
Samtal þjóðar
Jóhannes Finnur Halldórsson
„Umræðan um ESB á eftir að kljúfa þjóðina,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson. Þessu er ég ósammála. Það er hluti af því að vera í lýðræðisþjóðfélagi að vera ósammála og svo er komist að niðurstöðu, en það klýfur ekki þjóðina, nema hugsanlega að stjórnmálamenn vinni að því með orðum sínum.
Undirritaður er fyrrum félagi í Sjálfstæðisflokknum og mér fannst flokkurinn og öllu heldur flokksfólkið bregðast umræðunni á sínum tíma, sbr. úr skýrslu frá landsfundi: „Umsókn um aðild að Evrópusambandinu og myntsamstarfi Evrópu sendir afar sterk skilaboð til alþjóðasamfélagsins um stefnumótun Íslendinga til framtíðar. – Náist samningar þarf þjóðin að geta sagt álit sitt á aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Ofangreindar staðhæfingar eru fengnar orðréttar úr Endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi árið 2009 sem fékkst aldrei rædd frekar, þar eða síðar. Landsfundarfulltrúar sem þar voru, geta svarað því hvers vegna. Það ómar enn, frá sviptivindi þessa fundar í orðum fulltrúa og sumra kjósenda Sjálfstæðisflokksins, 16 árum síðar, fimmaur um „bjölluat“ og fleira.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðskilið sig frá systurflokkum í Evrópu, en hvað veldur? Þar sem að stuðningur miðhægra megin er mestur við ESB. Ég fékk aðstoð gervigreindar til að taka saman afstöðu nokkurra flokka sem tengjast XD og XC í Evrópu (ekki sömu tengsl) og niðurstaðan var þessi:
Ofangreindir eru allt miðhægri, hægri, markaðssinnaðir flokkar, sem leggja áherslu á einstaklingsfrelsi, einkaframtak og öryggi. þetta eru ekki allir stjórnmálaflokkar sem kæmu til greina að hafa í samanburði. Eflaust má gagnrýna þetta myndrit, en þá er það vonandi rýni til gagns.
Að lokum; umræður eiga ekki að valda klofningi þjóðar, heldur leið til að komast að niðurstöðu og þróa þjóðfélagið áfram. Þegar upp er staðið fagnar meirihlutinn árangri, sem getur verið að hluta til sameiginleg niðurstaða og minnihlutinn sættir sig við að hafa ekki náð öllu sínu fram og allir bera vonandi virðingu fyrir niðurstöðunni. Lýðræðið í hnotskurn.
Jóhannes Finnur Halldórsson,
Höf. er „pensjónisti“ og býr á Akranesi.