Sakamannabekkur sagnfræðingsins

Halldór Jónsson

Þegar stíga skal stór skref er sjálfsagt að gæta varúðar. Varúðin má þó aldrei ná öllum völdum því þá eru allar líkur á því að stóru skrefin verði aldrei stigin. Ef einhverjir þekkja það á eigin skinni eru það Skagamenn. Fyrir því er löng saga og ekki er hún baráttulaus.

Þegar barist var fyrir því að Akranes yrði löggildur verslunarstaður olli það talsverðum deilum á Alþingi. Þar féllu miður falleg orð og verst lét trúlega Pétur Pétursson biskup sem þá var konungkjörinn þingmaður. Þá orti hann þessa vísu:

Kaupstaður á Skipaskaga,

skötnum verður helzt til baga,

eftir sér þann dilk mun draga:

Drykkjurúta og letimaga.

Sem betur fer urðu Pétur og skoðanabræður hans undir á þingi og Akranes hlaut löggildingu sem verslunarstaður eftir áratuga baráttu árið 1864. Þann árangur má að stórum hluta þakka harðfylgi þingmanna Borgfirðinga; Hannesar Stephensen og Arnljóts Ólafssonar, svo einhverjir séu nefndir. Þeir báru hag umbjóðenda sinna fyrir brjósti, börðust fyrir honum sem og hag annarra landsmanna. Í þann tíð þótti það ekki ljóður á ráði nokkurs þingmanns. Sagan hefur sannað að Hannes og Arnljótur höfðu rétt fyrir sér.

Framfaraskrefum fylgir fólksfjölgun

Fjölgun íbúa á Akranesi hefur æ síðan að mestu verið jákvæð. Á köflum hefur fjölgunin þó verið í stórum skrefum, ef ekki stökkum. Þar ræður mestu áhrif stórstígra framfaraskrefa sem stigin hafa verið í atvinnu- og samgöngumálum á Akranesi og nágrenni.  Má þar nefna djörfungar margra útgerðarmanna í upphafi 20. aldar, stofnunar skipasmíðastöðvar Þorgeirs & Ellerts árið 1928, byggingu Sementsverksmiðjunnar árið 1958, byggingar Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga árið 1977, byggingar Norðuráls sem hófst árið 1998 og opnunar Hvalfjarðarganga það sama ár.

Í kjölfar stórra framfaraskrefa hefur streymt fólk til Akraness til þess að setjast hér að. Ekki drykkjurútar og letimagar eins og Pétur biskup spáði heldur harðduglegt fólk sem viljað hefur leggja hönd á plóg og öðlast um leið öruggt skjól í framsæknu samfélagi.

Breytt umræðuhefð

Á allra síðustu árum hefur umræðuhefð landsmanna tekið nokkrum breytingum. Ekki aðeins er hún orðin óvægnari heldur líka ónærgætnari á margan hátt. Þá hefur einnig færst mjög í vöxt að tíðarandi nútímans er notaður sem dómstóll yfir fortíðinni. Kveðnir eru upp dómar, með nútímaþekkingu og skoðunum, yfir forfeðrum okkar sem ekki höfðu yfir að ráða þekkingu dagsins í dag. Dómendur nútímans kveða upp dóma frá sjónarhorni síns allsnægtarborðs yfir mönnum sem reyndu af fremsta megni að skapa sér og sínum lifibrauð frá degi til dags. Oftast einungis með berar hendur og djörfung að vopni. Annað hefur líka breyst mjög til hins verra í opinberri umræðu. Það eru sú skoðun að stjórnmálamenn geti aldrei tekið það sem kallað er faglegar ákvarðanir. Einkum ef þeir eru af landsbyggðinni. Þá heita öll þeirra baráttumál og ákvarðanir byggða- eða kjördæmapot. Uppbygging á höfuðborgarsvæðinu virðist hins vegar aldrei af pólitískum rótum runnin heldur aðeins faglegum.

Því er þetta rifjað upp hér að á dögunum birtist grein í Skessuhorni þar sem kveðinn er upp slíkur dómur yfir allri baráttu fyrir byggingu Sementsverksmiðjunnar á sínum tíma og ef ég skil greinina rétt nokkrum kynslóðum af stjórnmála- og embættismönnum á Akranesi og víðar. Greinin ber með sér alla ókosti nútímadómenda yfir fortíðinni sem nefndir eru hér að framan. Þegar grannt er skoðað er greinin byggð á bakkalárritgerð sama höfundar við hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Ritverkin tvö bera sterk merki áðurnefndra ósiða í nútímaumræðu. Þar eru öll verk þeirra er voru í fylkingarbrjósti heimamanna er börðust fyrir byggingu verksmiðjunnar á Akranesi gerð tortryggileg. Ekki síst ef þar áttu í hlut Sjálfstæðismenn eða Framsóknarmenn.  Sérstaklega slæma útreið fá þeir þingmenn Borgfirðinga Pétur Ottesen og Bjarni Ásgeirsson sem börðust fyrir framförum á sínum heimaslóðum um áratuga skeið líkt og Hannes og Arnljótur fyrr. Mestum hæðum nær þó tortryggni höfundar þegar hann sannar á þá að hafa unnið saman að málinu! Annar Sjálfstæðismaður og hinn Framsóknarmaður.

Svo kemur að menntahroka og fordómum höfundar þegar hann ræðir um skipan Sigurðar Símonarsonar múrarameistara í fjögurra manna nefnd skipaða af ráðherra til þess að gera tillögu að staðsetningu sementsverksmiðjunnar. Síðar tók Sigurður svo sæti í fyrstu stjórn verksmiðjunnar. Hvað gat múrarameistari lagt til málanna sem auk þess var sveitarstjórnarmaður og sjálfstæðismaður „enda hefur hann líklega haft mjög takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu,“ eins og segir svo smekklega í bakkalárritgerðinni. Er hægt að leggjast lægra í dómum yfir mönnum?

Var sementsverksmiðjan skyndiákvörðun?

Áform um byggingu sementsverksmiðju á Íslandi var ekki pólitískt deilumál. Þvert á móti naut málið víðtæks pólitísks stuðnings í öllum flokkum.

Af lestri Skessuhornsgreinarinnar má ráða að staðsetning sementsverksmiðjunnar á Akranesi hafi verið skyndiákvörðun. Ekkert er fjarri sanni. Allt frá árinu 1936 hafði Akranes komið til greina þegar staðarval var rætt. Bæjarstjórn Akraness skipaði nefnd er vinna skyldi að því að kostir Akraness yrðu kannaðir betur og þeim komið á framfæri. Í þeirri nefnd sátu áðurnefndur Sigurður Símonarson sem var formaður. Aðrir nefndarmenn voru Einar Helgason trésmíðameistari og Hans Jörgensen kennari. Verksmiðjan þurfti að rísa nærri hráefnisöflun, nærri sjó, nærri höfn og nærri byggð sem tryggt gæti starfseminni vinnufúsar hendur. Allt þetta hafði Akranes að bjóða. Ekki síst þurfti til hennar mikla orku. Hún var til staðar eftir byggingu Andakílsárvirkjunar, sem líka var eitt af baráttumálum hér um slóðir, ekki síst Péturs Ottesen. Skagamenn ásamt þingmönnum sínum unnu sína heimavinnu og verksmiðjan reis. Þeir fiska sem róa.

Gísli Jónsson þingmaður Barðstrendinga og síðar Vestfirðinga barðist mjög fyrir því að sementsverksmiðjunni yrði valinn staður á Vestfjörðum. Síðar sagði hann þegar hann ræddi um Pétur Ottesen: „Hann vann að því af mikilli framsýni að Sementverksmiðjan var staðsett á Akranesi. Henni hafði í raun verið ætlaður staður í Önundarfirði, þegar Pétur Ottesen færði að því sterk rök, að miklu hagkvæmara væri að staðsetja hana á Akranesi og sækja sandinn í Faxaflóa. Ég hygg, að það hafi verið mjög vel ráðið.“ Þarf frekari vitnanna við?

Bæjarfulltrúar klækjabragða?

Sementsverksmiðjan reis og var um áratugaskeið einn af burðarásum í atvinnulífi á Akranesi og nærsveitum auk þess að tryggja landsmönnum aðgang að framleiðsluvörunni, sementi.

Líkt og önnur mannanna verk hafði verksmiðjan áhrif á sitt nánasta umhverfi. Ekki einungis með atvinnu og umsvifum heldur einnig vegna umfangsins. Henni þurfti að velja stað. Sú staðsetning var ákvörðun kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Akraness á þeim tíma.

Stóru orðin eru ekki spöruð í Skessuhornsgreininni um þá ákvörðun. Pólitísk klækjabrögð, traðkað á íbúum, virðingarleysi, byggingu þröngvað inná bæjarbúa, hræðileg umhverfisspjöll svo eitthvað sé nefnt. Í framhjáhlaupi nefnir höfundur þó að hann vilji samt ekki gera lítið úr þeim áhrifum sem verksmiðjan hafði á atvinnulíf. Sagnfræðingurinn vill sumsé bæði halda og sleppa. Svo er það hápunkturinn. Versta af öllu því versta. Alþingi og bæjarstjórn Akraness tóku pólitíska ákvörðun í málinu! Og hverjir voru nú bæjarfulltrúar á árunum 1946-1954 þegar flestar ákvarðanir í þessu máli voru teknar? Fyrir Alþýðuflokk voru það Hálfdán Sveinsson, Sveinn Guðmundsson og Guðmundur Sveinsson. Fyrir Sósíalistaflokk voru það Skúli Skúlason, Halldór Backmann og Hans Jörgensen sem gekk i Alþýðuflokkinn á tímabilinu. Fyrir Framsóknarflokkinn var það Ásgeir Guðmundsson og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru þeir Ólafur B Björnsson, Jón Árnason, Þorgeir Jósefsson, Einar Helgason, Oddur Hallbjarnarson, Guðmundur Guðjónsson og Sturlaugur Böðvarsson. Ekki voru bæjarbúar óánægðari með flesta þeirra en svo að þeir voru endurkjörnir kosningar eftir kosningar.

Dómur rithöfundarins

Í greininni  er dreginn fram rithöfundur til þess að hámarka eftirá dóma og hæst/lægst rís sá dómur og staðfestir um leið notkun nútímagleraugnanna og hrokans yfir fortíðinni þegar rætt er um Langasandinn; „eina baðströndin sem risið hefur undir nafni á Íslandi var á Akranesi, ég segi var, vegna þess að sú baðströnd var eyðilögð áður en það komst almennt í tísku að sleikja sólskinið og fara í sjóböð.“  Svo mörg voru þau orð rithöfundarins.

Orð sem þessi dæma sig að sjálfsögðu sjálf. Vissulega fór hluti af Langasandi undir athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar. Langisandur, þó fagur sé, er alls ekki eina baðströndin á Íslandi. Ennþá sækja Skagamenn og gestir þeirra samt Langasand til þess að sleikja sólskinið og það sem meira er þeir fara þar í sjóböð allan ársins hring. Langisandur er ennþá náttúruperla og hann og nágrenni hans sækja nú fleiri gestir en nokkru sinni fyrr. Það verður án efa um langan aldur.

Hvernig væri hið óspjallaða Akranes?

Bygging Sementsverksmiðjunnar var mikið framfaraskref. Það var uppbyggingin á Grundartanga líka að ekki sé minnst á Hvalfjarðargöng. Uppbyggingin á Grundartanga og göngin undir Hvalfjörð urðu samt sem áður uppspretta mikilla deilna.

Værum við betur komin með Grenjarnar ósnertar ef þar hefði aldrei verið rekstur? Væri Breiðin eftirsóknarverður staður hefði henni ekki verið spillt með sjóvörnum?  Sjávarútvegur á Akranesi í dag er því miður ekki svipur hjá sjón. Veitir það okkur rétt til að setjast í dómarasæti yfir þeim útgerðarmönnum fortíðarinnar sem kölluðu eftir og fengu með pólitískum ákvörðunum mikil hafnarmannvirki sem kostuðu miklar breytingar á umhverfinu. Voru þeir umhverfisböðlar? Verður Haraldur Böðvarsson næstur á sakamannabekk sagnfræðingsins?

Eins og áður sagði fylgja búsetu óhjákvæmilega breytingar á nánasta umhverfi. Nú ryður sér til rúms sú skoðun og þykir fín að við sem nú erum uppi eigum að skila náttúrunni ósnortinni í hendur afkomenda okkar.

Ég er feginn því að Haraldur Böðvarsson, Sigurður Hallbjörnsson, Pétur Ottesen, Bjarni Ásgeirsson, Sigurður Símonarson, Þorgeir Jósefsson, Þórður Ásmundsson, Hálfdán Sveinsson, Skúli Skúlason, Jón Árnason og önnur athafna- og stjórnmálamenn í gegnum tíðina gerðu það ekki. Hvernig væri byggð á Akranesi í dag án þeirra verka? Akranes er innrammað í sjóvörnum. Þær voru ekki reistar að ástæðulausu heldur til þess að verja landið og eignir fólks og fyrirtækja. Gera svæðið byggilegt. Hversu stórt væri Akranes yfirhöfuð án þessara sjóvarna? Væri ennþá kaupstaður á Skipaskaga?

Ég er einn þeirra þúsunda manna af góðu bergi brotnir er hingað hafa flutt til þess að njóta verka genginna kynslóða. Á þeirra ákvörðunum hefur blómleg byggð byggst upp. Kjörnir fulltrúar bæjarbúa og bæjarstjóri mega því og eiga að birtast sem oftast glaðir í bragði vegna framfaraskrefa fortíðarinnar um leið og þeir ákveða fleiri framfaraskref.

Sagnfræðin er skemmtileg fræðigrein. Án þekkingar og reynslu sögunnar gætum við ekki fetað betri slóðir í framtíðinni. Þegar fella á dóma yfir mönnum er önnur fræðigrein betri. Illa ígrundaðir pólitískir sleggjudómar lagast lítið þó reynt sé að klæða þá í búning sagnfræðinnar. Það sannar áðurnefnd Skessuhornsgrein rækilega. Berum virðingu fyrir gengnum kynslóðum.

Lifi Langisandur.

 

Halldór Jónsson

Höfundur er aðfluttur Skagamaður.

 

Fleiri aðsendar greinar