Sækjum fram – Byggjum upp

Signý Gunnarsdóttir

Fyrir nokkru var afi minn, Njáll Gunnarsson frá Suður Bár, að fara yfir gömul skjöl hjá sér og fann þar kosningaræðu sem hann flutti á sjötta áratugnum þegar hann var í framboði til hreppsnefndar. Í framhaldi af því rifjaði hann upp hvað var mikið byggt og framkvæmt á þessum árum. Grunnskólinn, símstöðin, leikskólinn, kirkjan, mjólkurstöðin og verbúðin voru byggð. Kaupfélag Grundfirðinga var stofnað, vegur lagður fyrir Búlandshöfða, Mjósundabrúin lögð, höfnin lengd og klárað að leggja ríkisrafmagn í hreppinn. Þetta voru mótunarár hjá bæjarfélaginu og þarna voru margar meginstoðirnar reistar. Í dag þegar hann lítur yfir farinn veg og virðir fyrir sér kosningabaráttur undanfarinna ára þá eru baráttumálin önnur. Í dag snýst baráttan um að standa vörð um það sem búið er að byggja upp, fínpússa þá þjónustu sem fyrir er og byggja ofaná þennan góða grunn svo framtíðin verði örugg og björt.

Og þetta er hlutverk komandi bæjarstjórnar. Við erum með allt sem við þurfum hérna í bæjarfélaginu og hér er eftir allt saman afar fínt að búa. En við þurfum að standa vörð um það sem við höfum. Við verðum að passa að þjónusta og störf hverfi ekki úr byggðarlaginu. Á sama tíma og við hlúum að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru þurfum við að sækja fram, fá ný störf, ný fyrirtæki, nýja íbúa og ný tækifæri hingað í Grundarfjörð. Grundarfjörður hefur mörg sóknarfæri og eflaust fjölbreyttari en fólk gerir sér grein fyrir. Bærinn getur undirbúið jarðveginn í gegnum skipulagsvinnu, kynningarmál og fleira og ýtt undir þessa þróun. En þetta er eitthvað sem er ekki bara á færi og ábyrgð bæjarstjórnarinnar heldur íbúanna sjálfra líka. Það eru íbúarnir sem stofna ný fyrirtæki, byggja sér hús og koma með nýja tækni og þekkingu heim í byggðarlagið. Það eru íbúarnir sjálfir sem skapa samfélagið.  Ef þér lesandi góður finnst eitthvað vanta í þínu bæjarfélagi þá er spurning hvort boltinn sé hjá þér. Hver ætlar til dæmis að selja mér ís í sumar í Grundarfirði?

Ég skipa 6. sæti L-listans í Grundarfirði. L-listinn hefur verið í meirihluta bæjarstjórnar síðastliðin 8 ár. Á þeim árum hefur listanum tekist að ná skuldahlutfallinu niður úr 250% niður í 138%. Framkvæmdir voru í lágmarki, allur kostnaður bæjarins var skorinn niður eins og mögulegt var. Þetta eru búnir að vera erfiðir tímar en nauðsynlegir. En núna er kominn tími á að spýta í lófana. Næstu 4 árin stefnir L-listinn á að ná skuldahlutfallinu neðar en að fara á sama tíma í nauðsynlegt viðhald á innviðum bæjarins. Strax í sumar verður meðal annars ráðist í viðgerðir á grunnskóla og leikskóla, gangstéttar verða steyptar og unnið áfram í Paimpol garðinum. Á næsta kjörtímabili viljum við leggja áherslu á aukna aðstöðu fyrir ferðamenn, að hugað verði að grænu svæðunum í bænum, leiksvæði verði sett upp fyrir börnin, námsver sett á laggirnar fyrir námsmenn, FabLab fyrir fólk á öllum aldri, sýnileiki Grundarfjarðar verði aukinn út á við, félagsstarf eldri borgara verði styrkt, stutt verði við frumkvöðla og nýsköpun í atvinnulífi og skólastarfi, nýtt anddyri reist við íþróttahúsið, plantað verði í græna trefilinn fyrir ofan bæinn, lagðir göngu-og hjólastígar og margt fleira. Nýtt aðalskipulag sem búið er að vinna að síðustu ár kemur út á næstu mánuðum og þar er stefnan lögð í sambandi við framtíðarskipulag bæjarins. Huga þarf að ásýnd bæjarins og gera Grundarfjarðarbæ að fallegu og aðlaðandi bæjarstæði heim að sækja og setjast að í. Styðjið okkur í þessum mikilvægu verkefnum sem framundan eru og setjið X við L-listann.

 

Signý Gunnarsdóttir.

Höf. skipar 6. sæti á L-lista í Grundarfirði.