Samgöngur á landi og aftur á sjó

Gísli Gíslason

Varaþingmaður og titlaður áhugamaður um samgöngur í NV kjördæmi, fagnaði í Skessuhorni nýjum valkosti í almenningssamgöngum í tilefni af Flóasiglingum milli Akraness og Reykjavíkur.  Undir þann hluta greinar hans er rækilega tekið.  Við sama tækifæri þykir honum nauðsyn að skvetta aðeins á hafnarstjóra Faxaflóahafna og stjórnarformann Spalar ehf. – sem eru víst sami maðurinn.  Sá meinti ójafnaðarmaður leyfir sér þó að taka fram nokkur atriði, varaþingmanninum til fróðleiks.

Undirritaður hefur óneitanlega skipt sér af og komið að ýmsum samgöngumálum á landi og sjó síðustu þrjá áratugi.  Þar má t.d. geta þriggja verkefna: Gerð og rekstur Hvalfjarðarganga, samgönguáætlun fyrir Vesturland, sem öll sveitarfélög á Vesturlandi hafa samþykkt (hana má sjá hér: http://ssv.is/frettir/samgonguaaetlun-vesturlands/) og skýrslu um Flóasiglingar, sem Bergþóra Bergsdóttir úr Reykholti skrifaði fyrir Faxaflóahafnir sf. árið 2015 (þá skýrslu má sjá hér: http://www.faxafloahafnir.is/wp-content/uploads/Sk%C3%BDrsla-um-fl%C3%B3asiglingar-7.1.2014.pdf).  Tilgangur þessara þriggja verkefna var og er einmitt að styrkja innviði samganga á Vesturlandi.  Því miður hafa framlög ríkis til þeirra innviða hins vegar verið með hallærislegasta móti síðasta áratug.  Nú liggur hins vegar fyrir samþykkt sveitarfélaga á Vesturlandi um þau verkefni sem blasa við og því pólitískum fulltrúm NV kjördæmis ekkert að vanbúnaði að afla þeim fjár og þarf þá meira til en áhugann í þeim efnum.

Varaþingmaðurinn telur skjóta skökku við að hafnarstjórinn og stjórnarformaður svonefnds samkeppnisaðila taki það upp á sitt eindæmi að leggja gjald á farþega og þannig sé frá fyrsta degi lagður steinn í götu tilraunarverkefnisins.  Burtséð frá því að farþegagjald er nú þegar í allmörgum höfnum á Íslandi (þó ekki Faxaflóahöfnum enn) og burtséð frá því að gjald Faxaflóahafna sf. verður ekki lagt á fyrr en 1. apríl 2018, þá eru að vísu 2 ár síðan þessi gjaldtaka var boðuð og endanlega ákveðin af stjórn Faxaflóahafna sf., þar sem sitja fulltrúar eigenda, enda fyrirhugað að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir vegna farþega hafsækinnar ferðaþjónustu og skemmtiferðaskipa.  Ekki koma fjármunir til þeirrar uppbygginar frá ríkinu eða úr bæjarkössum og hver veit nema farþegaaðstaða verði byggð á Akranesi ef Flóasiglingar lukkast farsællega, sem vonandi verður.  Hér má nefna að undirritaður stóð fyrir því á sínum tíma að veggjald um Hvalfjarðargögn er ekki tekið af almenningssamgöngum, en það er kannski verkefni kjörinnar fulltrúa að tryggja lögmæti þess að almenn fyrirtæki geti ívilnað almenningssamgöngum og þannig undanþegið þær farþegagjöldum og veggjöldum, ákveði Alþingi að taka upp almenn veggjöld.  Að auki má vekja athygli á þingsályktunartillögu Elsu Láru Arnardóttur um skattaívilnun til handa þeim sem sækja vinnu eða nám um lengri veg, en sú tillaga hefur ekki fengið merkilega meðhöndlun fulltrúa á Alþingi.  Þar sem undirritaður er að komast á efri starfsár þá þarf varaþingmaðurinn ekki að hafa áhyggjur af því að þarna sé verið að hugsa um eigin hagsmuni, en ótvírætt myndi samþykkt á tillögu Elsu Láru bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni enda aðferðafræðin þekkt í nágrannalöndum okkar.

Það er skylt með Flóasiglingum og Hvalfjarðargöngum að samgöngubótin er á vegum annarra aðila en ríkisins og greitt fyrir hvoru tveggja.  Eins og fram hefur komið þá lýkur Spölur verkefni sínu á miðju ári 2018 og göngin verða þá eign ríkisins og framhald mála í höndum Alþingis. Vonandi er hins vegar að endurvakin Flóasigling sé aðeins upphafið að lengri sögu, en þar veltur allt á viðtökum þeirra sem vilja nota. Sjálfur var ég með þeim fyrstu sem keypti 20 miða kort í ferjuna Akranes og er einnig með 100 ferða veglykil í göngin.  Ber þar að sama brunni að greitt er fyrir bættar samgöngur og aukið öryggi.  Það blasir hins vegar við að hinir opinberu vegir á sunnanverður Vesturlandi og á Kjalarnesi hafa lengi legið óbættir hjá garði þannig að öryggi vegfarenda er í auknum mæli stefnt í tvísýnu.  Með ört vaxandi umferð er einnig ljóst að með sama áframhaldi standast Hvalfjarðargögn ekki þá reglugerð sem kveður á um öryggi í jarðgöngum.  Í þessum efnum dugir ekki áhuginn einn, heldur beinar aðgerðir og fjármunir.  Þar hefur verið beðið eftir myndarlegri innkomu kjörinna fulltrúa, því hafnarstjóri Faxaflóahafna sf. og formaður stjórnar Spalar ehf. ræður engu um þær ákvarðanir sem beðið er eftir.  Það er því betra að vera skensaður fyrir að hafa gert eitthvað fremur en athafnaleysi.

 

Gísli Gíslason