
Rótarýklúbbur Borgarness 70 ára
Ragnar Frank Kristjánsson
Rótarý er alþjóðleg mannúðarhreyfing með yfir 1,4 milljónir félaga í 200 löndum. Starfsemin er 110 ára og byggist upp á öflugu klúbbastarfi, en þeir eru 46.000. Á þessu ári var brotið blað í sögu Rótarý hreyfingarinnar þegar fyrsta konan var kosin heimsforseti, Jennifer Jones. Íslensku félagarnir eru um 1200 í 31 klúbbi og hlutfall kvenna er komið í 33%. Núverandi umdæmisstjóri er Bjarni Grímsson, Rótarýklúbbnum Reykjavík-Grafarvogi.
Í samræmi við eðli og hugmyndafræði Rótarý hefur klúbburinn tekið þátt í sameiginlegum verkefnum umdæmisins og alþjóðahreyfingarinnar. Reglulega hafa verið greidd framlög í Rótarýsjóðinn og til Polio Plus verkefnisins sem lýtur að útrýmingu lömunarveiki í heiminum. Góður árangur hefur náðst í þeirri baráttu og eru nú yfir 99% af heiminum laus við þennan sjúkdóm. Eingöngu í nokkrum héruðum Afganistan og Pakistan hafa greinst 20 tilfelli. Global grant sjóður Rotary international úthlutar 130 milljónum dollara til góðgerðarmála árlega.
Rótarýklúbbur Borgarness var stofnaður 14. september 1952 og hafði Rótarýklúbbur Akraness forgöngu um stofnun klúbbsins. Stofnfélagar voru 23 og fyrsta stjórn var þannig skipuð:
Forseti: Magnús Á. Jónsson sparisjóðsstjóri, ritari: Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir, gjaldkeri: Finnbogi Guðlaugsson forstjóri, stallari: Marinó Sigurðsson bakarameistari, varaforseti: Leó Júlíusson sóknarprestur.
Félagar í klúbbnum árið 2022 eru 29 og þar af tíu konur. Starfsemi klúbbsins hefur að jafnaði verið í samræmi við meginreglur Rótarýhreyfingarinnar þar sem haldnir eru vikulegir fundir yfir vetrarmánuðina með fræðsluerindum, heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir. Lögð hefur verið áhersla á að hafa klúbbstarfið fjölbreytt, gefandi og skemmtilegt.
Ýmis hagsmunamál samfélagsins hafa verið rædd og krufin til mergjar á klúbbfundum og margar hugmyndir um stór framfaramál í héraði hafa fyrst verið kynnt og rædd á fundum í klúbbnum. Má í því sambandi nefna brú yfir Borgarfjörð, Hitaveitu Akraness og Borgarness, og friðland í Einkunnum svo dæmi séu tekin. Strax á fyrsta starfsári klúbbsins hófust umræður um skráningu á sögu Borgarness og var fljótlega samþykkt að hefja undirbúning og heimildasöfnun. Saga Borgarness, 100 ár í Borgarnesi, eftir Jón Helgason kom út árið 1967 á 100 ára afmæli bæjarins.
Á 70 ára starfstíma Rótarýklúbbs Borgarness hafa fimm félagar verið valdir til að gegna starfi umdæmisstjóra íslenska Rótarýumdæmisins. Rótarýklúbbur Borgarness hefur haldið umdæmisþing fimm sinnum, árin 1960, 1969, 1986, 2000 og 2015. Eftir umdæmisþingið á Bifröst árið 2000 stofnaði klúbburinn sjóð sem nefndur er Hvatningarsjóður og samkvæmt skipulagsskrá hefur hann það hlutverk að veita viðurkenningar til aðila eða einstaklinga sem lagt hafa marktækan skerf til menningar- lista eða atvinnulífs á klúbbsvæðinu. Fyrst var veitt viðurkenning úr sjóðnum á fimmtugsafmælinu árið 2002, en þá hlaut Snorrastofa í Reykholti viðurkenningu sjóðsins sem merkasta nýjung í menningarlífi héraðsins á þeim tíma. Menntaskóli Borgarfjarðar hefur einnig fengið styrk úr sjóðnum. Í tilefni af 50 ára afmæli klúbbsins árið 2002 var efnt til sýningar í Safnahúsi Borgarfjarðar þar sem sögu, starfi og verkefnum voru gerð skil í myndum og máli.
Klúbburinn hefur sinnt ýmsum mannúðarmálum og er á vegum klúbbsins sérstakur sjóður „Ingólfssjóður“ sem hefur m.a. það hlutverk að veita stuðning til einstaklinga sem eiga í erfiðleikum. Sjóðurinn er kenndur við stofnanda sjóðsins, Ingólf Pétursson hótelstjóra, sem var félagi í klúbbnum. Undanfarin ár hefur Rauði krossinn og Samhugur í Borgarbyggð fengið fjárhagsstyrki úr sjóðnum.
Klúbburinn hefur í nokkur undanfarin ár staðið fyrir almennum borgarafundum um sértæk málefni sem hafa verið ofarlega á baugi á hverjum tíma. Staðið var einnig fyrir málþingi um atvinnumál og kynningu á starfsemi fyrirtækja í héraðinu þar sem fyrirtækjum hefur verið boðið að taka þátt. Markmið með þessum kynningum er m.a. að vekja athygli á þeim fjölmörgu aðilum, ekki síst minni fyrirtækjum, sem eru með margskonar atvinnurekstur af ýmsum toga. Klúbburinn hefur haft forystu um starfskynningu fyrir 10. bekki grunnskóla í Borgarbyggð. Í tengslum við 60 ára afmæli klúbbsins árið 2012 var efnt til opins málþings um líffæragjafir sem vakti mikla athygli á landsvísu.
- Ragnar Frank er hér að taka við embætti forseta Rótarýklúbbs Borgarness af fráfarandi forseta, Gísla Karel Halldórssyni.
- Af fundi Rótarýklúbbs Borgarness, sem haldnir eru í Landbúnaðarháskóla Íslands. Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð hélt í nóvember erindi um tækifæri í sveitarfélaginu. Faðir Stefáns, Guðjón Ingvi Stefánsson, var lengi félagi í klúbbnum.
Hér að framan hefur verið stiklað á stóru í sögu Rótarýklúbbs Borgarness og getið um nokkur helstu viðfangsefni sem klúbbfélagar hafa fengist við og haft forgöngu um. Af því má sjá að starfsemi klúbbsins hefur verið býsna fjölþætt og segja má að fátt hafi verið klúbbfélögum óviðkomandi.
Sé þetta borið saman við meginmarkmið Rótarýhreyfingarinnar sem eru:
– að efla og glæða þjónustuhugsjónina, að þjóna öðrum,
– að efla kynni milli manna og þjóðfélagsstétta,
– að hafa bætandi áhrif á umhverfi sitt.
Það má með sanni segja að félagar í Rótarýklúbbi Borgarness hafi unnið dyggilega í anda þeirra markmiða undanfarin 70 ár.
Auðvitað er erfitt að setja einhverja mælistiku á þann árangur sem starfið hefur skilað félögunum sjálfum og samfélaginu sem klúbburinn hefur starfað í. Það má hins vegar fullyrða að það að vera félagi í Rótarýklúbbi þar sem fólk úr mismunandi starfsstéttum með ólíkar lífsskoðanir og áhugamál kynnist hvert öðru og starfar saman að áhugaverðum verkefnum hlýtur að hafa jákvæð áhrif á mannleg samskipti, það eflir skilning og velvild milli manna.
Rótarýklúbbur Borgarness óskar Vestlendingum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.
Ragnar Frank Kristjánsson
Höf. er forseti Rótarýklúbbs Borgarness