Safnamál í Borgarbyggð

Guðmundur Guðmarsson

Fyrir nokkru átti ég leið í Borgarnes og kom við í Safnahúsinu til að skoða þar málverkasýningu. Ég hitti forstöðumann hússins, Guðrúnu Jónsdóttur, að máli sem sagði mér undan og ofan frá nýjum hugmyndum um breytingar á fyrirkomulagi safnanna í Borgarnesi.

Þar sem mér eru þessi mál enn hugstæð langar mig til að leggja orð í belg um þau.

Mín fyrstu afskipti af safnamálum í Borgarnesi hófust seint á áttunda áratugnum þegar ég tók sæti í stjórn Listasafns Borgarness. Þessi afskipti jukust þar til ég tók við starfi forstöðumanns Safnahúss Borgarfjarðar árið 1990 sem ég gegndi síðan til ársins 2000.

Allan þann tíma sem ég hafði afskipti af þessum málaflokki og greinilega enn því miður var á brattann að sækja með skilning á mikilvægi þess starfs og þeirrar þjónustu sem starfsemin í Safnahúsinu innti af hendi fyrir samfélagið. Mikil vinna var lögð í að reyna að vinna að bættum aðbúnaði fyrir söfnin í fyrsta lagi með lagfæringum á því húsnæði sem til staðar var en einnig með tillögum um nýtt húsnæði með þó þeim árangri að núverandi húsnæði var smám saman tekið í notkun og endurbætt. Það var engu að síður ljóst í upphafi að kröfur sem gerðar voru til húsnæðis fyrir þessa þjónustu voru ekki uppfylltar. Gerðar voru tilraunir til að afla fylgis við nýbyggingar fyrir söfnin í Borgarnesi sem ekki hlutu hljómgrunn.

Á níunda áratugnum voru mikla umræður meðal safnafólks um þróun safna og stefnumörkun í málefnum safna á landinu. Þá var áberandi hluti umræðunnar um að fækka því sem kallað var bæði í gamni og alvöru „dritsöfn“  sem vísaði til þeirrar tilhneigingar að dreifa söfnum og safnefni í minni einingar sem hafði óhjákvæmilega þær afleiðingar að það dró úr styrk þeirra og getu til öflugrar starfsemi og varð fjárhagslegur baggi á eigendum sínum. Lögð var áhersla á það gagnstæða að efla einingar með sameiningu safna og á þann hátt fá betri nýtingu á starfskröftum og betri möguleikum á sérhæfðara starfsfólki. Þessar áherslur kristölluðust síðan í þeim mikla áhuga á uppbyggingu menningarmiðstöðva víða á landinu eftir aldamótin.

Það má líta svo á að þessi stefna hafi átt sinn þátt í því að í Borgarnesi var ráðist í byggingu menningarhúss fyrir um það bil tíu árum. Því miður þá báru menn ekki gæfu til að líta heildstætt á hlutina og gera ráð fyrir nýrri og vandaðri byggingu fyrir safnastarfsemina í Borgarnesi þar sem búið væri að þeim með sóma. Og nú er reynt að höggva í sama knérunn og grafa undan þeirri mikilvægu samfélagslegu þjónustu sem söfnin veita.

Það hefði verið meiri reisn yfir því að leggja til veglega uppbyggingu, jafnvel viðbót við Hjálmaklett, þar sem öll söfnin gætu rúmast og verið byggðarlaginu til sóma. Það má benda á að Menntaskólinn gæti sem best notað núverandi húsnæði Safnahússins fyrir sína starfsemi.

Mig langar til að draga sérstaklega fram þrjú atriði. Í fyrsta lagi langar mig til að vekja athygli á Listasafni Borgarness. Þetta safn hefur því miður ekki notið sannmælis eða þeirrar athygli sem það á skilið. Safnið er að stofni til gjöf frá Hallsteini Sveinssyni sem kom til dvalar á Dvalarheimilinu í Borgarnesi á sínum tíma. Þarna er um að ræða eitt af stærri málverkasöfnum utan stór – Reykjavíkursvæðisins sem hefur auk þess þá sérstöðu að vera eitt stærsta safn óhlutbundinna málverka á landinu sem endurspeglar einstaklega vel uppgangs- og umbrotatíma í íslenskri myndlist. Safnið er vel þekkt meðal fólks sem kann skil á sögu íslenskrar myndlistar og reynt hefur verið að sýna verk úr því í þeim litla sal sem Safnahúsið hefur til umráða með reglulegum hætti.

Þetta safn var gefið Borgarneshreppi á sínum tíma og var rekið að nokkru leyti sem sjálfstæð eining innan Safnahússins með framlagi frá Borgarneshreppi og síðar Borgarbyggð.

Annað sem ég vil nefna sérstaklega er Pálssafn. Það safn var ánafnað Safnahúsinu Í Borgarnesi af Páli Jónssyni bókaverði og því fylgdi gjafabréf með ákveðnum skilyrðum. Ef einhverjum dettur í hug að hrófla við því safni úr Safnahúsinu verða skilyrðin vanvirt og krafa erfingja Páls um að safninu verði skilað til þeirra aftur réttmæt. Ég vara við því að til nokkurs slíks komi. Þetta safn er öðrum þræði bókfræðilega merkilegt þar sem þarna er að sjá mjög vandað bókband og svo er þarna heildstætt safn ljóðabóka frá miðri síðustu öld auk nokkurra fágætra eldri útgáfna íslenskra bóka. Pálssafn er eitt af djásnum Safnahússins og óaðskiljanlegur hluti bókasafns Safnahússin.

Í þessu sambandi er þess getið að safnið geti nýst fræðimönnum í Reykholti. Þessi rök tel ég afar langsótt og nánast algjörlega haldlaus. Ég fullyrði að í safninu séu hverfandi þau gögn sem nýtast við fræðimennsku í Reykholti. Ég bendi á að frá 1997 hafa verið gefin út fjórtán fræðirit af Snorrastofu, flest um fornleifafræði, önnur um handrit og enn önnur um skólastarf í Borgarfirði þar sem gögn Héraðsskjalsafnsins eru líklegri til að hafa nýst en bókasafn.

Það má líka benda á í þessu samhengi að Snorrastofa fékk á tíunda áratug síðustu aldar að láni frá Safnhúsinu allmargar gamlar útgáfur af fornritum. Þessar bækur voru lengi vel til sýnis í glerskápum í nýbyggingu Snorrastofu. Ég hef ekki upplýsingar um hvort þeim hefur verið skilað til Safnahússins aftur, þar sem þær eiga heima.

Í þriðja lagi langar mig að nefna Náttúrugripasafn Borgarfjarðar. Það safn varð til fyrir áhuga forvera míns í starfi forstöðumanns, Bjarna Bachmanns, auk sparisjóðsstjóranna Friðjóns Sveinbjörnssonar og Sigfúsar Sumarliðasonar sem reyndar báru alltaf hag Safnahússins fyrir brjósti og vildu veg þess sem mestan.  Þessir frumkvöðlar sáu fyrir sér safn þar sem náttúru Íslands væru gerð góð skil, jarðsögu og dýra- og jurtaríki. Því miður hefur sá draumur enn ekki ræst en er í fullu gildi.

Ég hef lesið yfir skýrslu vinnuhópsins og þar eru nokkur atriði sem vekja eftirtekt. Í fyrsta lagi eru tilgreind tölfræðilegar upplýsingar frá Safnahúsi Borgarfjarðar en ekki frá hinum söfnunum sem til umræðu eru í skýrslunni. Þá eru röksemdir fyrir uppskiptingu safnanna haldlitlar og vekja upp spurningar um hvað liggi að baki frekar en að upplýsa um þörf uppskiptingarinnar.

Í niðurstöðum starfshóps um safnamál í Borgarbyggð stendur: „Möguleikar til frekari vaxtar í menningar og safnastarfsemi í Borgarbyggð eru umtalsverðir að mati vinnuhópsins. Eins og fram kemur í skýrslunni byggir núverandi starfsemi á mjög traustum grunni sem áhugavert er að vinna frekar með.“

Þessu er ég hjartanlega sammála og hvet eindregið til þess að söfnunum verði haldið saman eins og verið hefur og bætt úr húsnæðisþörf þeirra. Öflugt samfélag þarf öfluga miðlæga þjónustu í sem víðasta skilningi, þar má nefna heilsugæslu, skólaþjónustu, greiðan aðgang að opinberum stofnunum svo sem skrifstofu sveitarstjórnar, löggæslu, félagsþjónustu, þjónustu við aldraða og síðast en ekki síst að menningarþjónustu, bókasafni, skjalasafni og sýningarhaldi ýmiss konar. Því öflugri sem þessi miðlæga þjónusta er því öflugra verður samfélagið sem heild og þar er menningarstarfsemi afar mikilvægur hluti.

Ég hvet sveitarstjórnarmenn til að standa saman að því að efla Safnahús Borgarfjarðar sem sjálfstæða heildstæða einingu í Borgarnesi, það verður þegar upp er staðið öllu samfélaginu til heilla.

 

Reykjavík 23. febrúar 2018,

 

Guðmundur Guðmarsson

F.v. forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar