Sameining Dalabyggðar og Húnaþings vestra

Margrét Guðmundsdóttir

„Á Dalabyggð að bjarga SSNV?“

Nú styttist í að íbúar Dalabyggðar fái að kjósa um mögulega sameiningu við sveitarfélagið Húnaþing vestra.

Ég hef áður lýst skoðun minni í grein í Skessuhorni að ég telji þessa sameiningu ekki þjóna hagsumunum íbúa og eigendum jarða og fyrirtækja í Dalabyggð.  Í því samhengi er áhugavert að horfa til þess hvert íbúar Dalabyggðar leita eftir þjónustu í dag.  Fyrir utan að sækja þjónustu í Búðardal, liggur leið margra í Borgarnes og Stykkishólm og má segja að þessir tveir þéttbýliskjarnar séu í dag bakhjarlar Dalabyggðar.  Ég tel að Hvammstangi muni aldrei ná að leysa þetta hlutverk fyrir íbúa og þess vegna sé verið að fara yfir lækinn eftir vatni að horfa til sameiningar við Húnaþing vestra.

Það vakti athygli mína að á vef Morgunblaðsins þann 5.11.25 birtist frétt þess efnis að SSNV (Samtök sveitafélaga á Norðurlandi vestra), sem nær til Húnaþings vestra, Húnabyggðar, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagafjörður hafi óskað eftir fundum með fulltrúum ríkisstjórnarinnar til að ræða stöðu Norðurlands vestra og aðgerðir til að snúa neikvæðri þróun við.  Forsætisráðherra vísaði fyrirspurninni á Innviðaráðuneytið og hafnaði fundi með fulltrúm SSNV.

Í fréttinni er haft orðrétt eftir stjórn SSNV:

„Stjórn harmar svar forsætisráherra og viðbragðsleysi ríkisstjórnarinnar og telur að sú afstaða endurspegli áhugaleysi þeirra á því að takast á við þá alvarlegu stöðu sem uppi er í landshlutanum,“ segir í fundargerðinni.

Samtökin segjast hafa ítrekað bent á neikvæða þróun íbúafjölda, fækkun starfa, sér í lagi ríkisstarfa og minnkandi þjónustu á svæðinu. „Stjórn SSNV telur því brýnt að stjórnvöld sýni raunverulegan áhuga og vilja til samstarfs og aðgerða.“

Íbúar, eigendur jarða, frístundahúsa og fyrirtækja á Skógarströnd hafa þegar sent áskorun til Dalabyggðar um að hafna þessari sameiningu og óskað eftir að ef að henni kæmi yrði hinn gamli Skógarstrandarhreppur sameinaður Stykkishólmi. Afstaða SSNV til ástands á eigin svæði styrkir enn okkar afstöðu um sameiningu við Stykkishólm.

Breiðabólstað 14. nóvember 2025,

 

Margrét Guðmundsdóttir