Sameining sveitarfélaga

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Ráðherra sveitarstjórnarmála hefur látið það boð út ganga að hann vilji að sveitarfélögum verði fækkað og að þau þurfi að vera a.m.k. með eitt þúsund íbúa árið 2026. Þetta á ekki að gera með stjórnvaldsboði, heldur á að leyfa (ég segi leyfa) íbúum að kjósa um hvert þeirra sveitarfélag sameinast.

Afhverju? Afhverju áhveður löggjafinn ekki hvernig umdæmum sveitarfélaga skuli háttað? Jú það er vegna þess að við ætlum að láta tilfinningar ráða, frekar en hagkvæmni.

Ég sé fyrir mér að Dalabyggð sameinist sveitarfélögum í báðar áttir og Búðardalur verði áfram miðpunkturinn. Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur, sameinist í eitt öflugt sveitarfélag! Við náum jú 1000 manna markinu! Jeyy! Og hvað svo? Áfram verða reknir 3-4 skólar í þessu sveitarfélagi, þannig að innan við 300 manns standa að baki hverjum skóla. Áfram rekum við hafnir, safnahús, elliheimili og allt sem við erum að gera í dag, en… við erum þúsund + íbúar.

Nei! Ég vil ekki að við séum að kjósa um þetta, takk fyrir! Við íbúar eigum ekki að vera sett í þá stöðu að þurfa að kjósa um þetta. Og til hvers að kjósa, þegar okkur er sagt að ef sameiningin verði ekki samþykkt, þá muni ráðuneytið leggja saman sveitarfélög, hvort sem þau vilja eður ei, til að ná þúsund manna markinu. Og það er einmitt kjarni málsins. Þess vegna á löggjafarvaldið að ákveða mörk sveitarfélaga og þá ekki útfrá mannfjölda, því hann er jú breytileg stærð, heldur út frá landfræði, því fjöll og firðir færast sjaldan úr stað.

Þá er hitt ekki síður mikilvægt. Hver eiga hlutverk/verkefni sveitarfélaganna að vera? Er ekki nær að byrja á því að vinna skýra stefnu þar um innan stjórnkerfisins, áður en farið er í sameiningarvinnu, afþví bara! Afhverju að fækka sveitarfélögum, ef áfram fæst ekki fjármagn til reksturs þeirra verkefna sem sveitarfélögin eru nú þegar með á sinni könnu?

Er málið kannski að viðhalda sveitarfélögunum sem samfélagseiningu og láta þau hafa smá sporslu til rekstrar, en þess í stað koma á fót millistigi sem sér um rekstur á stóru verkefnunum! Nei ég bara spyr!

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Fleiri aðsendar greinar