Samtal og samráð um uppbyggingu Holtavörðuheiðarlínu 1

Elín Sigríður Óladóttir

Fyrsti áfangi í uppbyggingu nýrrar kynslóðar byggðalínu er hafinn með undirbúningi og framkvæmdum 220 kV háspennulína sem liggja mun á milli Hvalfjarðar og Austurlands.

Um er að ræða fimm línuframkvæmdir ásamt byggingu nokkurra tengivirkja. Framkvæmdir við Kröflulínu 3 sem liggur frá Fljótsdalsstöð í Kröfluvirkjun er á lokametrum og gert ráð fyrir spennusetningu nú í vor, framkvæmdir eru hafnar vegna Hólasandslínu 3 sem liggur frá Hólasandi að Akureyri og verið er að vinna að mati á umhverfisáhrifum á Blöndulínu 3, sem mun tengja Akureyri við Blönduvirkjun. Næst í röðinni er Holtvörðuheiðarlína 1 sem liggja mun frá Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði, en lokakaflinn í þessum áfanga verður svo að tengja saman Holtavörðuheiði og Blöndu og er þá komin samfelld tenging á milli Suðuvesturhornsins og Austurlands.

Holtvörðuheiðarlína 1

Hafinn er undirbúningur á Holtavörðuheiðarlínu 1 frá tengivirkinu á Klafastöðum í Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um legu línunnar, en núverandi línur, Hrútatungulína 1 og Vatnshamralína 1, liggja um Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð og Húnaþing vestra.

Verkefnaráð og opnir fundir með landeigendum og íbúum

Í ferlinu sem er framundan er lögð áhersla á að eiga samtal við hagsmunaaðila og verður m.a. stofnað verkefnaráð Holtvörðuheiðarlínu 1, þar sem í sitja fulltrúar frá sveitarfélögum, náttúruverndarsamtökum, atvinnuþróunarfélögum, fræðasamfélaginu og fleirum. Fyrsti fundur verkefnaráðs verður haldinn nú 25. mars. Samhliða er boðað til opins fundar fyrir íbúa og landeigendur á svæðinu og aðra áhugasama, sjá nánar auglýsingu hér í blaðinu.  Í gegnum samráð og samtal og rannsóknir verður farið í gegnum greiningu á vali á línuleið og mat á umhverfisáhrifum. Þannig fæst betri mynd á hvert umfang verkefnisins er og hvað er hægt að gera og m.a. hvar og hvernig línuleiðinni verður háttað.

Mat á umhverfisáhrifum

Lagning Holtvörðuheiðarlínu 1 fellur í A – flokk framkvæmda, sem háður er mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Fyrsta skrefið í því ferli er gerð tillögu að matsáætlun. Þar mun koma lýsing á framkvæmdinni, hvernig fyrirhugað er að meta umhverfisáhrif hennar og kynntir verða valkostir sem áætlað er að taka til mats og rökstuðningur fyrir því vali.

Unnið verður með verkefnaráði, landeigendum og íbúum á svæðinu í greiningu á hugsanlegum valkostum áður en þeir verða lagðir fram í endanlegri tillögu að matsáætlun. Á heimasíðu Landsnets er sérstakt svæði helgað framkvæmdinni Hvalfjörður – Holtavörðuheiði og má nálgast það frá tenglinum „Framkvæmdir“ á heimasíðunni, landsnet.is  Þar má finna allt um fundi verkefnaráðs sem og um fundi með landeigendum og íbúum.

Þú getur haft áhrif

Við hvetjum íbúa á svæðinu, sem og aðra sem áhuga hafa, að taka þátt í samráðinu, senda inn ábendingar, mæta á opna fundi sem haldnir verða og taka þátt í samtali og samráði með okkur. Það skiptir máli fyrir samfélagið að sem best sátt náist um uppbyggingu línunnar sem er ætlað að vera hluti af nýrri kynslóð byggðalínu sem fleytir okkur inn í framtíðina.

 

Elín Sigríður Óladóttir.

Höf. er samráðsfulltrúi Landsnets

Fleiri aðsendar greinar