Saman í liði

Valgarður Lyngdal Jónsson

Við sem höfum tekið að okkur að starfa í sveitar- og bæjarstjórnum um land allt þekkjum vel áskorunina sem felst í því að halda úti velferðinni og þjónustu við íbúa á sama tíma og við glímum við sveiflukenndar skatttekjur sveitarfélagsins.

Á meðan tekjur eins og fasteignagjöld eru yfirleitt stöðugar, þá geta útsvarstekjur sveitarfélaga sveiflast mikið. Heimsfaraldurinn af völdum Covid-19 olli því að við bæjarfulltrúar á Akranesi horfðum upp á mikla óvissu varðandi áætlanir okkar um útgjöld og framkvæmdir, en sem betur fer stendur bæjarsjóður Akraneskaupstaðar vel og við gátum brugðist við óvissunni með myndarlegum mótvægisaðgerðum; vörnum, vernd og viðspyrnu.

Við höfum upplifað hvernig kvótakerfið hefur fækkað störfum í sveitarfélaginu svo nemur hundruðum, en við erum svo heppin á Akranesi að hér býr harðduglegt fólk sem sækir vinnu sveitarfélaga á milli.

Það er nauðsynlegt öllum sveitarfélögum að hafa útsvarstekjurnar sem stöðugastar. Það er því nauðsynlegt að atvinnulífið sé öflugt til að standa undir góðri þjónustu og velferð. Það er nefnilega þannig að einkageirinn fjármagnar hinn opinbera. Þetta samstarf hins opinbera og einkageirans þarf að vera fyrirsjáanlegt og stöndugt. Hið opinbera setur reglurnar og spýtir í lófana þegar í harðbakkann slær. Það gerðum við á Akranesi þegar við bættum í fjármagn til framkvæmda og viðhaldsverkefna á vegum bæjarins og fjölguðum störfum með átaksverkefnum í atvinnumálum um leið og við einsettum okkur að efla velferðarþjónustuna og bæta þjónustu bæjarins við þá sem helst þurftu á henni að halda á óvissutímum.

Hið opinbera þarf á öflugu atvinnulífi að halda til að standa undir þeirri þjónustu sem það veitir. Við í Samfylkingunni ætlum að fjárfesta af krafti í grunninnviðum í þágu atvinnulífsins og við leggjum mikla áherslu á að unnin verði framsækin atvinnu- og byggðastefna sem taki mið af styrkleikum landshluta og mismunandi vinnusóknarsvæða. Við viljum einfalda rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja og einyrkja og létta álögur á þau og þá leggjum við til að stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður, að norrænni fyrirmynd, sem starfi með einkafjárfestum að uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi. Slíkur sjóður gæti til að mynda opnað gríðarlega möguleika til uppbyggingar á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga og í útgerðarbæjum um allt land, með tilheyrandi fjölgun starfa. Einnig ætlum við að byggja nýsköpunarklasa í helstu þéttbýliskjörnum, í samvinnu við heimafólk, þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir fá aðstöðu og stuðning.

Það er nauðsynlegt fyrir atvinnulífið á móti að gera sér grein fyrir þessu samlífi með opinbera geiranum og að atvinnulífið taki þátt í uppbyggingu innviða sem á móti styrkja atvinnulífið. Það væri t.d. hjákátlegt ef hið opinbera kæmi sér undan ábyrgðinni á uppbyggingu samgöngumannvirkja og fyrirtæki væru bara sett út í kuldann og þyrftu að redda sér sjálf með það. Atvinnulífið og opinberi geirinn eru ekki andstæður heldur samherjar, og takist þeim að sameina krafta sína til góðra verka geta frábærir hlutir gerst.

Það er samfélaginu til styrkingar að hafa hvort tveggja jafn öflugt, hið opinbera og einkageirann. Einkageirinn sannarlega fjármagnar hið opinbera, en hið opinbera byggir innviðina sem gagnast öllum fyrirtækjum, ekki bara fáum. Þá sér hið opinbera íbúunum fyrir almannaþjónustu, svo sem menntun og heilbrigðisþjónustu, og mikilvægi þeirra greina fyrir atvinnulífið og samfélagið allt hefur svo sannarlega sýnt sig á undarförnum misserum. Atvinnulífið og hið opinbera eru saman í liði.

Það er og verður mitt hlutverk sem stjórnmálamanns að halda þessu verki áfram, að fólk hafi atvinnu og að fyrirtækin og hið opinbera virki sem liðsmenn í sama liði en ekki sem andstæðingar.

 

Valgarður Lyngdal Jónsson

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Fleiri aðsendar greinar