Sameining Dalabyggðar og Húnaþings vestra frá mínum bæjardyrum séð

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Umræðan um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra hefur ekki verið áberandi í umræðunni undanfarið þó komið sé að kosningu þar um. Sveitarfélögin hafa þó staðið sig með prýði bæði með vandaðri og opinni vinnu og skilmerkilegri framsetningu á vinnunni á heimasíðunni www.dalhún.is og sínum eigin síðum.

Ég veit að margir velta því fyrir sér hvað slíkt skref þýðir í raun og veru fyrir svæðin tvö. Sameining sveitarfélaga er aldrei einfalt mál; hún snertir bæði þjónustu, sjálfsmynd, fjárhag og framtíðarhorfur byggðarlaga, stundum ólíkra, en í þessu máli, nokkuð líkra. Við skoðun má greina ákveðna kosti sem gætu fylgt sameiningu, en um leið eru til veigamikil atriði sem kalla á varfærni og vel ígrunduð svör.

Með sameiningu mætti ef til vill styrkja stjórnsýsluna, því stærra sveitarfélag hefur möguleika á að byggja upp fjölbreyttara og sérhæfðara starfsfólk. Slíkt getur gert þjónustuna stöðugri og minnkað viðkvæmni og jafnvel komið í veg fyrir örar mannabreytingar. Sama má segja um innviðauppbyggingu; þegar fjárhagslegt bakland er breiðara getur sveitarfélagið brugðist betur við þörf fyrir nýjum eða breytingum á veitum, svo sem vatns og fráveitu, endurskipulagningu sorpmála eða öðrum verkefnum sem lítil sveitarfélög eiga oft erfitt með að standa ein undir, að ekki sé minnst á ófyrirséð áföll eða útgjöld. Sumir telja að sameinað sveitarfélag gæti haft sterkari rödd gagnvart ríkinu og þannig átt greiðari aðgang að fjárfestingum og landsáætlunum. Og með sameiginlegri framtíðarsýn væri hugsanlegt að þessi tvö svo líku svæði gætu sameinuð unnið heildstætt að öflugri atvinnu- og byggðaþróun sem byggir á sögulegum og menningarlegum grunni hvors um sig.

Þrátt fyrir þetta eru nokkur atriði sem skapa eðlilegar efasemdir. Íbúar í Dalabyggð hafa áhyggjur af því að þjónustan fjarlægist og verði ópersónulegri ef stjórnsýsla og ákvarðanataka fjarlægist meira en orðið er. Þegar sveitarfélag stækkar er líka hætta á að minni samfélög verði með takmarkaðri rödd í stærri heild, enda ræður íbúafjöldinn oft miklu um áhrif. Þá má ekki horfa fram hjá því að Dalabyggð og Húnaþing vestra eiga ekki sérlega sterk söguleg tengsl (utan verslunarsögu hér á árum áður meðan samgöngur voru enn verri en þær eru í dag). Dalamenn leita þjónustu og verslunar nær eingöngu til suðurs, Borgarness og Reykjavíkur, en mun síður til Hvammstanga eða Stykkishólms. Slík landfræðileg og félagsleg fjarlægð getur gert sameiningu stirða í framkvæmd. Að auki er ekki víst að sameining leiði til sparnaðar; samræming stjórnsýslu og þjónustukerfa getur verið bæði kostnaðarsöm og tímafrek. Loks óttast margir að sérstaða Dalabyggðar – lipur stjórnsýsla, nálæg þjónusta og sterk byggðarsjálfsmynd – gæti dvínað í stærra sveitarfélagi.

Mín eigin afstaða til sameiningarkosninga er nokkuð skýr. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að íbúar taki þátt þegar þeim er boðið að greiða atkvæði um svona málefni; það er hluti af ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu og framtíð þess. Samt tel ég rétt að segja að uppbygging sveitarfélaga, tilfærsla þjónustuumdæma og breytingar á stjórnsýslueiningum séu í grunninn verkefni sem heyra undir stjórnvöld, rétt eins og lögsagnarumdæmi, heilsugæsluumdæmi, skólahverfi eða sýsluskipan. Í slíkum málum er sjaldnast boðið upp á bindandi kosningar og ef spurt er, þá gildir það oftast aðeins sem ráðgefandi álit.

Ég tel því að ríkið mætti alveg axla meiri ábyrgð á þessum málaflokki, taka ákvarðanir út frá faglegum rökum og heildarhagsmunum samfélaga á hverju svæði – og þannig draga úr líkum á því að íbúar í samfélögunum lendi í óþarfa ágreiningi vegna málaflokks sem í raun er kerfisleg stjórnsýsluspurning. Í litlum samfélögum skiptir miklu máli að umræðan sé yfirveguð, kurteis og byggð á gagnkvæmri virðingu. Við erum öll að reyna að tryggja að byggðarlögin okkar dafni og það á ekki að vera ástæða til ósættis þó að fólk meti þessi mál á ólíkan hátt.

Ég hef ekkert á móti þessari tillögu í sjálfu sér og hver veit nema þetta gæti orðið upphafið að einhverju ennþá betra, eða ekki.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Erpsstöðum