Samstarfsverkefni um þrívíddarprentun

Hildur og Hulda skrifa

Annað af ERASMUS samstarfsverkefnum Grunnskólans i Borgarnesi þetta skólaárið er um þrívíddarprentun. Samstarfsaðili er grunnskólinn Základní Škola Karla Jeřábka í Roudnice nad Labem í Tékklandi. Í verkefninu er farið yfir hvernig þrívíddarprentun nýtist í skólastarfi og unnin handbók um það. eTwinning vefurinn og samfélagsmiðlar nýttir i samstarfinu og hugmyndaauðgi nemenda fær að njóta sín við hönnun og útfærslu verkefna. Heimasíða um verkefnið verður aðgengileg seinna i ferlinu. En mikilvægur hluti er að nemendur hittist og kynnist skólastarfinu í þessum tveimur ólíku skólum. Vikuna 31. mars til 4. apríl sl. sótti tékkneski hópurinn okkur heim. Fimm nemendur í 9. bekk, verkefnisstjóri og tveir kennarar. Í skólanum var fræðsla um þrívíddarprentun, en einnig um aðrar tækni sem nýtist i skólastarfinu og hvernig má nýta hana í verkefnum um þrívíddarprentun, m.a. google classroom og gervigreind.

Nærsamfélagið studdi verkefnið okkar rausnarlega, að vanda. Landnámssetrið bauð hópnum á sögusýningarnar, Borgarbyggð bauð í sund og á sýningar í Safnahúsinu og hrossabændur á Sturlu-Reykjum fræddu hópinn um íslenska hestinn og nýtingu jarðvarma.  Hópnum var boðið í Kviku í Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem enn dýpri fræðsla var um þrívíddarprentun, auk annarrar hönnunarvinnu. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Í maí munu okkar nemendur i þessu verkefni sækja tékkneska félaga sína heim og læra enn meira um tækninýjungar. Fram að því verða vikulegar kennslustundir eins og verið hefur i vetur.

Það er þroskandi að takast á við áskoranir sem fylgja samstarfi á ensku og rafrænum verkefnum og enn meira gaman að ferðast á nýjar slóðir. Meira um það síðar.

 

Hildur Hallkelsdóttir og Hulda Hrönn Sigurðardóttir