Ríkidæmið

Finnbogi Rögnvaldsson

Fáar þjóðir búa við betri hag en Íslendingar. Þjóðartekjur á hvern íbúa er með þeim hæstu í heimi og við mælumst gjarnan ofarlega í metingum um hvað eina sem prýðir þjóðir og lætur þær virðast standa öðrum framar. Horaðir forfeður okkar sem áttu fæstir meira en sjókistu eða prjónastokk þegar þeir hurfu undir kistulok eða í vota gröf hefðu glaðst ef þeir hefðu haft vissu um að afkomendur þeirra yrðu meðal feitustu þjóða heims og myndu eiga gnótt fjár. Er enda um fátt meira talað á jákvæðum nótum en mathallir og annað er að mat snýr nema þegar talið berst að hagvexti og framþróun.

Vextir
Það kemur því nokkuð á óvart að þjóðin skuli skuldum vafin. Það lætur nærri að hver einasti íbúi í Hafnarfirði og Kópavogi greiði milljón krónur í vexti á ári fyrir hönd ríkissjóðs, þó vissulega dreifist þetta á landsmenn alla eftir fyrirfram settum reglum. 66.000.000.000 krónur í vaxtagreiðslur á ári koma í hlut ríkissjóðs. Það er allhá tala. Samt miðar boðuðum stórframkvæmdum svo hægt fram að þeir sem heyrðu af þeim sem börn eru orðin rígfullorðið fólk en framkvæmdirnar samt enn í fullum gangi. Og margar bíða en sumar hafa verið kosningaloforð nær allra stjórnmálaflokka svo lengi að þjóðin er byrjuð að átta sig á að ekki er um raunverulegar framkvæmdir að ræða heldur einhvers konar sýndarheim.

Græn skref
Fólk og fyrirtæki eru trú þessu ati í kringum lán og peninga, fólk hendir utan af sér klæðum, úr húsum sínum innanstokksmunum og heimilistækjum þó oftast sé byrjað á eldhúsinnréttingunni. Bílar, makar, bátar, skip… öllu er fleygt og nýtt keypt jafn harðan og hægt er að slá lán. Sem er mikið lán. Fólk erlendis öfundar okkur af öllu þessu ríkidæmi. Og það skemmtilega við þetta allt saman er að við erum alltaf að græða – ALLTAF. Einu sinni vildum við að hér risi Sviss norðursins, þá vorum við framarlega – við vorum í fremstu röð eins og það heitir – í rekstri banka. Vorum við þetta út um allan heim. Síðan urðum við frábitin þeim áformum.

Nú erum við senn orðin kennslustofa í umhverfisvernd og græn skref orðin svo mörg að fáir hafa tölu á, nota snjallúr til að telja þau um leið og sjálfan hjartsláttinn. Hvernig ætlum við að verða græn? Við ætlum að flytja inn enn meira dót, nýtt dót sem gengur fyrir rafmagni. Og vélar til að búa til meira grænt rafmagn, orkuskipti heitir það. Við erum nú ekki svo græn eftir allt saman.