Samfélagið verður aldrei meira eða annað en fólkið

Sigurður Gísli Guðjónsson

Fyrir sjö árum síðan fluttum við fjölskyldan í Grundarfjörð og sjáum ekki eftir þeirri ákvörðun. Náttúrufegurð blasir við hvert sem litið er en mikilvægast er að hér býr gott fólk sem gerir gott samfélag. Það var því létt verk að aðlagast staðháttum.

Grundarfjörður er fjölskylduparadís. Eins og allt fjölskyldufólk veit þá viljum við foreldrarnir börnum okkar allt það besta. Það er því ánægjulegt að núverandi sveitarstjórn skuli hafa ákveðið að fara í þá vegferð að hefja innleiðingu á barnvænu samfélagi. Barnvænt samfélag setur unga fólkið okkar í forgang, tryggir það að börnin hafi rödd, hafi eitthvað um málin að segja. Þeirra er framtíðin. Við viljum að börn og unglingar séu hluti af ákvörðunum, að á þau sé hlustað og tillit tekið til þeirra skoðana.

Grundarfjörður hefur alla burði til að verða samfélag sem barnafjölskyldur kjósa að velja sér til búsetu. Því er það algjört forgangsatriði að tryggja að nægt framboð íbúða standi fólki til boða.

Skólamál eru sömuleiðis mikilvæg öllu fjölskyldufólki. Þegar fólk velur sér stað til búsetu skoðar það ætíð hvernig staðið er að skólamálum. Við viljum tryggja gott skólastarf á öllum stigum með því að ráða áhugasamt og metnaðarfullt starfsfólk til skólanna. Leikskólinn þarf að taka við börnum frá 12 mánaða aldri og sömuleiðis þarf að fjölga leiksvæðum. Tryggja þarf að grunnskólinn geti boðið upp á fjölbreytt námsval þrátt fyrir smæð sína. Tómstundastarf, íþróttir þar með taldar, þurfa að vera sem fjölbreyttastar þannig að allir finni eitthvað við hæfi. Það er ánægjulegt sömuleiðis að hafa hér góðan framhaldsskóla sem og tónlistarskóla.

Samfélagið verður aldrei meira eða annað en fólkið sem þar býr og því þarf að styðja við góð verkefni sem samfélagið sameinast um. Við tölum hér öll um að fjölga þurfi íbúum. Við verðum að hlúa vel að íbúum okkar, ungum sem öldnum og gera samfélagið þannig að fólk vilji setjast að til langframa.

Á næsta kjörtímabili bíða okkar mörg veigamikil verkefni. Fjárhagsstaða Grundarfjarðarbæjar er góð og gefur andrými til metnaðarfullra verka. Nú er skuldahlutfall samkvæmt reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélags orðið 111,66% í samanteknum ársreikningi sem birtur var á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar í vikunni, en var 119,37% árið 2020.

Við ætlum í uppbyggingu á mörgum sviðum. Hér vantar húsnæði og það er grundvallaráskorun okkar í uppbyggingu næstu ára. Við viljum markaðssetja svæðið okkar þannig að við getum tekið vel á móti ört stækkandi ferðamannastraumi.

Sundlaugin okkar hefur mikið aðdráttarafl. Hún er lítil en sjarmerandi og svæðið býður upp á ýmsa möguleika. Ákveðinn áhugi er á að reisa þar litla rennibraut en til þess að svo megi verða þarf að fara í nákvæma skipulagsvinnu sem hentar þessari litlu en sjarmerandi sundlaug.

Í Grundarfirði eru tækifærin mörg. Höfnin er með þeim betri og býður upp á marga möguleika og mun stórauka ferðamannastraum hér um svæðið. Nú þegar hafa mörg skemmtiferðaskip boðað komu sína. Því miður eru vegir ekki ásættanlegir á svæðinu og því þarf að koma í lag hið fyrsta áður en ferðamenn fara að streyma á svæðið í stórum stíl.

Framtíðin er björt fyrir íbúa Grundarfjarðar og það verður gaman að taka þátt í uppbyggingunni ef mér verður treyst til þess.

 

Sigurður Gísli Guðjónsson

Höf. er í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokks og óháðra í Grundarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum.