Ríkisvald – Fylki – Sveitarfélög

Jóhannes Finnur Halldórsson

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur sent bænaskjal til Hvalfjarðarsveitar um að sameinast, sem hefur verið misjafnlega tekið. Innviðaráðherra hefur lagt af stað með verkefni um að sameina sveitarfélögin, en í mjög smáum stíl. Umræður hafa farið af stað undanfarna daga um jöfnun atkvæðisréttar milli kjördæma og endilega vilja flestallir jafna þann rétt, en til að að rugla málið er reynt að skilgreina slíka jöfnun mjög misjafnlega. Þetta er smá formáli að því sem mig langar til að segja og benda á.

Þrjú stjórnsýslustig

Íslensk stjórnsýsla hefur um langt skeið haft tvær meginstoðir; ríki og sveitarfélög. Þessi skipan, sem mótaðist á tímum þegar landið var fámennara og einfaldara í uppbyggingu, hefur þjónað sínum tilgangi – en í dag er ljóst að hún nær ekki lengur utan um þær áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Sveitarfélögin eru mörg hver of smá til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem þau hafa fengið á herðar sínar, en ríkið er á sama tíma orðið of miðstýrt og fjarlægt í mörgum málaflokkum sem kalla á staðbundna stefnumótun og ábyrgð. Það er því kominn tími til að taka næsta skref; að innleiða þriggja þrepa stjórnsýslukerfi á Íslandi.

Nýtt millistig: Fylki með raunverulegt vald og tekjur

Hugmyndin gengur út á að setja upp millistig milli ríkis og sveitarfélaga – Fylki – sem yrðu sjálfstæðar stjórnsýslueiningar með eigin tekjustofna og verulegt ákvarðanavald. Fylkin tækju yfir marga af þeim málaflokkum sem í dag eru annaðhvort of stórir fyrir smærri sveitarfélög eða of staðbundnir fyrir miðstýringu ríkisins. Fylkin yrðu í senn nægilega stór til að hafa burði til faglegs reksturs, en nægilega nærri fólki til að tryggja lýðræðislegt aðhald og svæðisbundna ábyrgð.

Hvað er sveitarfélag? Sveitarfélag er sjálfstæð stjórnsýslueining. Sveitarfélögin, eins og við þekkjum þau, yrðu áfram mikilvæg í nærsamfélaginu, en með mun færri verkefni og þyrftu að eiga nánasta samstarf við Fylkin en ekki endilega ríkisvaldið.

Ríkið – stefnumótun, samhæfing og eftirlit

Ríkið myndi draga sig til baka frá mörgum daglegum rekstrarmálum og beina kröftum sínum að stefnumótun, samhæfingu, eftirliti og jöfnuði milli svæða. Þannig yrði stjórnsýslan skýrari og í grófum dráttum sagt:

  • Ríkið setur leikreglurnar og tryggir jöfnuð.
  • Fylkin reka þjónustu og framkvæma stefnu á svæðisbundnum grunni.
  • Sveitarfélögin sinna nærsamfélaginu og tryggja mannlega nálgun.

Nýtt tekjuskipulag og valddreifing

Til að þetta kerfi geti virkað þarf raunverulega valddreifingu – ekki aðeins til málaflokka heldur líka til fjármuna. Fylkin yrðu með eigin tekjustofna, t.d. hluta af tekjuskattsstofni, og gætu tekið lán til fjárfestinga. Sveitarfélögin myndu áfram hafa t.d. fasteignaskatt og þjónustugjöld sem sínar tekjur. Ríkið héldi eftir stóru skattheimtunni en tryggði jöfnun milli svæða.

Framtíðarsýn fyrir íslenska stjórnsýslu

Ísland er fámenn þjóð með dreifða byggð og stundum þunglamalegt þjónustukerfi (fjarlægðir og fámenni). Ef við viljum hugsa stjórnsýslu til framtíðar, sem nær utan um breytt samfélag, þarf hún að byggjast á sterkum grunni – þar sem ábyrgð, fagmennska og lýðræði fara saman.

Þriggja þrepa kerfi – ríki, fylki, sveitarfélög – myndi leggja þann grunn. Það er verkefni sem krefst hugrekkis, samstöðu og framtíðarsýnar.

 

Jóhannes Finnur Halldórsson

Höf. er cand. oecon. á eftirlaunum.

Fv. bæjarritari í tveimur sveitarélögum á Vesturlandi.

Fv. starfsmaður EFS (eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga), hjá viðeigandi ráðuneytum.

Starfaði með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um málefni sveitarfélaga á tímum hrunsins.