Samvinna, auðmýkt og traust haft að leiðarljósi

Hilmar Már Arason

Á 35. fundi Umhverfis,– skipulags– og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar sem haldinn var mánudaginn 6. júní var samþykkt að skotæfingasvæði verði staðsett við fólkvanginn Einkunnir. Það verður:

  • 150 m frá riffilbraut að fólkvangsmörkum.
  • rúm 1200 m loftlína frá riffilbraut að næstu íbúabyggð.
  • 600 m loftlína frá riffilbraut að göngustíg sem liggur á milli Álatjarnar og Háfsvatns.
  • 1200 m loftlína frá riffilbraut að nýlögðum göngustíg á milli Borgar og Einkunna.
  • um 2000 m loftlína frá riffilbraut að útsýnisskífu á Syðri-Einkunn.
  • um 1000 m loftlína frá riffilbraut að skátaskálanum Flugu.
  • 800 m frá riffilbraut að fjölförnum reiðvegi/akvegi/gönguleið sem liggur í Einkunnir.
  • 800 m frá riffilbraut að Álatjörn.

 

Á meðan skipulag skotæfingasvæðisins var í auglýsingaferli og það kynnt fyrir íbúum þá komu mjög sterk viðbrögð gegn þessari fyrirætlan Borgarbyggðar. 58 einstaklingar skiluðu inn mótmælum við slíkri framkvæmd á þessum stað, tveir undirskriftalistar bárust sveitarstjórn og félagasamtök sem nýta sér fólkvanginn til útivistar, sum meira en 60 ára, lýstu andstöðu sinni þ.e. Skógræktarfélag Borgarfjarðar, Hestamannafélagið Skuggi og Umsjónarnefnd Einkunna. Íbúar í Lækjarkoti lýstu yfir andstöðu sinni, en í Lækjarkoti er rekin öflug ferðaþjónusta, listagallerí og járnsmiðja sem skapa 20 manns vinnu. Íbúar Lækjarkots lýstu því yfir að staðsetning skotæfingasvæðins kippti fótunum undan rekstri þeirra, ef af þessari ákvörðun yrði þyrftu þau að bregða búi og flytja sig um set.

Mótmæli íbúa Borgarbyggðar voru af ýmsum toga. Íbúar bentu á að tillagan samræmdist ekki aðalskipulagi Borgarbyggðar, uppbyggingu á fólkvanginum, öryggisþáttum og starfsemi sem er innan og við fólkvanginn. Einnig var vitnað til hljóðmengunar, öryggismála, náttúruupplifunar, stærðar sveitarfélagsins, til náttúru fólkvangsins og bent á hve stutt er í æskulýðstarf, mannvirki og náttúrufyrirbrigði. Jafnframt bárust athugasemdir vegna nálægðar við atvinnustarf, þ.e. ferðamálaþjónustu og listagallerí. Rétt er að benda á vaxandi ferðamannastraum bæði innlendra og erlendra í fólkvanginn.

Nýr meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum fyrir skemmstu. Í Í samstarfssáttmála hans kemur fram að það verði:

„…kappkostað að innleiða í ríkara mæli langtímahugsun með skýrum markmiðum og framtíðarsýn. Til þess að slík vinna öðlist gildi þarf að leita eftir frumkvæði og þátttöku íbúa í stefnumótun sveitarfélagsins. Því verða gildi á borð við samvinnu, auðmýkt og traust höfð að leiðarljósi.“

Fögur og göfug orð en á ekki að vinna eftir þeim? Hvað með samvinnuna, auðmýktina og traustið? Hvernig birtist það í þessari ákvörðun. Á að hlusta á fólk eða þau félagasamtök sem hafa nýtt svæðið til fjölda ára?

Í samstarfssáttmálanum kemur líka fram að: „Borgarbyggð stefni í fremstu röð í umhverfis- og sorpmálum, mikilvægt er að vinna að því með íbúum og auka þar með virkni hvað varðar umhverfisvitund alla. Unnið verði að uppbyggingu ferðamannastaða í samvinnu við landeigendur og aðra hagsmunaaðila sem og ríkisvaldið. Rammaskipulag varðandi nýtingu á Kárastaðalandi og Hamarslandi verði unnið á næstu 2 árum.“

Ég hvet sveitastjórnarmenn í Borgarbyggð til að hafa samvinnu, auðmýkt og traust að leiðarljósi þegar það tekur ákvörðun sína á fimmtudaginn og taka tillit til þeirra félagasamtaka og íbúa sem hafa nýtt fólkvanginn til útivistar í tugi ára.

 

Hilmar Már Arason.

Höf. er formaður umsjónarnefndar Einkunna, útivistarperlu við Borgarnes.

Fleiri aðsendar greinar