Sagan og staðreyndir um Hitaveitufélag Hvalfjarðar sf.

Elín Ósk Gunnarsdóttir

Í Hvalfjarðarsveit er félag um hitaveitu sem heitir Hitaveitufélag Hvalfjarðar sf. Á vef Hvalfjarðarsveitar kemur eftirfarandi fram um Hitaveitufélagið: ,,Árið 1985 samþykkti hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps að láta fara fram jarðhitarannsóknir í hreppnum. Haustið 1988 var hafist handa við lagningu stofnkerfis og dæluhús byggð. Hinn 15. júní 1989 var vatni hleypt á stofnlögnina á Hvalfjarðarströnd og í byrjun desember var hleypt á bæi í Svínadal allt fram að Eyri. Á þessum tíma voru notendur rétt um 20 en 20 árum síðar þegar hitaveita hefur verið lögð í Vatnaskóg, stór sumarhúsasvæði í Svarfhólsskógi, Kambshólsskógi, Bjarteyjarsandi til atvinnustarfsemi á nokkrum stöðum og fjölda heimila, þá nálgast þeir 200. Sífellt er leitað leiða til að dreifa hitaveitunni víðar.“

Vatnið hefur ekki farið út fyrir gamla Hvalfjarðarstrandarhreppinn og oft hefur heyrst frá eigendum að aldrei muni vatnið fara út fyrir hreppinn því hitaveituna hafi þau lagt með sínum eigin höndum, það hafi kostað þau blóð, svita og tár!

Hvalfjarðarsveit er stærsti eigandi að félaginu með 53% hlut á móti 20 öðrum aðilum. Þar sem þetta er sameignarfélag þá gildir einn fyrir alla allir fyrir einn og óháð stærð hlutar eru allir með eitt atkvæði. Þetta þýðir að Hvalfjarðarsveit sem á meira en helming í félaginu er einungis með eitt atkvæði á móti hinum 20 eigendum.

Verðskráin og nýting á heitu vatni

Samkvæmt gjaldskrá eru almennir notendur að borga 133 kr. á rúmmetra til heimilisnotkunar. Eðlilega áætlar maður að allir notendur veitunnar, þar með talið eigendur, séu að borga það sama fyrir vatnið en eftir smá eftirgrennslan er raunin ekki sú. Það virðist vera að eigendur séu að fara eftir einhverri allt annarri gjaldskrá sem er líklegast ofan í skúffu hjá Hitaveitufélaginu. Samkvæmt reikningi sem kemur frá einum af eigenda veitunnar eru eigendur að borga um 31 kr. á rúmmetra. Þarna er munurinn gífurlegur eða um 430 prósent á verði á milli eigenda og almennra notenda. Það má því telja að líklega séu eigendur að taka arðinn sinn út í gegnum gjaldskrá. (Inn í tölurnar hér að ofan er búið að reikna inn alla skatta en mælagjaldið er ekki inn í þessum tölum).

Fram til ársins 2014 voru á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar sýnilegar tvær gjaldskrár, önnur fyrir eigendur og hin fyrir aðra notendur. Þegar sveitarfélagið og hitaveitufélagið fengu veður af því að þetta væri ólöglegt var eigenda gjaldskránni kippt út af heimasíðunni og nú er fullyrt af stjórnarmönnum að það sé einungis ein gjaldskrá sem getur einfaldlega ekki verið rétt miðað við þær heimildir sem vitnað er í hér að ofan.

Í gjaldskrá kemur fram að lesa á af mælum 2 sinnum á ári og áætluð notkun þar á milli. Eftir okkar heimildum þá er ekki lesið af mælum og eigendur og aðrir notendur greiða fyrir það sem þeir eiga rétt á en ekki það sem er notað. Þá spyr maður sig; eru menn að nota meira en þeir eiga rétt á og borga fyrir? Ef það er ekki fylgst með notkuninni eru menn þá eitthvað að pæla í hvað rennur af heitu vatni umfram það sem þörf er á? Eru eigendur og notendur vatns frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar ekki að fara skynsamlega með auðlindina?

Staðan nú í dag

Íbúar í Bjarkarási hafa ítrekað í gegnum árin óskað eftir að fá vatn til sín frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar sf. en því hefur alltaf verið hafnað á þeim grundvelli að ekki sé nægt vatn, burðargeta á lögninni ekki nógu mikil, ekki grundvöllur fyrir því o.s.fv.

Það var orðið alveg ljóst að vatnið af ströndinni væri ekki að fara niður Leirársveitina til íbúanna í Bjarkarási þannig að þeir höfðu samband við Veitur ohf. og óskuðu eftir því að fá að tengjast lögninni úr Deildartungu. Svarið var jákvætt og þá frétti oddvitinn af þessu og sá þarna tækifæri fyrir sveitarfélagið að fá heitt vatn frá Veitum upp á Heiðarskólasvæðið, en þar er þörf á meiru heitu vatni en Leirárholan gefur.

Til að gera langa sögu stutta þá fór Hvalfjarðarsveit inn í þessar umræður við Veitur, lét gera samanburðargreiningu á hvort væri hagstæðara að taka vatn frá Veitum ohf. í skólasvæðið eða frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar sf. sem er í meirihlutaeigu sveitarfélagsins. Niðurstaða úr þessari vinnu er nú komin og hún er sú að Mannvirkja- og framkvæmdanefnd leggur til að heitt vatn til frekari vatnsöflunar fyrir Heiðarskólasvæðið verði tekið frá lögn Veitna ohf. Þetta var samþykkt af 4 af 5 nefndarmönnum. Þegar þetta er skrifað er sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar ekki búin að afgreiða málið en það verður gert daginn áður en þetta blað kemur út. Vilji meirihlutans en nú þegar kominn fram hjá nefndinni og allar líkur eru á að sveitarstjórn afgreiði málið á sama hátt.

Í samanburðargreiningu þarf m.a. að fá að vita á hvaða verði er verið að selja vatnið. Sveitarfélagið fór í samningaviðræður bæði við Veitur og Hitaveitufélagið um möguleg afsláttarkjör. Hjá Veitum er bara ein gjaldskrá og afsláttur fer eftir því hvort um er að ræða afhendingu á vatni í dreifbýli eða í þéttbýli. Hvalfjarðarsveit er nú þegar að kaupa vatn frá Hitaveitufélaginu fyrir sundlaugina að Hlöðum og ætti því verðið að vera þekkt. Samkvæmt heimildarmanni er sveitarfélagið að kaupa vatnið á sama verði og eigendur, eðlilega þar sem Hvalfjarðarsveit er stærsti eigandinn í félaginu. Það þarf þó að taka fram að það er ekkert eðlilegt við það að eigendur séu að fá vatnið á allt öðrum kjörum en aðrir. En samt þurfti að semja sérstaklega um á hvaða verði sveitarfélagið fengi heita vatnið á niður á Heiðarskólasvæðið, verð sem reyndist vera þó nokkuð hærra en almennir notendur eru að fá sitt vatn á. Þarna er Hitaveitufélagið að koma fram með enn eitt verðið sem tengist gjaldskránni ekkert og það mætti alveg telja að með því að segja að vatnið fáist á þessu verði væri Hitaveitufélagið enn og aftur að passa upp á að vatnið fari ekki út fyrir gamla Hvalfjarðarstrandarhreppinn, það var verið að gera þetta það óhagstætt að sveitarfélagið gæti ekki réttlætt það að kaupa heitt vatn frá Hitaveitufélaginu.

Vatnið frá Hitaveitufélaginu er um 15 gráðum kaldara en frá Veitum þannig að maður hefði haldið að kaldara vatn ætti að vera ódýrara.

Með því að taka þá ákvörðun að taka ekki vatn frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar niður Leirársveitina er verið að útiloka bæina og íbúðarhúsin sem eru á milli Tungu og Heiðarskóla og hindra frekari uppbyggingu á þessu svæði sem hefði orðið ef lögð yrði hitaveita á þetta svæði.

Hvalfjarðarsveit á yfir helming í Hitaveitufélagi Hvalfjarðar sf., sveitarfélagið á rétt á mun meira vatni en það er að nota nú þegar. Væri ekki eðlilegast að sveitarfélagið nýtti sína auðlind betur áður en það fer að ganga á aðrar auðlindir?

 

Elín Ósk Gunnarsdóttir

Höf. er sveitastjórnarmaður Íbúalistans í Hvalfjarðarsveit.