Samhengi hlutanna

Finnbogi Rögnvaldsson

Umræða um klukkuna er hafin að nýju. Að því tilefni langar mig að skrifa um íslenska stjórnsýslu stutta hugleiðingu – af því að þar þarf að flýta klukkinni! Í megin atriðum er kenning mín sú að þjóðfélagið bíði verulegan skaða af illa upp byggðri stjórnsýslu bæði á sveitarstjórnarstigi og ríkisstjórnar.

Eitt kjördæmi

Fyrst ber þó að nefna það sem sennilega er stærri galli á stjórnsýslunni en menn almennt átta sig á. Með því að hafa landið mörg kjördæmi verður til einskonar stjórnsýsluþáttur á Alþingi. Þingmenn missa áhugann á löggjafanum og þeim tækifærum sem þar kunna að leynast til að tryggja mönnum endurkjör til þings en leggja sig í framkróka við að „vinna fyrir kjördæmið“. Af þessu held ég að leiði ómarkviss vinna á nær öllum sviðum stjórnsýslunnar þó vissulega megi orða þetta með öðrum hætti mildari. Á undanförnum árum hefur þetta þó heldur færst til betri vegar og fjárveitingar orðið agaðri við fjárlagagerð og með samningum t.d. við landshluta í gegnum sérsamninga. Enn er þó of mikið um að þingmenn fara inn á verksvið embættismanna til að bjarga málunum. Oft er þetta mjög áberandi í samgöngumálum en líka í allskonar furðu fjárveitingum og styrkveitingum, tilraunir til að færa stofnanir milli kjördæma og fleira. Vissulega krefst t.d. fjárlagagerð þess að þingmenn séu vel heima í mörgum málaflokkum en kjördæmaskiptingin skemmir mun meira en það sem vinnst við hana.

Sveitarfélög eru veikburða

Sveitarfélögin eru enn alltof mörg. Í stað fárra sveitarfélaga (t.d. 5) sem hafa svipaða burði eru í landinu nokkrar gerðir sveitarfélaga sem öll starfa samkvæmt sömu lögum og hafa að nafninu til sama hlutverk og sömu skyldur. Af þessu leiðir alltof veikt stjórnsýslustig. Vald færist til fárra sveitarfélaga og opinberra stofnana í veigamiklum málum er varða alla íbúa landsins.

Dæmi um þetta er gerð kjarasamninga fyrir starfsfólk sveitarfélaganna. Samninganefnd sveitarfélaga ráðfærir sig ekki mikið við sveitarstjórnarmenn sveitarfélaga með 50 íbúa. Slíkt sveitarfélag er í raun skjól fyrir þá sem ekki vilja búa í sveitarfélagi. En með því að draga sig út úr þessari stjórnsýslueiningu skapast valdaójafnvægi sem meðal annars hefur orðið til þess að styrkja stór sveitarfélög á kostnað hinna fámennu og færa stofnunum óeðlilegt vald. Uppbygging stofnana sýnir þetta vel. Þær draga til sín ný verkefni, störf og völd. Þessar stofnanir fara þangað sem valdið er fyrir. Stofnanir eins og Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun og Samgöngustofa eru dæmi um stofnanir sem draga til sín verkefni frá öllu landinu án þess að fyrir því séu nokkur rök. Afleiðingarnar verða verri þjónusta í sumum sveitarfélögum en vera þyrfti, fábreyttari tækifæri á mörgum sviðum og þar af leiðandi bein áhrif á byggðaþróun. Og þá fara þingmennirnir af stað til að bjarga málunum!

Löggjafarvaldið

Hluti þingmanna eru ráðherrar. Þetta fyrirkomulag ásamt kjördæmaskipaninni og örsveitarfélögunum, verða til þess að ráðherrarnir eru allsráðandi þegar kemur að lagasetningu en eðli málsins samkvæmt ráða ekki við þann kaleik og framselja því jafnvel það vald í hendur embættismönnum, félögum og þrýstihópum. Af þessu leiðir að mikilvægar lagabreytingar hverfa oftar en ekki með hækkandi sól af því einfaldlega að fyrir þeim er ekki áhugi meðal þeirra sem raunverulega fara með löggjafavaldið. Hvað varð um aðskilnað fjárfestingabanka og hefðbundinnar bankastarfsemi svo dæmi sé tekið? Breytingar á lögum um kennitöluskráningu fyrirtækja (kennitöluflakk) sem enn á ný er til skoðunar í þinginu? Dæmin eru mörg og ekki síður um furðu frumvörp sem hafa verið samþykkt.

Draumalandið

Gott kerfi er lykill að góðum árangri. Nauðsynlegt er að bæta stjórnsýsluna ef menn ætla að bæta samfélagið. Það er best gert með því að gera landið að einu kjördæmi, breyta lögum um sveitarfélög þannig að hér verði fá sveitarfélög sem ráði vel við hlutverk sitt og framkvæmdavaldið verði betur greint frá löggjafanum með því að ráðherrar sitji ekki á þingi.

Með núverandi fyrirkomulagi munum við halda áfram að búa við undur eins og íslensku krónuna og þurfa að sæta því að allar raunverulegar réttarbætur séu þvingaðar uppá okkur í gegnum alþjóðasamninga. Hvað sem klukkunni líður.

 

Finnbogi Rögnvaldsson