
Sameining samfélagsins á sunnanverðu Snæfellsnesi
Eiríkur Böðvar og Franziska María
Í febrúar næstkomandi stendur til að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar. Fulltrúar þessara sveitarfélaga ásamt reyndum sameiningarráðgjöfum hafa unnið að undirbúningi þessa verkefnis og munu skila tillögum sínum núna á aðventunni. Þriðjudaginn 16. nóvember sl. var haldinn samráðs- og upplýsingafundur með íbúum sveitarfélaganna þar sem hver sem vildi gat sent inn spurningar, tillögur eða ábendingar í gegnum netið. Gögn fundarins og svör við spurningunum ásamt fleiri upplýsingum um þetta verkefni eru á vef þess, www.snaefellingar.is
En skiptir þessi sameining einhverju máli?
Sennilega er flestum ljóst að í framtíðinni verða öll sveitarfélögin á Snæfellsnesi sameinuð í eitt, enda væri það skynsamlegt því það þarf öflug sveitarfélög til að halda uppi þjónustu og styðja við búsetu á landsbyggðinni. Ekki er ósennilegt að í sveitarstjórnarkosningunum árið 2026 verði kosið í sameinuðu sveitarfélagi á öllu Snæfellsnesi. En það verður að teljast ólíklegt að sameining eða ekki sameining Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar á næsta ári eigi eftir að hafa nokkur áhrif á framvindu stóru sameiningarinnar, hvorki til seinkunar, flýtingar eða á nokkurn annan hátt. Það getur hins vegar skipt miklu máli fyrir samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi til að eflast og dafna að sameinast núna.
Á heimasíðunni www.snaefellingar.is kemur fram að markmið sameiningarinnar sem á að kjósa um í febrúar er: “…að sameiningin styrki byggð og skapi frekari sóknartækifæri fyrir samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi.“ Samgöngur á sunnanverðu Snæfellsnesi eru tiltölulega góðar og fjarskipti sömuleiðis, ljósleiðari hefur verið lagður til allra þeirra sem það vildu. Þannig að samgöngur og fjarskipti ættu ekki að aftra neinum verkefnum á svæðinu. Eitt af því sem myndi styrkja byggðina er fjölgun íbúa, og best væri að fá fleiri fjölskyldur með börn, en góður leik- og grunnskóli er forsenda þess að barnafjölskyldur horfi til svæðisins með búsetu í huga.
Að okkar mati eru skólamál og þjónusta við barnafjölskyldur stærsta og mikilvægasta mál þessarar sameiningar. Á sunnanverðu Snæfellsnesi eru nú reknir tveir grunnskólar af þessum tveimur sveitarfélögum. Báðir skólarnir eru í gömlum byggingum og hafa fáa nemendur sem gerir það að verkum að rekstur þeirra er að mörgu leiti töluverð áskorun. Í besta falli er það ólíklegt að báðir skólarnir verði reknir mörg ár enn og ef festa á í sessi skólahald á sunnanverðu Snæfellsnesi er grundvallaratriði að sameina Lýsuhóls- og Laugargerðisskóla í einn skóla.
Góður skóli sem er rekinn af metnaði og framsækni er líklegri til þess að laða að fjölskyldufólk en nokkuð annað. Þess vegna verður samstarfsnefndin að setja fram skýra stefnu í skólamálum sem verður hægt að vinna hratt og örugglega ef að sameiningu verður! En ef að niðurstaðan verður sú að sameina ekki þessi tvö sveitarfélög og gera ekki einn öflugan skóla á sunnanverðu nesinu er veruleg hætta á að endingin verði sú að báðir skólarnir verði lagðir niður og börnin í framhaldinu keyrð yfir Vatnaleið og Fróðárheiði til skóla, það væri hrikaleg niðurstaða fyrir samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Við undirrituð fluttum í Staðarsveit haustið 2018, þá með einn tveggja ára strák með okkur og litla stelpu á leiðinni. Við fluttum heim í sveitina okkar svo gott sem um leið og ljósleiðarinn var kominn í gagnið og hægt var að sinna vinnu yfir netið. Ef ekki væri fyrir þá staðreynd að á svæðinu er góður leik- og grunnskóli hefðum við ekki látið verða af því að setjast hér að með börnin okkar. Ekki vegna þess að við höldum að leik- og grunnskólarnir í Ólafsvík og á Hellissandi séu ekki góðir, síður en svo, heldur vegna þess að við myndum ekki vilja bjóða börnunum okkar uppá að þurfa að fara yfir fjallveg til að fara í skólann, en einnig af því að skólinn og starfið í honum rammar inn samfélagið. Til að útskýra það aðeins betur þá hefur í gegnum tíðina allt samfélagið í skólahverfi Lýsuhólsskóla sinnt skólanum og staðið við bakið á honum. Margir mæta á árshátíðir, tónleika og föndurdaga þó að börn þeirra hafi útskrifast úr skólanum jafnvel fyrir tugum ára síðan, allir eru velkomnir. Ef skólinn væri ekki til staðar fyrir alla til að sameinast um væri samfélagið mun fátækara.
Að okkar mati skiptir þessi sameining verulegu máli fyrir framtíð byggðarinnar og samfélagsins á sunnanverðu Snæfellsnesi! Við viljum því hvetja alla í Eyja- og Miklaholtshreppi og Snæfellsbæ til þess að kjósa með þessari sameiningu þegar þar að kemur. Þannig verður hægt að gera einn góðan skóla hér á sunnanverðu nesinu sem samfélagið getur fylkt sér á bakvið og staðið með, vaxið og dafnað!
Eiríkur Böðvar Rúnarsson og Franziska Maria Kopf,
Böðvarsholti 1, Staðarsveit, 356 Snæfellsbæ