Samráð við þjónustuþega

Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Opinn fundur um þjónustu við einstaklinga með fötlun í Borgarbyggð, var haldinn 27. apríl síðastliðinn. Þetta er í fjórða sinn sem þessi árlegi fundur er haldinn. Að þessu sinni hófst fundurinn á fræðsluerindi frá svokölluðu Sendiherraverkefni. Verkefnið, sem er á vegum landssamtakanna Þroskahjálpar, ber yfirskriftina „Ekkert um okkur án okkar“.  Það felst í því að einstaklingar með fötlun taka að sér að fræða aðra einstaklinga með fötlun samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland hefur verið aðili að samningnum síðan árið 2007. Upphaflega fékkst styrkur frá Evrópusambandinu, árið 2011, til að koma verkefninu af stað, en Velferðarráðuneytið hefur styrkt það síðan. Það eru alls sjö einstaklingar sem taka að sér að sinna þessari fræðslu markvisst um allt land. Aðferðafræði fræðslunnar er jafningjafræðsla. Verndari Sendiherraverkefnisins er forseti Íslands. Verkefnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, meðal annars Múrbrjótinn og Hvatningarverðlaun ÖBÍ. Óhætt er að segja að kynningin sé vönduð og áhrifarík.  Fundargestir gátu einnig lagt fram spurningar og vangaveltur sem sendiherrarnir gerðu sitt besta til að svara.

Að loknu kaffihléi var farið yfir þá þjónustu sem einstaklingum með fötlun stendur til boða í Borgarbyggð. Fundarmönnum var, að venju, skipt í hópa og ritari sá um að skrá niður það sem rætt var í hópnum. Fundurinn var ágætlega sóttur bæði að þjónustuþegum og öðrum.  Miðað er við að næsti opni fundur verði haldinn í apríl 2018.

Velferðarnefnd mun nota þær ábendingar sem fram komu til að stuðla að því að þjónustan verði enn betri. Til eru verkefnalistar fyrir næstu þrjú árin. Þeir eru einskonar vegvísir fyrir nefndina til að koma verkefnum markvisst í framkvæmd. Að sjálfögðu kom líka fram hrós um það sem gengur vel.

Nefndin þakkar þeim sem sóttu fundinn fyrir veitta aðstoð. Ykkar þekking á málaflokknum og ábendingar um hvernig þjónustunni er best háttað, eru okkur mikilvæg til að skipuleggja þjónustuna þannig að hún nýtist sem best.

Þeir sem sáu sér ekki fært að mæta á fundinn, en vilja koma ábendingum varðandi þjónustuna á framfæri, eru hvattir til að hafa samband í síma 692 1461 eða senda póst á netfangið huldahronn@borgarbyggd.is fyrir 1. júní nk.

 

F.h. velferðarnefndar Borgarbyggðar,

Hulda Hrönn Sigurðardóttir, formaður.