Samstaða og virðing

Hinrik Konráðsson

Nú eru bæjarstjórnarkosningar á næsta leiti en þessi fjögur ár sem ég hef verið í bæjarstjórn hafa verið mjög ánægjuleg og tíminn hefur flogið áfram. L-listinn lagði upp með það í síðustu kosningum að gefa engin uppblásin loforð til kjósenda heldur að leggja fram raunsæ málefni sem tóku mið af þeim aðstæðum sem Grundarfjarðarbær hafði verið að glíma við árin á undan. Árið 2014 var skuldahlutfall Grundarfjarðarbæjar 161,1% en við lok árs 2017 var skuldahlutfallið komið niður í 138,25% en samkvæmt sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarfélaga ekki vera yfir 150%. Síðustu fjögur ár hefur L-listinn lagt upp með að borga niður skuldir Grundarfjarðabæjar en á sama tíma farið í nauðsynlegar framkvæmdir og önnur verkefni til hagsbóta fyrir íbúana. Dæmi um þau verkefni sem farið var í á kjörtímabilinu er malbikun á götum bæjarins og við íþróttahús, sett var upp vaðlaug og bætt aðstaða við sundlaugina. Ákveðið var að veita nemendum frí námsgögn í grunnskólanum og stofnuð var leikskóladeildin Eldhamrar fyrir  fimm ára nemendur. Þetta eru einungis nokkur af þeim verkefnum sem hefur verið farið í á síðustu fjórum árum. Framundan á þessu ári er áframhaldandi viðhald á grunnskólanum, endurbætur og viðhald á leikskólanum ásamt tímabærum viðgerðum á gangstéttum bæjarins o.fl.

En það má ekki gleyma því að þau verk sem hafa verið unnin síðustu fjögur ár hefðu ekki gengið svo vel án góðrar samvinnu L-listans og D-listans. Báðir listarnir hafa alveg frá ráðningu á nýjum bæjarstjóra unnið vel saman og haft hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Þessi samvinna og virðing meðal bæjarfulltrúa hefur vakið eftirtekt víða og megum við Grundfirðingar vera stoltir af því. Við í L-listanum viljum halda áfram góðu samstarfi við D-listann eftir kosningar og með því að tryggja forgang L-listans í næstu bæjarstjórnarkosningum þá munum við leiða það starf áfram.

 

Hinrik Konráðsson.

Höf. skipar 1. sæti á L-lista, Samstöðu-lista fólksins í Grundarfirði.

Fleiri aðsendar greinar