Samtal óskast

Thelma Harðardóttir

Það verður seint sagt um Framsókn í Borgarbyggð að þau gefist upp í stríði þó ein orrusta tapist. Í framsóknarmönnum virðist nefnilega blunda sá draumur að fækka skólabyggingum í dreifbýlinu. Vilji þeirra um lokun skólabygginga kom skýrt fram árið 2015 þegar gerð var tilraun til að loka Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar í nafni fárra barna og fjárhags sveitarfélagsins. Mikil reiði greip þá um sig í samfélaginu, enda skólinn lykilstoð blómlegrar byggðar á Hvanneyrar. Á þeim tíma var nemendafjöldi skólans í lægstu lægðum en nú nokkrum árum seinna er skólinn þétt setinn og samfélagið getur ekki hugsað sér að vera án hans.

Það er því ekki nema furða að uppþot verði hinum megin í sveitarfélaginu þegar Framsókn sem skipar meirihluta sveitarstjórnar í Borgarbyggð gerir aftur atlögu að dreifbýlinu. Nú liggur Varmalandsdeild Grunnskóla Borgarfjarðar undir, á sömu skammsýnu forsendum og gerðar voru gagnvart Hvanneyri 2015. Fyrirhugaðar breytingar eru tvíþættar og eru af afar ólíkum toga.

Grunnskólinn skal minnka

Hugmynd meirihlutans er sú að færa miðstig og unglingastig frá Varmalandi á Kleppjárnsreyki. Eftir samtal við foreldra á svæðinu tel ég að almennt ríki skilningur á því að unglingadeildin verði færð, þó ekki séu allir á sama máli. Öllu minni skilningur er á hugmyndum meirihlutans á tilfærslu miðstigsins frá Varmalandi. Telja foreldrar barna á svæðinu að þær fyrirætlanir gagnist hvorki þeim nemendum sem á að færa í aðrar skólaeiningar né heldur þeim nemendum sem eftir verða á yngsta stigi.

Á Kleppjárnsreykjum er fyrirhuguð mikil uppbygging á skólahúsnæði og -lóð Grunnskóla Borgarfjarðar. Þær framkvæmdir munu taka tíma og reyna á útsjónarsemi allra þeirra sem starfa við leik- og grunnskólann á Kleppjárnsreykjum.

Telur meirihlutinn aðstæður við Kleppjárnsreykjadeild þola það að bæta mið- og unglingastigi Varmalandsdeildar þar við (um 30 börn) nú þegar mikill framkvæmdatími fer í hönd? Er skynsamlegt eða hreinlega mögulegt að auka meira á álag starfsfólks skólans umfram það álag sem fylgir framkvæmdum og takmörkuðu húsnæði með því að fjölga nemendum áður en nýtt hús hefur risið? Væri ekki faglegra að geyma tilfærslur sem þessar þar til framkvæmdum er lokið svo nemendur Kleppjárnsreykjadeildar njóti vafans í því mikla raski sem framundan er?

Væri ekki ráðlegra að nýta tímann á meðan á uppbyggingu skólahúsnæðisins á Kleppjárnsreykjum stendur í að vinna að stefnu til framtíðar um skólaskipan í Borgarbyggð allri, öllum íbúum til hagsbóta?  Ef rétt er á spilum haldið þá lægi hún fyrir þegar nýtt og glæsilegt skólahúsnæði á Kleppjárnsreykjum verður tekið í notkun.

Um er að ræða stórar og afdrifaríkar ákvarðanir fyrir Varmalandsdeild og því er gríðarlega mikilvægt að allar ákvarðanir séu vel ígrundaðar og rökstuddar með öðru en pólitískum draumum. Því tel ég fyrst og síðast mikilvægt að meirihlutinn færi fyrir hugsjónum sínum fagleg rök og leggi þar að auki fram upplýsingar um þær breytingar á fjárhag sveitarfélagsins sem þetta kann að hafa, líkt og við í minnihlutanum höfum kallað eftir.

Ólíkt því sem einkenndi umræðuna um Hvanneyrardeild árið 2015, forðast meirihlutinn í þetta sinn að ræða breytingu á Varmalandsdeild út frá fjárhagslegum forsendum og ver sig með þeim rökum að hér verði börnin að njóta vafans. En er það svo í öllum tilfellum, í þessu máli sem öðrum, er lúta að börnum í sveitarfélaginu okkar?

Af einhverjum ástæðum telur meirihluti sveitarstjórnar síðan ofan á annað að betra sé að halda upplýsingaflæði um forsendur og fyrirkomulag breytinganna í lágmarki. Af þeim sökum verður ekki með góðu móti ráðið hvað vakir fyrir meirihlutanum með samþjöppun skólabarna og minnkun skólastarfsemi á Varmalandi. Ekki er að sjá að til staðar sé leikplan á borðinu hjá meirihlutanum fyrir Grunnskóla Borgarfjarðar til lengri tíma og engin leið að rýna í framtíðarsýn þeirra, því annað hvort er hún ekki til eða svo brigðul að hún þolir ekki kastljósið. Þannig hefur meirihlutinn ekki fengist til að tjá sig um breytingar á skólaskipan í dreifbýli fyrr en fyrst núna á síðasta sveitarstjórnarfundi, þar sem glitti í hverjar fyrirætlanirnar eru í þetta skiptið án þess þó að rök fyrir breytingu eða upplýsingar að neinu marki lægju fyrir.

Leikskóli skal á Varmaland

Seinni hugmynd meirihlutans er sú að koma fyrir leikskóla og frístund á Varmalandi. Þær hugmyndir hugnast mér vel, enda hafa ör kynslóðaskipti orðið í nærumhverfi Varmalands og hverfið þar að þéttast með nýjum lóðum. Þá hefur einnig verið ákall um frístund síðastliðin ár en það er eitt af lögmæltum verkefnum sveitarfélagsins skv. lögum um grunnskóla nr. 91 (2008) er segir: „Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila.“ Krakkar sem sækja skóla á Varmalandi og foreldrar þeirra hafa ekki notið slíkrar þjónustu, en frístund er til staðar við allar aðrar skólaeiningar Borgarbyggðar. Nú stendur til að gera bót í máli og mun breyting á skólahúsnæðinu á Varmalandi taka mið af því að þar fari bæði vel um leikskólann og frístund. Þetta skref er mikið fagnaðarefni og hef ég lýst ánægju minni yfir þessum áformum sem munu styrkja stoðir Varmalands sem skólastaðar. Mig langar þó að vekja athygli á því hvaðan leikskólinn er að fara og þeirri staðreynd að á Bifröst er enn alveg jafn mikill fjöldi bygginga og áður. Þar gæti hæglega byggst upp á ný öflugt samfélag og því er mikilvægt að sú tilfæring á leikskóla sem nú stendur til sé ákveðin í samráði við fólk á því svæði.

Samtal um framtíðina fyrir opnum tjöldum

Skólasvæðin eru kjarnarnir í sveitarfélaginu okkar og fjöregg samfélagsins sem þá umlykur. Þegar við þeim er hróflað, er hróflað við kjölfestu búsetuákvarðana fólks í mörgum tilvikum. Fáir láta sig dreyma um framtíðarstarf í skóla sem pólitíkin er ávallt í störukeppni við um hvenær eigi að loka. Augljóst er að allra hagur býr í því stóra verkefni að ná þverpólitískri umræðu og sátt um langtímasýn fyrir skólaskipan dreifbýlisins í Borgarbyggð.

Mig langar að vitna í orð forseta sveitarstjórnar og oddvita Framsóknar í Borgarbyggð, Guðveigar Lindar Eyglóardóttur, í hlaðvarpsþætti Dagmála í aðdraganda kosninga, þar sem hún viðraði skoðanir sínar á skólamálum sveitarfélagsins og áhuga sinn á að kryfja málaflokkinn til hlítar: „…það sem ég kalla eftir er að við tökum samtalið um hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar, bæði hvað varðar skólahúsnæðið sjálft og þá þjónustu sem við köllum eftir að sé í dag í tengslum við skólana“. Ég er sammála þessu. En hvar er samtalið? Hvar er áhuginn á þverpólitískri umræðu um skólaskipan dreifbýlisins sem byggir á faglegum forsendum sem hægt er að ræða til hlítar?

Samtalið má heldur ekki vera einhliða og að mínu mati á sveitarstjórn að eiga frumkvæðið að opnu og faglegu samtali við hagaðila. Foreldrar hafa sjálfir boðað til fundar til að ræða þessi mál því svörin hafa verið takmörkuð og er það í annað sinn sem grasrót svæðisins tekur á það ráð í umræðunni um skólaskipan á innan við ári. Þegar gera á stórar breytingar í skólamálum þarf að tryggja að starfsmenn skólanna, nemendur, foreldrar og íbúar, sem treysta á að geta nýtt þjónustu skólans í framtíðinni, séu líka með í samtalinu en ekki bara sem áheyrendur.

Framtíð Varmalands getur orðið afar björt og aðlaðandi ef vel tekst til við mótun skýrrar stefnu fyrir Grunnskóla Borgarfjarðar og þannig væri hægt að láta af eilífu tali um lokanir og minnkanir. Ef vel tekst til, munu sveitirnar okkar styrkjast og blómstra. Það stendur þó og fellur með því að vilji meirihluta sveitarstjórnar Borgarbyggðar standi til þess.

 

Thelma Harðardóttir

Höf. er oddviti VG í Borgarbyggð