
Samgöngur til framtíðar
Halla Signý Kristjánsdóttir
Nú hefur samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson lagt fram þingsályktunartillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033. Í henni er að finna stefnu í samgöngumálum og skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem skal ná til alls landsins. Hún kemur inn á heildstæða samþættingu um stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum. Í samgönguáætlun má sjá bætt vinnubrögð en í fyrsta skipti er hún í samræmi við væntanlegar fjárveitingar og í samræmi við Fjármálaáætlun 2019-2023. Hún er því raunhæf áætlun og því engin óraunhæfur óskalisti.
Vestursvæðið
Á vestursvæðinu eru gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdum á Fróðárheiði á næsta ári. Stærsta nýframkvæmdin verður við gerð 2+1 vegar á Kjalarnesi. Þetta er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gífurlegri umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir að strax á árinu 2019 verði hafist handa á þessari brýnu framkvæmd.
Grunnnet á Vestfjörðum er í forgangi og er í áætluninni tryggt fjármagn í uppbyggingu á vegi um Dynjandisheiði og fjármagn í uppbygging vegar í Gufudalssveit. Það er því vonandi að hreppsnefnd Reykhólahrepps komist sem fyrst að skynsamlegri niðurstöðu sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Hringvegir
Vegakerfið á landinu á að tryggja örugga innviði, öflug sveitarfélög og styrkja verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Allt sem lítur að byggðamálum horfir fyrst og fremst á samgöngur í víðum skilningi. Þannig verða samfélög og landshlutar sjálfbærir.
Hringvegur nr. 1 er aðalstofnvegur landsins. Út frá honum greinast æðar í allar áttir. Við tölum um að dreifa ferðamönnum um landið. Allt byggist það á því að grunnþættir samgangna séu tryggðir.
En það þarf að skilgreina fleiri hringvegi um landið en hringveg 1. Hringvegur á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, um Vatnsnesið, svo dæmi séu tekin. Við þekkjum Gullna hringinn og Demantshringveginn á norðausturhorninu. Slík skilgreining myndi hjálpa heilstæðari og jafnari uppbygginu ferðamannastaða á landakortinu. Það myndi einnig vera stefnumótandi fyrir samgönguáætlun. Ekki myndi það einungis koma betur á dreifingu ferðamanna heldur styðja við alla atvinnubyggingu.
Öryggi vegfarenda
Í samgönguáætlun er áhersla lögð á öryggi. Liður í því er að gera átak við lagningu á bundnu slitlagi þar sem það vantar og fækka einbreiðum brúm á umferðamestu vegum landsins. Einbreiðar brýr eru nú 39 á hringveginum. Samkvæmt áætlun á að fækka þeim um 9.
Viðhald vega
Miklu skiptir að lögð sé áhersla á viðhald vega jafnhliða nýframkvæmdum. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir verulega aukningu á framlögum til viðhalds vega. Enda uppsöfnuð þörf mikil. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að öryggi vegfarenda. Í samgönguáætlun 2019-2033 er gert ráð fyrir að auka framlög til viðhalds vega til að sinna og viðhalda verðmæti vegakerfisins eins og kemur fram í tillögu til þingsályktunar. Vegagerð ríkisins fær það verkefni að forgangsraða verkefnum og þá horfa til ástands vegar, hættu sem af honum stafar og umferðarþunga.
Halla Signý Kristjánsdóttir
Höf. er 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis.