Samfélag á krossgötum – úr borg í sveit?

Helgi Eyleifur Þorvaldsson

Covid 19 má finna flest til foráttu en fæst er svo með öllu illt… Covid kenndi líka; það hægði á tímanum og bjó til rými fyrir fólk til að heyra í eigin hugsunum, gefa sér tíma til að hlusta, sinna börnum og hugðarefnum. Covid gerði fjarvinnu líka að raunverulegum valkosti því annað var ekki í boði. Því hafði verið spáð að á næstu 10 árum gæti fjarvinna orðið mun algengari en plágan neyddi okkur til að flýta þeim áformum úr 10 árum í 10 mánuði. Í dag þekkja nær allir teams- og zoom fundi hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Covid neyddi okkur til að breyta lífsvenjum okkar hratt og í þeirri stöðu eru mennirnir góðir sé þörfin augljós.

Fjarvinna og svokölluð gigg-vinna, þar sem starfsmaður ræður sig tímabundið til starfa, er orðið samþykkt form á vinnumarkaði og getur verið afar gagnlegt fyrir bæði starfsmann og fyrirtæki sem dregur þannig úr kostnaði. Færa má rök fyrir því að fjarvinna sé eitt stærsta atvinnutækifæri sem landsbyggðin hefur séð lengi. Ljósleiðaravæðing hefur gengið vel og ber að þakka þeim er stóðu í stafni þeirrar vinnu. Íbúðarverð á höfuðborgarsvæðinu er í hæstu hæðum og bendir fátt til þess að breyting verði þar á. Fólk stendur því í auknum mæli frammi fyrir þeirri spurningu hvort lífið væri einfaldara, rólegra, tíminn rýmri og afborganir af húnsæðislánum lægri ef flutt væri úr borg í sveit. Næstu 5-10 ár verða afar áhugaverð. Verður þróunin þessi eins og ýmsar spár benda til, eða heldur samþjöppun á höfuðborgarsvæðinu og í fáum bæjarkjörnum áfram.

Það má því færa rök fyrir því að samfélagið standi nú á krossgötum og því er mikilvægt að ígrunda stórar ákvarðanir vel með þetta í huga, horfa 5, 10, 20 og 70 ár fram í tímann. Rekstur skóla hefur mikið værið ræddur, hvort fækka eigi skólum og stækka einingar til að gera þær hagkvæmari í rekstri og einingarnar öflugri fyrir félagsmótun barna. Þau rök eru góð og gild en þetta sjónarmið hefur mér þótt vanta í umræðuna; hvar verðum við stödd með mannfjölda og dreifingu hans eftir 10-20 ár? Verður fjarvinnu og gigg-menningin allsráðandi? Mun það sem dró fólk í borgir hér áður, trygg atvinna, hafa misst mark sitt? Munu fyrirtæki hreinlega hvetja til þess að fólk vinni meira heima og hvar sem er til að spara fjármagn sem fer í rekstur og kaup á dýru skrifstofuhúsnæði? Verður Meta heimurinn, hinn svokallaði sýndarveruleikaheimur, hluti af hversdagsleikanum? Öllum þessum spurningum er ósvarað en svörin við þeim gætu orðið á þá leið að það skipti minna og minna máli hvar fólk býr. Fólki gæti fjölgað úti á landi og þá gæti orðið dýrkeypt fyrir sveitarfélag að hafa fækkað möguleikum á skólahúsnæði. Stuttar vegalengdir í skóla trekkja að fjölskyldufólk og Borgarbyggð er landstórt sveitarfélag. Hugsum hlutina í víðu samhengi og langt fram í tímann eins og kostur er á þegar við tökum stórar ákvarðanir.

 

Helgi Eyleifur Þorvaldsson

Höfundur er frambjóðandi VG í Borgarbyggð