Rykfallið vegstæði eða má hugsa út fyrir gamla lúna boxið?

Heiður Hörn Hjartardóttir

Enn á ný er rykið dustað af tæplega 50 ára gamalli hugmynd um veg frá Borgarfjarðarbrúnni upp með ströndinni, fram hjá íbúðarbyggðinni í Bjargslandi. Á skipulagsuppdrætti frá 1977 var gert ráð fyrir að vegstæðið yrði á fyllingu frá vestari enda landfyllingar við Borgarfjarðarbrú og kæmi í land rétt neðan við bæinn Bjarg og lægi með ströndinni þar til hann þveraði Bjargslandið. Áætlað var að vegurinn lægi við hliðina á núverandi íbúðarhúsalóðum sem standa næst sjó frá Fálkakletti að Svölukletti. Yfir núverandi lóð leikskólans Uglukletts, hluta nýrrar byggðar í Bjargslandi 2 og yfir lóðir KB og Húsasmiðju og sameinaðist þjóðveginum á móts við móttökustöð Gámaþjónustunnar við Sólbakka. Þessi skipulagsuppdráttur hefur oft verið dreginn fram og í hvert skipti hefur aðeins verið bætt í, mest þó þegar sú hugmynd kom að færa veginn á fyllingu út í fjörðinn og fylgja ströndinni þar til komið yrði í land rétt vestan við Kveldúlfshöfða, við enda núverandi byggðar við Fjóluklett.

Kveldúlfshöfði ásamt mestallri strandlengjunni frá Bjargi upp að Grímólfskeldu er í eigu afkomenda hjónanna Eggerts Guðmundssonar og Aðalheiðar Lilju Jónsdóttur á Bjargi, en þau ákváðu að undanskilja strandlengjuna við sölu á hluta af landi Bjargs árið 1978 m.a. til að vernda klettana og náttúruna á svæðinu. Kveldúlfshöfða hefur staðið til að friða m.a. vegna sögulegra ástæðna með vísan til heimilda frá landnámi. En þennan höfða stóð til að brjóta niður og nota í fyllingu þegar Borgarfjarðarbrúin var byggð. Eftir töluverðan barning var honum hlíft en Háihóll, klettur sem „enginn vissi hvar var“ brotinn niður í staðinn.

Landfylling á viðkvæmum leirum

Eftir að hugmyndin um að flytja veginn á fyllingu út í fjörðinn kom upp hefur hún öðru hvoru verið dregin fram og ný tillaga útfærð. Vegurinn hefur þá annað hvort lengdur eða færður allt eftir hugmynd þeirra sem ráða í það og það skiptið. Breyting varð þó á árið 2016 en þá samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að gera breytingar á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 og óska eftir að bæta umferðaröryggi á Hringvegi (1) í gegnum Borgarnes og nýta fjármuni sem áætlaðir væru í hjáleiðina til uppbyggingar á vegakerfi í Borgarbyggð. Samkvæmt gögnum frá Borgarbyggð frá því í apríl 2018 um legu Hringvegar (1) við Borgarnes náðust ekki samningar um það og ljóst var að í framtíðarsýn Vegagerðarinnar væri þörf á fjögurra akreina vegi upp fyrir Borgarnes. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að nýr vegur myndi kalla á mikla landfyllingu á viðkvæmum leirum sem skipta miklu máli í fæðuöflun fugla á svæðinu, auk alls landsvæðisins sem færi undir veginn ásamt áhrifasvæði hans sem er mun stærra og myndi skapa verulegt ónæði fyrir íbúa bæði hvað varðar útsýni og hávaðamengun. Auk þess gæti vegurinn haft hamlandi áhrif á skipulagsgerð í Borgarnesi og sveitarfélaginu settar miklar skorður um landnotkun.

Þann 6. janúar síðastliðinn var lýsing að breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar. Sú breyting er sett fram vegna fyrirhugaðra breytinga á legu Þjóðvegar 1 um Borgarnes og skilgreiningar á nýju íbúðarsvæði fyrir 20-25 íbúðir. Í þeirri lýsingu er horft til nokkurra kosta hvað leiðarval varðar en jafnframt nefnt að leitast þurfi við að skapa heilnæmt umhverfi sem hvetur til hollra lífshátta og veitir möguleika til hreyfingar, endurnæringar og samskipta. Samkvæmt grein í Morgunblaðinu frá 14. janúar sl. er þessi skipulagslýsing nú til umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Lagt hefur verið til að vegurinn verði á leirunum sunnan við byggðina því það henti Vegagerðinni betur sem og Borgarbyggð sem fær þá rými fyrir nýja íbúðarsvæðið.

Framtíðarstaðsetning þjóðvegarins

Í dag liggja sem sagt fimm tillögur á teikniborðinu, tillaga 1 og 2 liggja í gegnum Borgarnes en í tillögum 3-5 er áætlað að vegurinn liggi upp með ströndinni. Tillaga 3 er skv. gildandi Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 og kemur í land vestan við Kveldúlfshöfða, við nýskipulagða byggð í Bjargslandi 2. Tillaga 4 liggur rétt við Kveldúlfshöfða og kemur í land í klettabeltinu austan við hann en tillaga 5 kemur í land við syðri enda Grímólfskeldu sem liggur við vestari enda golfvallarins. Þessar tillögur liggja mislangt út í fjörðinn en okkur hefur verið sagt að miðlína vegarins gæti á sumum svæðum legið um 6-7 m frá ströndinni og ekki ólíklegt að vegurinn verði þannig gerður að það gæti sjávarfalla við ströndina. Það er þó líklegt að á milli lands og vegarins myndist fljótt hættulegur drullupyttur ekki síst ef við miðum við hvaða áhrif Borgarfjarðarbrúin hefur haft á fjörðinn.

Getum gert betur en hreppsnefnd fortíðarinnar?

Þetta verkefni er spennandi fyrir þá sem sitja við teikniborðið og sjálfsagt skemmtileg áskorun fyrir þá sem sjá um byggja upp vegi. En er það þess virði? Erum við til í að fórna verðmætri náttúru og dýrmætum upplifunum einungis af því við nennum ekki að hugsa út fyrir gamla boxið? Sveitastjórn Borgarbyggðar bíður mjög erfitt verkefni við að finna framtíðar staðsetningu þjóðvegarins í gegnum eða við Borgarnes og ná um leið að sjá fyrir þróun næstu áratuga. Þrátt fyrir stórar hugmyndir fyrir tæpum 50 árum sáu þá kjörnir hreppsnefndarmenn ekki fyrir þróunina sem orðið hefur eða gæti hafa orðið ef við hefðum náð sama flugi og t.d. samfélagið á Akranesi eða Selfossi. Getum við ekki gert ennþá betur en hreppsnefndarmenn fortíðarinnar og hugsað stærra og grænna, við sem höfum alla tæknina okkur til hjálpar? Erum við að fórna dýrmætum tækifærum og möguleika á stækkun með því að setja veginn í land neðan við golfvöllinn?

Einstök heimsókn í fallegasta bæinn

Aðrir valkostir um framtíðarlegu þjóðvegarins við Borgarnes hafa verið settir fram en hafa ekki náð eyrum þeirra sem ráða, m.a. hugmynd að mislægum gatnamótum, jarðgöngum og hugmynd um að byggja upp Borgarfjarðarbraut hinum megin við fjörðinn sem myndi tengjast hringveginum mun ofar. Mikill ótti hefur einkennt þá umræðu, áhyggjur um að verslun og þjónusta yrðu fyrir stórum skelli og hingað kæmi ekki nokkur maður. Þó vegurinn yrði færður yfir fjörðinn er Borgarfjarðarbrúin ekki á förum og leiðin vestur á Snæfellsnes myndi enn fara í gegnum Borgarnes. Það þarf að hafa upp á eitthvað að bjóða svo fólk vilji stoppa og það að færa þjóðveginn yfir fjörðinn gæti verið einstakt tækifæri fyrir íbúa í Borgarbyggð til að sameinast og byggja upp bæ með fallegum miðbæ og andrúmslofti sem bíður gesti velkomna ásamt því að styðja dreifbýli Borgarbyggðar. Í samfélaginu býr kynngimagnaður kraftur og ef við getum lagt til hliðar neikvæðni og niðurrif getum við áorkað meiru en áður hefur sést. Við getum búið til samfélag þar sem hugmyndaríki og lífsgleði fær að blómstra og þessir 3-4 km yfir brúna orðið upplifun og magnað upp spenning fyrir einstakri heimsókn í einn fallegasta bæ landsins.

Íbúðabyggð, göngustígar og upplifun í stað hraðbrautar?

Við erum ekki æðri náttúrunni heldur hluti af henni og umhverfi okkar hefur áhrif á líðan okkar, lífsgæði og lífsánægju. Vegstæði með ströndinni mun hafa mikil áhrif á náttúruna, á fjölbreytt dýralíf, landslag og upplifun af svæðinu. Þó að í skýrslu sem kom út á áttunda áratugnum vegna nýrrar veglínu stæði að; „ekki væri lifandi marfló í firðinum“ þá vissu allir betur og við vitum enn betur í dag. Viljum við fylla þetta svæði af umhverfishljóðum frá tækjum sem komast þá örlítið hraðar fram hjá Borgarnesi og á áfangastað? Valda hljóðmengun fyrir íbúa í Bjargslandi og eyðileggja stórt landsvæði neðan við golfvöllinn sem hentar vel fyrir íbúðabyggð sem væri umvafin einstöku útsýni og kyrrð. Um leið eyðileggja strandlengjuna sem gæti verið einstakt útivistarsvæði fyrir íbúa og gesti þeirra. Svæði með göngustígum sem aðlaga sig að náttúrunni, bekkjum, stöðum til fuglaskoðunar og annarrar upplifunar.

Tengsl okkar við náttúruna hafa breyst, bilið virðist hafa breikkað og að sama skapi virðist því miður kvíði hafa aukist í nútímasamfélögum sem og tíðni geðraskana. Við virðum ekki alltaf náttúruna, eigum til að ofnýta það sem hún gefur og teljum það sjálfsagt. Stundum virðist náttúran nær því að vera hugmynd en raunveruleiki og fólk hætt að geta notið hljóðsins frá náttúrunni og þagnarinnar. Hljóðmengun í umhverfi okkar hefur áhrif á andlega líðan og getur valdið streitu sem hefur síðan áhrif á heilsufarið og er hávaði jafnvel talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Færsla þjóðvegarins út í fjörðinn hefur þau áhrif að umferðarhraði verður hækkaður og því mun fylgja meiri hávaði og hafa áhrif á alla íbúðabyggðina í Bjargslandi. Hún verður þá staðsett milli nýrrar veglínu og núverandi þjóðvegar og verður fyrir áhrifum vegna hávaða úr báðum áttum.

Fróðlegt er að skoða skýrslur og teikningar nemenda við LbhÍ þar sem þeir tóku fyrir kosti og galla við fyrirhugað vegstæði út í firðinum. Þar kemur meðal annars fram að nætursvefn íbúa gæti truflast vegna umferðar stórra vörubíla sem færu framhjá á 90 km/klst.

Manngert umhverfi í sátt við ósnert náttúru

Eftir að teknar voru niður girðingar kringum land Bjargs varð strax sjáanleg ásókn í að komast sem næst ströndinni og eftir að kórónuveiran stakk sér niður og íþróttahús lokuðu varð mikil aukning á gangandi, hlaupandi, og hjólandi umferð á svæðinu. Slóðin sem þá myndaðist meðfram skóginum á Bjargi var oftar en ekki eins og Laugavegurinn og er svo enn. Flestir líta til fjalla, margir gefa sér tíma til að stoppa þó ekki sé nema örlitla stund til að upplifa kyrrðina og fegurð fjarðarins og fjallanna. Aðrir stoppa og opna faðminn eða gefa sér tíma til að ganga með fjörunni því fátt er betra til að hlaða batteríin eftir erfiðan dag. Á vorin er fjaran eins og segull hjá yngstu kynslóðinni sem unir þar við leik, því þar verða ævintýrin til. Fjaran fyrir neðan Fálkaklett hefur m.a. haft þetta aðdráttarafl fyrir börn og fullorðna sem búa í Bjargslandi og sá staður myndi sannarlega missa töfrana ef færsla þjóðvegarins út í fjörðinn yrði að veruleika.

Á Bjargi hefur verið rekið gistiheimili í 29 ár og verið tekið á móti þúsundum erlendra ferðamanna. Það hefur kennt okkur margt en ekki síst hvað við erum heppin hér í Borgarnesi að hafa náttúruna og kyrrðina við bæjardyrnar. Á hverju ári eigum við ófá samtöl við erlenda ferðamenn um náttúru Íslands, þar sem þeir lýsa aðdáun sinni og ekki síst von sinni um að Íslendingum takist að varðveita hina ósnortnu náttúru Íslands. Þó stendur upp úr erlendur ferðamaður sem stóð hér á bæjarhlaðinu á Bjargi síðasta sumar og horfði yfir fjörðinn og sagði: „Þetta er stórkostlegt! Einu sinni áttum við svona en núna eigum við bara náttúru eins og menn halda að náttúra eigi að líta út. Passið náttúruna ykkar hún er einstök“.

Heimboð með skilyrði um að setjast niður og njóta

Nálægðin við náttúruna er eitt helsta einkenni Borgarness og bæjarstæðið einstakt með sínum holtum og klettum, sem hafa þó verið þyrnir í augum sumra sem vilja fletja út þessi holt til að byggja á. Okkar manngerða umhverfi hefur mikil áhrif á okkur og við eigum að hafa skoðun á umhverfinu. Því viljum við Bjargsbúar bjóða sveitarstjórn Borgarbyggðar ásamt sveitarstjóra að gista í tvær nætur ásamt fjölskyldu sinni í bústaðnum hér á Bjargi með því skilyrði að þau gefi sér tíma til að ganga um strandlengjuna, fjöruna sem og túnin og móana neðan við golfvöllinn og upplifa svæðið sem yrði fyrir mestum áhrifum af nýrri veglínu. Eins viljum við bjóða íbúum Borgarbyggðar heim og biðjum þá um að að gefa sér tíma og rölta um túnin og fjörurnar áður en þeir taka ákvörðun með eða á móti vegstæðinu sem áætlað er að liggi meðfram einni síðustu ósnertu ströndinni í Borgarnesi. Finna sér stað, setjast niður og slaka á og hlusta á hljóðin í náttúrunni og þegar slæmur dagur bankar næst upp á, að fara til baka á þennan stað og gefa sér tíma til hlusta og upplifa og hugsa svo þegar heim er komið hvort dagurinn sé ekki orðinn örlítið skárri. Ekki taka ákvörðun við eldhúsborðið heima eða inn á lokaðri skrifstofu í pirringi augnabliksins yfir að hafa lent í hægri umferð á sólríkum föstudegi eða jafnvel í von um skyndigróða.

Gefum komandi kynslóðum þá gjöf að taka samtalið um framtíð bæjarins á málefnalegum grundvelli. Veltum fyrir okkur hvernig við getum byggt upp bæ sem getur þróast og stækkað en jafnframt gefið íbúunum tækifæri til að tengjast náttúrunni á nýjan leik og með því bæta lífsgæði og auka lífsgleði íbúanna. Við erum langt frá því að vera á móti allri uppbyggingu í Borgarnesi heldur óskum að vel sé vandað til verka og byggt sé með náttúrunni en ekki á móti. Byggjum upp bæ þar sem íbúum líður vel og eru stoltir af og þá munu flykkjast hingað gestir sem vilja staldra við, dvelja hvort sem er í lengri eða skemmri tíma og njóta þess sem þjónustuaðilar hafa upp á að bjóða. Gestir finna þegar gestgjafi lifir í sátt við umhverfið, þykir vænt um staðinn sinn og stoltur bíður gestum heim til að njóta með sér. Jákvæð umsögn slíkra gesta er ómetanleg og er fljót að spyrjast út.

Við teljum að ekki megi taka jafn stóra ákvörðun og það að flytja veginn út í fjörðinn án þess fara á staðinn og upplifa svæðið af eigin raun og að íbúar Borgarbyggðar eigi að hafa úrslitavaldið um framtíð vegarins, því bjóðum við þig hjartanlega velkomin/n!

 

Heiður Hörn Hjartardóttir og fjölskylda, Bjargi

Víkin neðan við Fjóluklett.