Samfylking og óháðir í Borgarbyggð – fólkið í efstu fimm sætunum

Samfylking og óháðir í Borgarbyggð

Samfylking og óháðir bjóða fram lista í sveitarstjórnarkosningum í Borgarbyggð. Þar er á ferðinni öflugur hópur sem vill leggja sitt að mörkum til að sveitarfélagið geti nýtt þá gríðarmiklu möguleika sem blasa við. Bætt þjónustu og búsetuskilyrði. Byggt upp innviði og mannauð. Hér eru kynntir til leiks fimm efstu á þeim lista.

 

Magnús Smári

Í oddvitasætinu situr Magnús Smári Snorrason 47 ára, sveitarstjórnarfulltrúi og atvinnulífstengill hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði. Hann er búsettur í Borgarnesi og er giftur Signýju Óskarsdóttur eiganda Creatrix og gæðstjóra Háskólans á Bifröst. Þau eiga þrjár dætur. Hann er menntaður í Háskólanum á Bifröst og er með BA í alþjóðafræðum og diplómu á meistarastigi í forystu og stjórnun. Magnús hefur búið í Borgarbyggð í 14 ár, fyrst á Bifröst og svo í Borgarnesi frá 2012. Magnús hefur setið í sveitarstjórn fyrir Samfylkinguna á kjörtímabilinu sem er að líða og undanfarin rúm tvö ár í meirihlutasamstarfi XS og XD. Magnús hefur gegnt ýmsum störfum fyrir sveitarfélagið. Setið í byggðarráði, verið formaður fræðslunefndar, setið í stjórn SSV, í stjórn Faxaflóahafna, auk þess að starfa í ýmsum nefndum og hópum. Nú fer hann fyrir nefnd sem hefur það verkefni að gera stefnu um upplýsingamál og þátttöku íbúa.

 

María Júlía

Annað sætið skipar María Júlía Jónsdóttir 39 ára, hársnyrtimeistari. Hún er fædd og uppalin í Borgarnesi og búsett þar í dag ásamt eiginmanni sínum Jónasi Björgvini Ólafssyni matreiðslumanni og börnum þeirra sex. Hún er hársnyrtimeistari að mennt og rak hársnyrtistofu í Borgarnesi í rúm 10 ár en lagði skærin á hilluna árið 2016. Hún starfar nú við ferðaþjónustu og í Kaupfélagi Borgfirðinga, auk þess að vera að bæta við sig menntun. Hún tók við sem við sambandsstjóri UMSB í mars síðastliðnum. Hún hefur áður komið að sveitarstjórnarmálum og skipaði 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Borgarbyggð árið 2010 og starfaði í framhaldi af því í nefndum á vegum sveitarfélagsins. Hún tók sér hlé frá sveitarstjórnarstörfum að því kjörtímabili loknu, en steig inn aftur sl. haust sem nefndarmaður og varaformaður í Umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefnd.

 

Logi

Logi Sigurðsson skipar 3. sæti listans. Hann er 26 ára gamall, fæddur í Reykjavík en hefur búið í Borgarfirði frá því að hann var barn. Hann fluttist í Lundarreykjadal 2008 og byggði þar fjárhús ásamt fjölskyldu sinni. Hann er búfræðingur að mennt en stundar nú nám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Logi starfar bæði sem sauðfjárbóndi og við fósturtalningar í sauðfé víða um land. Sambýliskona Loga er Lára Lárusdóttir nemi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Eigu þau eina dóttur, hana Eik Logadóttur. Í Steinahlíð búa einnig foreldrar Loga þau Inga Stefánsdóttir og Sigurður Ragnarsson sálfræðingar. Logi sat í landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar eftir kosningar 2010. Logi er óháður frambjóðandi.

 

Margrét

Margrét Vagnsdóttir skipar 4. sæti listans. Hún er 55 ára gömul, fædd og uppalin í Bolungarvík. Hún flutti á Bifröst fyrir 13 árum síðan ásamt fjölskyldu sinni þegar hún hóf laganám við Háskólann á Bifröst. Að loknu laganámi starfaði hún hjá sýslumanninum í Búðardal við ýmsa málaflokka. Áður hafði hún starfað m.a. sem aðalbókari hjá fyrirtækinu Securitas í Reykjavík, á endurskoðendaskrifstofum og hjá sýslumanninum á Hólmavík. Hún starfar nú sem sérfræðingur á fjármálasviði Háskólans á Bifröst. Hún er gift Guðjóni Fr. Jónssyni húsasmíðameistara sem starfar á húsnæðissviði háskólans og sem húsasmíðakennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Þau eiga eina 17 ára gamla dóttur. Margrét hefur ekki áður tekið þátt í sveitarstjórnarstörfum en hún hefur lengi verið virk í félagsstörfum. Hún hefur m.a. um árabil verið félagi í Rauða krossinum og var m.a. formaður Borgarfjarðardeildar í tvö ár og hefur átt sæti í landsstjórn Rauða krossins sl. fjögur ár. Þá er hún einnig félagi í Rótarýklúbbi Borgarness og danshópnum Sporinu. Margrét er óháður frambjóðandi.

 

Guðmundur Karl

Fimmta sætið skipar Guðmundur Karl Sigríðarson 36 ára, framkvæmdastjóri Landnámsseturs Íslands, búsettur í Borgarnesi. Guðmundur er fæddur á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hann fluttist ungur að árum með foreldrum sínum til Kantaraborgar í Englandi þar sem þau stunduðu nám. Fimm ára gamall fluttist hann aftur til Íslands. Hann hefur eftir þann búið í Reykjavík, Los Angeles, Mexíkó og ellefu ár í Svíþjóð þar sem hann stundaði nám í alþjóða stjórnmálahagfræði, mannfræði þróunarlanda og samskiptafræðum. Guðmundur byrjaði að vinna hjá Landnámssetrinu árið 2009 og var þá í námi á veturna. Árið 2014 ákvað hann að setjast að í Borgarbyggð og sér svo sannarlega ekki eftir því. Guðmundur er óháður frambjóðandi.

Nú er verið að leggja lokahönd á málefnavinnu framboðsins og eru allir hvattir til að setja sig í samband við frambjóðendur og koma á framfæri þeim málum sem þeir telja mikilvæg fyrir samfélagið.

 

Fleiri aðsendar greinar