Saman værum við sterkari

Kristín Jónsdóttir

Nú þegar líða fer að íbúakosningum um sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar er að mínu mati orðið tímabært að fara yfir nokkur atriði sem snúa að mér sem íbúa í Skorradalshreppi. Eftir að hafa búið hér í tæp 20 ár þá er ég alltaf jafn bjartsýn og ég vonaði að það yrði spilaður heiðarlegur leikur að þessu sinni.

Þegar þetta er ritað eru 68 íbúar í sveitarfélaginu mínu og, eins og staðan er í dag, einungis eitt barn í grunnskóla. Í raun býr aðeins helmingur þessara íbúa hér að staðaldri með fasta búsetu. Það vill svo til að þetta eina barn í skóla er barnið mitt. Nú eru eflaust einhverjir sem vita það að hreppurinn hefur haft samninga við Borgarbyggð um öll helstu mikilvægu málin og þar á meðal skólamál. Þessir samningar hafa nú gengið misvel og hefur óvissustig verið um ýmis mál. Eins og til dæmis að í síðasta samningi þá tók Borgarbyggð út skólaaksturinn og Skorradalshreppur sá sjálfur um að koma börnunum í skóla. En áður var það þannig að þau börn sem búa í kringum okkur voru með okkar börnum í skólabíl. Þetta varð til þess að krakkarnir okkar fengu minni tíma með vinum sínum á skólaaksturs tímanum og misstu af alls kyns plönum sem áttu sér stað fyrir og eftir skóla.

Í gegnum árin hafa alltaf verið nokkur börn í skóla úr Skorradalshreppi og hafa þessir krakkar geta staðið saman. Það hefur nefnilega komið upp á að krakkarnir hafa fengið að heyra alls konar „komment“ um að þau séu úr Skorradal og hafa eitthvað lítið um hitt og þetta að segja. Alls konar svona ummæli hafa áhrif á líðan barna í þessu skólaumhverfi. Auðvitað taka þau þessu misjafnlega en það góða við að þau hafa alltaf verið lítill hópur sem stóð saman og þau vissu að þau væru ekki ein. En nú hins vegar er dóttir mín ein. Hver á að standa með henni? Sem betur fer er hún nokkuð sterkur einstaklingur sem vonar af öllu sínu hjarta að sameinað verði í haust og hún þurfi ekki að halda áfram í svona óvissu. Mér finnst það líka gefa auga leið að ef sveitarfélag sem er með svona fáa íbúa og aðeins eitt barn í skóla sé sveitarfélag sem fyrir löngu er orðið alltof lítið til að vera sjálfstætt.

Svo kemur að mjög mikilvægum þætti fyrir sveitarfélag eins og Skorradalshrepp, þ.e. brunamálum. Þó svo íbúar séu svona fáir eru sumarhúsin allmörg og mjög mikilvægt að eiga í farteskinu aðgang að frábæru slökkviliði. Þar höfum við aðgang að Slökkviliði Borgarbyggðar sem hefur síðustu ár margfaldað þekkingu og tækjabúnað sinn. Það veldur mér óhug að hugsa til þess að ef ekki verði sameinað og ef ekki nást samningar í janúar 2026, en þá rennur út núgildandi samningur við Borgarbyggð, hver sinnir þá þessari mikilvægu þjónustu?  Sveitarfélagið hefur engin tök á að reka sitt eigið slökkvilið. Gildandi reglur um rekstur slökkviliðs er eitthvað sem hreppurinn hefði aldrei tök á að hvorki tækja, hýsa eða manna. Að mínu mati er þetta eitthvað sem ég hef gífurlega miklar áhyggjur af með allar þessar fasteignir á svæðinu og allir fasteignaeigendur í Skorradal ættu að íhuga þetta vel þegar þau mæta til kosninga.

Það sem hefur angrað mig í öll þessi ár síðan ég byrjaði að búa hér í dalnum er það að geta aldrei tekið þátt í umræðum, fundum eða hvers kyns málum sem tengjast þjónustunni sem við nýtum hjá Borgarbyggð. Þar sem við erum ekki íbúar þar þá höfum við ekkert um málefnin sem skipta okkur mestu máli að segja. Eins í tengslum við skólamál, hvers konar breytingar eða framtíðarsýn eða hvað svo sem það er, þá sitjum við bara á hliðarlínunni og horfum á og okkar sýn eða skoðun verður bara að setja ofan í skúffu, því þetta er auðvitað ekki okkar mál, ekki okkar sveitarfélag.

Svo kemur að alls kyns þjónustu sem við sem íbúar vitum ekki hvert við eigum að leita. Eins og þegar kemur að þjónustu fyrir eldri borgara. Einangrun hjá þessum aldurshópi er mikil og alls ekki góð fyrir þau. Þá er mikilvægt að geta komist í góða og fjölbreytta þjónustu sem ég veit að er í boði í Borgarbyggð. Janusarverkefnið sem hefur slegið í gegn og hvers konar föndur og fjölbreytileiki, er gífurlega mikilvægur. Ég get ekki séð hvernig Skorradalshreppur gæti boðið upp á slíka fjölbreytileika fyrir svona fáa íbúa í þessu litla sveitarfélagi.

Svo gæti ég nefnt svo mörg dæmi um flækjustig milli sveitarfélaganna fyrir íbúa. Við höfum tvisvar þurft á talmeinafræðingi að halda og auðvitað voru nokkrir veggir sem maður lenti á og sveitarfélögin bentu manni fram og til baka.

Svo þetta frábæra misræmi gagnvart börnum í tengslum við fríar sundferðir sem öll börn í Borgarbyggð fengu en ekki börnin í Skorradal. Eitthvað sem hreppurinn hafði lofað að börnin okkar ættu ekki að lenda í en hafa því miður margoft lent í.

Gaman er að koma að því að það sem fólk hefur einna mestar áhyggjur af í Skorradalshreppi, ef til sameiningar kæmi, er snjómoksturinn. Það sem fólk gerir sér greinilega ekki grein fyrir er sú staðreynd að hreppurinn er ekki með neinn samning um snjómokstur á meðan Borgarbyggð hefur verið með slíka samninga í nokkur ár. Þar af leiðandi er snjómokstur mun tryggari í Borgarbyggð en Skorradalshreppi.

Auðvitað eru örfá atriði sem þarft er að skoða og hefur fólk einnig haft áhyggjur af sorpmálum en svo það sé á hreinu þá er Skorradalshreppur langt á eftir í sorpmálum og eigum við að vera komin mun lengra í þeim málum.

Svo til að toppa hlutina í alltof litlu sveitafélagi þá er það nú í alltof mörgum tilfellum að við erum of fá. Sem dæmi í hreppsnefnd þá er vanhæfi ansi mikið, þó svo það séu skiptar skoðanir um það. Nándin er oft of mikil og viðkvæm mál er erfitt að tækla þar sem allir þekkja alla.

Ég gæti bent á svo margfalt fleiri punkta en held ég geymi það eitthvað lengur en langar að minna fólk á að það sé best að kanna hlutina vel og ekki hlusta bara á einhliða röksemdir.

Ég skil bara ekki af hverju fólk á þessu landi hugsar endalaust um peninga og völd og ekki um líðan fólks, hún er margfalt mikilvægari og peningar hafa aldrei geta keypt hamingjuna. Í hreppnum hefur alla mína tíð ríkt mikil „óeining“ og þá aðallega vegna misjafnra skoðana sem tengjast sameiningarmálum en þessi umræða hefur víst verið frá því fyrir aldamótin. Ég held að öllum muni líða mun betur ef til sameiningar kæmi. Við værum í öruggu sveitarfélagi og mögulega myndi ungt fólk setjast að í þessum fallega dal. Börnin okkar eru framtíðin og við getum ekki alltaf verið í baksýnisspeglinum. Ég vona að til sameiningar komi og við getum farið að byggja upp enn betra og samheldnara samfélag. Saman erum við sterkari.

 

Kristín Jónsdóttir, Hálsum