Sameinum allt Snæfellsnes

Valgarð S Halldórsson

Sameining sveitarfélaga getur verið mikilvægt skref í styrkingu byggðar.  Sannarlega hafa stærri sveitarfélög þyngri slagkraft og geta þannig verið áhrifameiri í að koma góðum málum til leiðar.  Ég styð fækkun og stækkun sveitarfélaga en aðstæður eru mismunandi.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa um langt árabil haft mikið samstarf sín á milli í gegnum Byggðasamlag Snæfellinga sem fer með; Skóla- og félagsþjónustuna, rekstur Byggðasafnsins, Earthcheck og Svæðisgarðinn auk þess koma þau að rekstri Fjölbrautaskólans í Grundarfirði.  Öll þessi samstarfsverkefni og reyndar fleiri s.s. brunavarir hafa komið til af því að ekki hefur verið vilji eða áhugi á að sameina sveitarfélögin.  En lítum á nokkur atriði sem snúa að Snæfellsnesi:

  • Í sveitarfélögunum fimm eru um 3.900 íbúar, í Borgarbyggð eru þeir um 3700 og talið er að til að sveitarfélag sé sjálfbært – hvað svo sem það þýðir – þurfi íbúarnir að vera 4000. Í Eyja- og Miklaholtshreppi og Snæfellsbæ eru aðeins um 1700 íbúar – það yrði því skammvinn gleðin af þeirri sameiningu, stærri sameining biði.
  • Talið er að um það bil 95% af tekjum sveitarfélaga sé bundið í lög hvernig þeim skuli ráðstafað. Aðeins um 5% af tekjum hafa sveitarstjórnarmenn til „frjálsrar“ ráðstöfunar.  Fjármál smærri sveitarfélaga eru erfið og þegar svigrúmið er lítið takmarkast þjónustan en á sama tíma er krafa um aukna nærþjónustu og jafnframt er vilji ríkisvaldsins til að færa aukin verkefni til sveitarfélaganna.
  • Eitt stærsta vandamál sveitarstjórna er mönnun. Sveitarstjórnamenn sitja í langflestum tilvikum í eitt kjörtímabil, nokkrir í tvö og einstaka maður lengur.  Framboð fólks til þessara starfa er af skornum skammti og oft vandamál að manna lista fyrir kosningar og/eða fá fólk til starfa á þessum vettvangi.
  • Skólamál eru vissulega stórt verkefni fyrir fámenn sveitarfélög. Með aukinni notkun samfélagsmiðla, auðveldu aðgengi að netspjalli og stöðugt yngri notendum eykst samanburðurinn við fjölbreytileikann sem er í boði í stærri skólasamfélögum. Vissulega geta fámennari skólasamfélög boðið annars konar þjónustu og sumum hentar betur fámennið.  Ekki er þörf á að sameina sveitarfélög til að taka upp samstarf um rekstur grunnskóla.

Ég hvet íbúa Eyja- og Miklaholtshrepps til að kanna hug sinn vel til þess hvaða kostir eru fólgnir í því fyrir okkur að sameina sveitarfélagið við Snæfellsbæ. Þrátt fyrir að ég vilji færri og stærri sveitarfélög þá sé ég ekki enn kostina sem fylgja þessari sameiningu – skrefið er allt of lítið. Ég horfi hins vegar vonaraugum til þess að litla sveitarfélagið okkar verði þátttakandi í stærri sameiningu á öllu Snæfellsnesi á næsta kjörtímabili.

Ef af yrði myndi verða til öflugt sveitarfélag sem hefði slagkraft til nýrra breytinga, taka núverandi samstarfsvettvanga sveitarfélaganna undir sinn væng og endurskipuleggja.  Svo gæti farið að um yrði að ræða eina hafnarstjórn, einn grunnskóla (kenndur á nokkrum stöðum), eitt tæknisvið o.s.frv.  Krafa er um að þjónusta við íbúa verði aukin t.d. með aukinni stafrænni þjónustu og lýðræðislegum vettvangi íbúanna í ákvarðanatöku og stefnumótun.

Sameiginlegt sveitarfélag yrði öflug rekstrareining.  Framlag Jöfnunarsjóðs yrði a.m.k. 1,8 milljarður á sjö árum og þar af rúmur milljarður til skuldajöfnunar.  Hlutfall skuldaviðmiðs í sveitarfélaginu, að þeim tíma liðnum, yrði um 60% en það skapar sterka rekstrareiningu og skuldabyrði væri vel innan allra marka meðal sveitarfélaga.

Styrkjum fjölskylduböndin og tökum þátt í að sameina allt Snæfellsnes.

 

Valgarð S Halldórsson