo kalt hjarta gagnvart flóttafólki og heimilislausum að Evrópuþingið ályktar gegn þér. Þrátt fyri það sýnt af þér hegðun sem öll góðmenni og illmenni (og allt þar á milli) sögunnar hafa sýnt af sér, að elska gæludýrin sín meira en allt. Sem Victor Urban forsætisráðherra Ungverjalands gerir greinilega. Meira að segja Buffaló Bill í Silence of the Lambs gat ekki afborið þá hugsun að Yndið væri slasað niðrí holunni. Hr. Urban hefur tekið að sér nashyrning að beiðni dýragarðs og beðið þjóðina að hjálpa sér að nefna hann, kjósendur skulu notast við emoji táknin frægu. Málleysingjarnir bræða öll hjörtu svo mikið er víst.

 

Axel Freyr Eiríksson