Samvera við fjallið kveikir tilfinningu um traust, sátt og samhljóm

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Mynd tekin af Gildalshnúki, hæsta toppi Hafnarfjalls-fjallbálksins.

Fyrstu ferð mína á topp Hafnarfjalls fór ég einsömul snemma sumars árið 2006. Frá þeim tíma hef ég ekki tölu á fjölda þeirra ferða sem ég hef farið, hvorki á toppinn né mislangt upp í hlíðar fjallsins, en víst er að þær eru orðnar fjölmargar. Sjálfsagt gæti ég með grúski í rafrænum myndaskrám fundið út með nokkurri vissu fjölda ferðanna á toppinn, en enn sem komið er uni ég vel við mitt án þeirrar vitneskju. Ég minnist þess tíma þegar ég fann fyrir þörf að hafa einskonar tékklista í farteskinu, í upphafi þeirrar vegferðar sem fjallgönguáhugi minn síðar varð.  Ég fann fyrir einskonar söfnunaráhuga, að gaman væri að krossa við hvern tindinn á fætur öðrum. Þegar ég horfi til baka sé ég að löngun þessi varð ekki lífsseig, ekki ef miðað er við fjölda þeirra ferða sem ég hef farið upp sama slóðann og sömu hlíðarnar á topp Hafnarfjalls. Mjög snemma á þessum ferðum mínum fann ég að það var leiðangurinn sjálfur sem skipti mestu máli fyrir mig en ekki endilega áfangastaðurinn, þó vissulega hafi markmiðið í sjálfu sér, að komast á toppinn, knúið mig áfram lengi framan af.

Mér er minnisstætt að á mér hvíldi hugarvíl þegar ég fór fyrstu ferðina á topp Hafnarfjalls. Það var ákveðið umrót í gangi í mínu persónulega lífi, margt sem ég þurfti að takast á við að mér fannst, gamalt og nýtt og það vafðist fyrir mér.  Rödd hjartans, sem oft var veikróma á þeim tíma, hafði eitthvað til málanna að leggja þennan dag og hvatti mig til að ganga í fyrsta sinn á fjallið fagra, sem ég einatt kalla svo.  Ég verð að segja eins og er að þrátt fyrir að sú ferð hafi vissulega verið áskorun og frumraun, þá er hún mér ekki sérstaklega minnisstæð sem nein sigurganga, þar sem vanlíðanin sem ég lýsti hér á undan virðist hafa verið fyrirferðarmikil í upplifun dagsins. En gangan sem slík varð mér til góðs og skildi eftir gott veganesti fyrir mig og fyrstu árin á eftir fór ég stöku ferð, oftast í samfloti með öðrum.

Þegar ég horfi til baka sé ég að líkamleg virkni hefur einatt verið mér nauðsynleg. Þetta var ekki eitthvað sem ég gerði mér grein fyrir þegar ég bjó í sveit og stundaði þar af leiðandi hin ýmsu bústörf með tilheyrandi líkamlegri áreynslu. Það var einhvernveginn tilheyrandi partur af daglegu lífi og ég veitti því ekki sérstaka athygli að sú virkni, umfram annað, hefði jákvæð áhrif á sálartetrið.  Hinsvegar eftir að ég fluttist úr sveitinni, fór í nám og síðar í kyrrstöðuvinnu gerði ég mér grein fyrir því að hreyfing og útivist var mér nauðsynleg.  Ekki eingöngu til að styrkja kroppinn heldur ekki síður til að halda andlegri líðan innan ákveðins ramma.  Ég get hugsanlega talist heppin að vera þannig úr garði gerð að taugakerfið mitt biður um þessa afþreyingu og ég þarf sjaldnast að rökræða við hugann að drífa mig út undir bert loft, í líkamlega virkni.  Sumir tala um að ég hafi sjálfsaga en orðið agi hefur á sér hörkulegt yfirbragð og gagnvart hreyfiþörfinni minni upplifi ég enga hörku í eigin garð.  Það að sinna henni upplifi ég frekar sem  sjálfsást eða sjálfsumhyggju.  Ég fæ mikla næringu út úr þeirri iðju og þar með ekkert sem ég tel eftir mér.

Fyrir mig hefur verið mikil blessun að hafa heilan fjallabálk nánast við bæjardyrnar.  Úrval gönguleiða um svæðið er óþrjótandi þar sem Hafnarfjall stendur ekki eitt og sér heldur á það sér fjölda bræðra og systra. Eins og áður sagði veitti ég þó til að byrja með Hafnarfjalli sjálfu hvað mesta athygli og gekk einatt sömu leiðina, ýmist að hluta til á toppinn eða alla leið.  Ég fór að ganga mikið til einsömul, fannst það nærandi og fann að upplifunin var aldrei sú sama, þrátt fyrir að ganga sömu leiðina aftur og aftur. Ég fann fljótlega að með þessum göngum mínum gerðist eitthvað innra með mér.  Það var eins og eitthvað færðist úr stað, eins og ég kæmist nær sjálfri mér. Það eru svo sem engin ný vísindi að hreyfing eykur framleiðslu á hormónum sem kalla fram gleði og vellíðan og algjörlega rökrétt að þau efnaskipti hafi haft þessi jákvæðu áhrif á mig. Verandi á þeim tíma með viðvarandi kvíða og allskyns ranghugmyndir í eigin garð þá var frelsandi að finna allt í einu nýja líðan í garð sjálfrar mín. Finna allt í einu í hlíðum fjallsins hvernig umvefjandi þægindatilfinning tók mig í fangið og settist að innra með mér. Hvernig allt í einu var eins og allar öldur hugans hefðu lægt, gruggið sest til botns og myndin varð skýr. Ég fann skyndilega til mikils öryggis og sáttar og allur efi og ótti sem oft var svo ríkjandi var horfinn á braut.  Mér fannst allt í einu eins og ég stæði í algjörum samhljómi við allt og alla. Ég fann fyrir einlægu þakklæti. Í þessu ástandi veitti ég því athygli að ég fékk ríkulega þörf til að gefa af mér, fann fyrir örlæti. Mig langaði til að deila þessari einlægu tilfinningu með öðrum. Breiða hana út sem ljós sem ég upplifi svo stórt að það gæti rúmast um allan heiminn. Mér skilst nú að þetta ástand sem ég upplifi oft á mínum göngum sé einskonar uppljómun. Í mínum huga er það einmitt sú tilfinning sem nær út yfir allar aðrar tilfinningar, er einskonar alsæla. Í fjallinu hef ég oft fengið innblástur til skrifa og ýmsar hugmyndir hafa kviknað sem ég finn í hjarta mínu að eiga erindi til annarra.  Það eru hins vegar allskyns huglægar bremsur og hindranir sem hafa verið ríkjandi og komið í veg fyrir að ég leyfi mér að birtast á þann hátt sem nærir mig mest.  Hins vegar hef ég í samveru minni við fjallið fundið tilfinninguna um traust, sátt og samhljóm.  Ég hef náð að tengjast sjálfri mér og er meira að segja farin að trúa því að það sé ekkert að óttast og að ég hafi jafnvel gjafir til að gefa. Það er stórt skref að finna og er ég nú oftast nær full tilhlökkunar um hvað hver dagur beri í skauti sér.  Það er því sennilega gott að minna sig á í leitinni að velsæld að hamingjan er sjaldnast langt undan, því hún býr innra með hverjum og einum. Tilveran og trúin á okkur sjálf getur verið hlaðin skuggum og þoku eins og á stundum þegar horft er til Hafnarfjalls.  En þegar birtir upp sjáum við fjallið í allri sinni fegurð, með öllu sínu.  Það hefur hvergi færst úr stað og er jafnvel stöndugra og kraftmeira en nokkru sinni.  Það sama má segja um svarið við krefjandi spurningum sem knýja dyra hjá mörgum okkar.  Hver við erum og hver er tilgangur okkar?  Svarið finnum við einungis innra með okkur en til að sjá það þurfa öldur hugans að lægja og gruggið að setjast til botns.  Þá fyrst sjáum við svarið og uppgötvum að það hefur í raun hvorki komið né farið, heldur einfaldlega verið, eins og Hafnarfjall, á sínum stað.

 

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Fleiri aðsendar greinar