Samstarfsverkefni grunnskóla í tveimur löndum
Hulda Hrönn Sigurðardóttir
Á vorönn bauðst nemendum á unglingastigi í Grunnskólanum í Borgarnesi (GB) að taka þátt í valgreininni „Erlent samstarf“. Samstarfið er við vinaskólann okkar Základní Škola Karla Jeřábka (ZSK), í bænum Roudnice nad Labem í Tékklandi. Unnið var að sameiginlegum rafrænum verkefnum. Öll samskipti fóru fram á ensku og einnig voru verkefnin unnin á ensku.
Dagana 24. – 26. apríl sóttu 15 tékkneskir nemendur félaga sína í GB heim. Gestgjafar í skólanum voru 12 nemendur í 8. – 10. bekk. Með tékkneska hópnum voru skólastjórinn þeirra, efnafræðikennari og verkefnisstjóri. Nemendum fannst áhugavert að skoða glæsilega aðstöðu í grunnskólanum, bæði í kennslustofum og á útisvæði. List- og verkgreinastofur vöktu sérstaka lukku, sem og þau verkefni sem voru í vinnslu þar. Hlöðver Ingi Gunnarsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar, kynnti skólastarfið í Borgarbyggð og bauð tékkneska hópnum og gestgjöfum þeirra á sýningar í Safnahúsinu og í sund. Landnámssetrið bauð hópnum á sögusýninganar. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.
Hópurinn tók þátt í efnafræðismiðju þar sem glímt var við ýmsar tilraunir undir stjórn Jakobs efnafræðikennara í ZSK og Hildar náttúrufræðikennara í GB.
Ýmiss náttúrufyrirbæri í sveitarfélaginu voru skoðuð og íslensku húsdýrin. Þórhildur María Kristinsdóttir, landvörður Umhverfisstofnunar, fræddi hópinn um gíginn Grábrók og umhverfi hans, auk þess sem farið var að Deildartunguhver, Hraunfossum og Snorralaug. Hrafnhildur Guðmundsdóttir á Sturlu-Reykjum fræddi hópinn um íslenska hestinn og nýtingu jarðvarma.
Það er þroskandi að taka þátt í slíku verkefni. Áskorun að hafa allt á ensku. Samstarf við nemendur erlendis frá veitir nemendum okkar nýtt sjónarhorn á sitt nám og aðstöðu í skólanum. Samstarfsverkefni er skemmtileg leið til að læra um náttúru, sögu og menningu í öðrum Evrópulöndum. Verkefnið, sem er Erasmus+ eTwinning verkefni, var styrkt af styrkjaáætlun ESB fyir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál. Áætlað er að halda samstarfinu áfram skólaárið 2023 – 2024.
Hulda Hrönn Sigurðardóttir