
Roðagyllum heiminn gegn stafrænu kynbundnu ofbeldi
Ingibjörg Ólafsdóttir
Þessa dagana, frá 25. nóvember til 10. Desember, stendur yfir árlegt alþjóðlegt 16 daga átaksverkefni Soroptimista sem ber nafnið „Roðagyllum heiminn.“ Átakið er nú tileinkað baráttu gegn ofbeldi á netinu. Rauðgulur er litur átaksins en liturinn er tákn um bjarta framtíð án kynbundins ofbeldis.
Undanfarin ár hefur stafrænt kynbundið ofbeldi aukist mikið og orðið sýnilegra í samfélagsumræðu. Fjölgun snjalltækja, samfélagsmiðla og stafrænnar samskiptahegðunar hefur skapað nýjar víddir ofbeldis sem oft er því miður ósýnilegt, viðvarandi og getur haft djúpstæð og langvarandi áhrif á líf þolenda.
Stafrænt kynbundið ofbeldi er ekki tæknilegt hugtak heldur félagslegt. Það lýsir ákveðinni tegund áreitni, niðurlægingar eða kúgunar og beinist að einstaklingi á grundvelli kyns, kynvitundar eða kynhneigðar. Ofbeldinu er beitt í stafrænu rými. Oft eru það konur og stúlkur sem eru markhópur slíks ofbeldis, en einnig hinsegin fólk, trans fólk og þau sem eru í viðkvæmri stöðu eða standa utan við hið ríkjandi „norm“.
Stafrænt kynbundið ofbeldi getur tekið á sig margvíslegar birtingarmyndir. Meðal þeirra algengustu eru:
- Nektarmyndbirting eða hótanir um slíkt – þegar nektarmyndum er dreift án samþykkis eða því hótað til að ná valdi yfir fórnarlambinu til að beita þau þrýstingi til margvíslegra verka.
- Kynbundin áreitni á samfélagsmiðlum – stanslausar móðganir, niðrandi, lítillækkandi og jafnvel ógnandi athugasemdir, kerfisbundið áreiti sem beitt er til að brjóta fórnarlambið niður.
- Eltihrellir – stöðugt eftirlit, sendir endalaus óvelkomin skilaboð og vaktar hverja snertingu þolandans á samfélagsmiðlum sem er bæði íþyngjandi og ógnandi.
- Klám – Sendir þolanda óumbeðnar, grófar kynferðislegar myndir, myndbönd eða gróf skilaboð.
- Gervigreindarmyndir – Djúpfölsun Falsað kynferðislegt efni getur verið mjög raunverulegt. Oft er mynd af þolanda tekin af samfélagsmiðlum og henni breytt með gervigreind og þolandinn er sýndur í kynferðislegum athöfnum sem aldrei hafa átt sér stað.
- Hótanir, fjárkúgun og hatursorðræða – birtingarmyndir sem geta valdið djúpu óöryggi og hræðslu.
Það sem gerir stafrænt ofbeldi sérstaklega skaðlegt er hraði og umfang dreifingar. Ein mynd, eitt myndband eða ein færsla getur komist í umferð á nokkrum sekúndum og nær ómögulegt að fjarlægja. Þessi stöðugi og óútreiknanlegi sýnileiki veldur þolendum miklum áhyggjum og óöryggi – ekki aðeins í stafrænum heimi heldur líka í daglegu lífi.
Rannsóknir sýna að stafrænt kynbundið ofbeldi getur valdið miklum andlegum skaða. Þolendur lýsa kvíða, þunglyndi, skömm, svefnleysi og jafnvel félagslegri einangrun. Margir verða hræddir við að vera virkir á netinu eða í samskiptum almennt, sem getur haft áhrif á nám, starf og lífsgæði.
Afleiðingarnar ná þó lengra. Í sumum tilfellum getur slíkt ofbeldi haft áhrif á mannorð, atvinnumöguleika og persónulegt öryggi. Ungt fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi hættir stundum í skóla eða íþróttum, og fullorðið fólk gæti dregið sig í hlé úr samfélagsumræðu – með tilheyrandi lýðræðishalla.
Á Íslandi, líkt og víða annars staðar, hefur lagaramminn verið að þróast til að bregðast við nýjum tegundum stafræns ofbeldis. Dreifing á nektarmyndum án samþykkis er orðin refsiverð, og lögregla og ráðgjafarstofnanir hafa bætt verklag sitt. Samt er ljóst að lög geta aðeins leyst hluta vandans.
Þetta er samfélagslegt viðfangsefni sem krefst víðtækrar vitundarvakningar. Skólar þurfa að kenna netvirðingu af alvöru, foreldrar þurfa að tala við börnin sín um mörk og samþykki, og samfélagsmiðlafyrirtæki þurfa að axla meiri ábyrgð á vettvangi sínum.
Hvað getum við gert – hvert og eitt?
- Trúa þolendum – ekki gera lítið úr upplifun þeirra, þótt ofbeldið sé „á netinu“.
- Tilkynna og merkja efni sem fer yfir mörk. Þögn er uppspretta fyrir ofbeldi.
- Kenna mörk og samþykki snemma – líka í stafrænum samskiptum.
- Hvetja til heilbrigðrar umræðu – þar sem ekkert rými er veitt fyrir kynbundna niðurlægingu.
- Styðja við forvarnir og fræðslu í skólum og vinnustöðum.
Soroptimistaklúbbur Akraness hefur undanfarin ár veitt styrki til grunnskólanna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit til að halda fyrirlestra með nemendum. Fyrirlestrarnir hafa m.a. haft það markmið að reyna að stemma stigu við ógnvænlegri þróun ofbeldis.
Stafrænt ofbeldi er staðreynd og það er raunverulegt og á sér stað í nútíðinni. Það er algengt og það hefur áhrif á mannslíf. Til að stemma stigu við því þurfum við að taka sameiginlega ábyrgð; lög, fræðsla, samfélagsleg pressa og bæta netmenningu þar sem virðing og samþykki eru í forgangi. Með því að takast á við stafrænt kynbundið ofbeldi tökum við skref í átt að öruggara, réttlátara og heilbrigðara samfélagi – bæði á netinu og utan þess.
Ingibjörg Ólafsdóttir
Höf. er verkefnastjóri Soroptimistaklúbbs Akraness
