Ríkisstjórn ríka fólksins kveður

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Það verður ekki á þessa ríkisstjórn logið að undir hennar stjórn heldur misskipting í þjóðfélaginu áfram að aukast. Það eru 20% Íslendinga sem eiga 87% af öllu eigin fé landsmanna. Allt eru þetta staðreyndir sem sýna að efnahagsbati samfélagsins er ekki að skila sér með sanngjörnum hætti til landsmanna og ójöfnuðurinn er æpandi og ekkert getur réttlætt þessa þróun.
Aukinn ójöfnuður
Þeir sem eru ríkastir fyrir halda áfram að taka til sín mest af nýjum auð. Allar hagtölur frá Hagstofunni sýna það svart á hvítu. Af þeirri hreinu eign sem orðið hefur til frá árinu 2010 hafa yfir 527 milljarðar runnið til þeirra 10% Íslendinga sem eiga mestar eignir. Það er ekki auðvelt fyrir venjulegt fólk sem berst fyrir því að ná endum saman um hver mánaðamót að setja kjör sín í samhengi við kjör þessara ríkustu Íslendinga. Tekjuhæsta 1% landsmanna þénaði samtals um 42 milljarða í fjármagnstekjur árið 2015 sem er 44% af öllum fjármagnstekjum sem skattgreiðendur þénuðu þegar 99% þjóðarinnar skiptu með sér 56% fjármagnstekna. Þessi ríkisstjórn hefur meðvitað unnið að því að auka ójöfnuð í landinu, lækkað skatta á þá tekjuhæstu, afnumið auðlegðarskatt og orkuskatt af stórfyrirtækjum og hækkað matarskatt á almenning í landinu sem kemur verst niður á þeim tekjulægstu.
Réttlæti fyrir hina efnaminni
Við verðum að hafa kjark til þess að snúa þessari misskiptingu í þjóðfélaginu við í næstu kosningum og kjósa réttlæti og jöfnuð. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur í kosningaáherslum sínum og málflutningi lagt höfuðáherslu á að tryggja almenningi í landinu gott velferðar- og heilbrigðiskerfi og að dregið verði úr kostnaðarþátttöku sjúklinga í lyfjakaupum og læknisþjónustu. Við leggjum áherslu á þrepaskipt skattkerfi í þágu hinna efnaminni og að stórtekjufólk borgi meira til samfélagsins. Við erum ríkt samfélag sem eigum að leggja metnað okkar í að búa sem best að ungum barnafjölskyldum og öldruðum og öryrkjum og láta efnahagsbatann skila sér til almennings í landinu og í innviðauppbyggingu en ekki fyrst og fremst til fárra útvaldra eins og veruleikinn sínir með þessa hægri ríkisstjórn sem aukið hefur ójöfnuð í samfélaginu svo um munar.
Lilja Rafney Magnúsdóttir
Höfundur skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi