Samráð eða ekki samráð, það er efinn!

Laufey og Þröstur

Þriðjudaginn 16. nóvember sl. var haldinn íbúafundur eða samráðsfundur um stöðu sameiningarviðræðna Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar. Væntingar fundarfólks voru að sjálfsögðu að þar færi fram SAMRÁÐ við íbúa, málefnaleg umræða og samræða þar sem fólk gæti komið með hugmyndir og skoðanir sínar inn í umræðuna. Fólk beið líka spennt eftir að sjá og heyra hvaða sýn væri lögð á framtíðina, hvernig sameinað sveitarfélag myndi verða uppbyggt og taka á hlutunum. Vonbrigðin voru mikil, fundurinn var ekki góður. Sem samráðsfundur var lítið samráð í boði. Fólki var ekki gefið færi á að stíga í pontu til að reyfa málin þannig að allir gætu heyrt raddir íbúanna. Fjórir málaflokkar voru kynntir; stjórnsýsla, skólamál, skipulags- og umhverfismál og fjármál. Eftir kynningu á hverjum málaflokki var boðið upp á að koma með spurningar úr sæti eða ábendingar sem voru svo túlkaðar af fulltrúa ráðgjafafyrirtækisins fyrir streymið, jafnframt var hægt að senda inn rafrænar fyrirspurnir sem einungis innihéldu 250 slög. Fyrirspurnir/athugasemdir úr sal komu frá þremur fundarmönnum, skv. fréttatilkynningu frá samráðsnefndinni (skessuhorn.is) voru umræður líflegar, ekki hafa væntingar nefndarinnar verið miklar ef túlkunin af fundinum er slík.

Kynning málaflokkana var afskaplega þunn þar sem einungis var lýst hver staðan er í dag í hverjum og einum þeirra. Ekki komu fram hugmyndir um hvernig þeir muni líta út eftir sameiningu. Þess má geta að upptaka af fundinum átti að fara á netið og opið yrði fyrir að senda inn fyrirspurnir fram að hádegi daginn eftir. Þetta var í raun kynning á ferli sem á að enda með sameiningarkosningu.

Skoðanir og álit íbúa virðast ekki skipta máli. Þessi kynning fólst í yfirtöku Snæfellsbæjar á Eyja- og Miklaholtshreppi með manni og mús. Niðurstaðan er að með þessari sameiningu/yfirtöku fást um 600 milljónir króna frá Jöfnunarsjóði sem greiddar yrðu út á sjö árum. Lítið annað kom fram um framtíðarsýnina. Augljóst er að þarna hafa menn sest niður og spurt hvernig ferlið þurfi að vera til að ná því að kjósa í sameinuðu sveitarfélagi í maí nk. Búið að halda íbúafund, tékk!

Það er forvitnilegt að heyra svo af því hvernig önnur sveitarfélög nálgast vinnu við sameingarferli. Eitt sveitarfélag leggur mikið upp úr náinni samvinnu við íbúa strax frá fyrstu metrum þegar hugmynd kviknar um að sameinast öðru/öðrum sveitarfélögum. Heldur marga íbúafundi, þar sem mikil vinna fer fram meðal íbúa, hópavinna og fólk fær að koma sínum skoðunum á framfæri; t.d. hvert eigi að huga að sameiningu og hvaða mál séu mikilvæg. Fundir teknir upp og eru aðgengilegir í marga daga, kerfi til að senda inn spurningar, ábendingar og athugasemdir er opið í marga daga. En ekki bara til hádegis daginn eftir fund.

Það er flestum Snæfellingum ljóst að framtíðin liggur í því að sameina allt Snæfellsnes í eitt sveitarfélag. Grundfirðingar hafa nú þegar boðað fulltrúa allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi í samtal um það mál. Fulltrúar allra sveitarfélaganna hafa tekið vel í það boð. Við hvetjum fulltrúa sveitarfélaganna á Snæfellsnesi að fylkjast að því sameiningarborði því þar liggur framtíðin. Til framtíðar horfum við.

 

Laufey Bjarnadóttir

Þröstur Aðalbjarnarson

Stakkhamri, Eyja- og Miklaholtshreppi, 342 Stykkishólmi