Réttindabarátta strandveiðimanna og sjávarbyggða

Eyjólfur Ármannsson

– rökin fyrir frjálsum handfæraveiðum

 

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí sl. í sextánda sinn. Mikil veiði hefur verið enda mikið af fiski á öllum miðum handfærabáta og útlit fyrir stöðvun veiða mánaðamótin júní-júlí auki matvælaráðherra ekki aflamagn til strandveiða og tryggi 48 veiðidaga í sumar. Í fyrra voru veiðar stöðvaðar 11. júlí og hittiðfyrra 21. júlí. Ekkert hefur orðið af kosningaloforðum VG, sem farið hefur með matvælaráðuneytið allt kjörtímabilið, um að efla strandveiðar og sagði: „Nýta má strandveiðar til að efla jafnrétti og stuðla að nýliðun í sjávarútvegi.“

Matvælaráðherra tekur ákvörðun um strandveiðar í reglugerð, en þar veitir ráðherrann heimild til veiða á handfæri 12 daga í mánuði á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst, það aflamagn sem ráðstafað er til strandveiða hvert ár. Samkvæmt ákvörðun ráðherra er það einungis 10.000 tonn af þorski, sama magn og í fyrra. Hver bátur má hafa fjórar handfærarúllur (4 krókar á rúllu) og ekki má veiða meira en 650 kg í þorskígildum af kvótabundnum tegundum að undaskildum ufsa í hverri veiðiferð, sem ekki má vara lengur 14 tíma. Það jafngildir 774 kílóum af slægðum þorski fyrir hvern veiðidag.

Strandveiðar hafa sannað gildi sitt

Strandveiðar hafa svo sannarlega sannað gildi sitt en um 700 bátar hafa að verið gerðir út á strandveiðar undanfarin ár. Strandveiðiútgerð hefur aukið fjölbreytni í sjávarútvegi á landsbyggðinni. Öll umgjörð strandveiða er gegnsæ. Allur landaður afli strandveiðibáta er veginn á hafnarvog, engin heima- og endurvigtun er leyfð sem getur fylgt mikil hækkun ísprósentu.  Aflinn er seldur á markaðsverði á fiskmörkuðum, en ekki á lægra verði Verðlagsstofu skiptaverðs sem útgerðir með vinnslu njóta. Bæði þessi atriði geta augljóslega aukið mikið bókhaldslega arðsemi fyrirtækja.

Strandveiðar eru umhverfisvænar, valda minnstu raski í hafrýminu, hafa minnsta kolefnissporið. Þær eru hagkvæmar og hámarka verðmæti aflans og hafa reynst hinum dreifðu sjávarbyggðir gríðarlega vel, og hleypt lífi í brothættar byggðir víða um land yfir sumartímann. Veiðarnar lífga upp á bæjarlífið í sjávarbyggðum landsins og landanir smábáta vekja forvitni bæði bæjarbúa og erlendra ferðamanna. Strandveiðimenningin hefur endurnýjað tengsl landsmanna við fiskveiðar og hafið, sem er mikilvægt fyrir eyju í Norður-Atlantshafi.

Réttindabarátta strandveiðimanna og sjávarbyggða

Strandveiðar veita fjölbreyttum hópi strandveiðimanna tækifæri til handfæraveiða og atvinnufrelsi til að stunda þá vinnu sem þeir kjósa yfir sumarið.

Baráttan fyrir frjálsum handfæraveiðum er réttindabarátta. Þetta er barátta fyrir jafnræði og atvinnufrelsi en takmarkanir á atvinnufrelsi mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Þetta er einnig barátta fyrir búseturétti í sjávarbyggðum landsins, sem byggist á atvinnufrelsi og nálægð við sjávarauðlinda.

Í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Takmörkun á atvinnufrelsi verður að byggja á almannahagsmunum. Verndun fiskistofna þarf að ná til veiðarfæra sem ógna fiskistofnun, ekki þeirra sem ekki ógna þeim. Handfæraveiðar á bát með nokkrum krókum á fjórum rúllum ógna ekki fiskistofnum við landið. Takmörkun handfæraveiða með 10.000 tonna þorskafla er skerðing á atvinnufrelsi sem gengur lengra en nauðsyn krefur og því gegn atvinnufrelsi í landinu.

Handfæraveiðar smábáta búa við náttúrulegar takmarkanir veðurs og sjólags, auka takmörkunar á veiðidögum, lengdar veiðiferðar og magns í veiðiferð. Hér er ekki um ólympískar veiðar að ræða, takmarkanirnar sjá til þess.

Núverandi strandveiðikerfi var sett á í kjölfar álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007, sem sagði að stjórnkerfi fiskveiða bryti á jafnræði borgaranna samkvæmt mannréttindasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Strandveiðikerfi með 48 veiðidögum, sem aldrei nást vegna lítilla aflaheimilda, nær hvorki markmiði sínu um jafnræði né fjölda veiðidaga. Takmörkun á krókaveiði í skjóli verndunar fiskistofna sem stendur ekki ógn af krókaveiðum réttlætir ekki takmörkun á atvinnufrelsi. Það eru ekki almannahagsmunir. Handfæraveiðar ógna ekki fiskistofnum.

Réttur til handfæraveiða á stoð í réttarvitund almennings og er aldagamall. Í Jónsbók frá 1281, lögbók Íslendinga í árhundruð, segir: „Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög at ósekju.“ Þennan rétt ber að virða.

Sjávarbyggðirnar byggja tilvist sína á fiskveiðum og nálægð við fiskimið og auðlindir hafsins. Þetta er barátta fyrir rétti íbúa sjávarbyggða, þar sem byggð hefur alla tíð byggst á fiskveiðum, til sjálfsbjargar og fyrir jöfnum búseturétti. Frjálsar handfæraveiðar og efling strandveiða virða þennan rétt.

Fiskiveiðistjórnarkerfið nær ekki markmiðum sínum

Markmið laga um fiskveiðistjórnun er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Kvótakerfinu var komið á til að vernda fiskistofna fyrir ofveiði.

Verndunin hefur ekki leitt til uppbyggingar fiskistofna. Kvótakerfinu var komið á fót til árið 1984. Aflamark í þorski var þá lækkað í um 200.000 tonn til að byggja upp þorskstofninn. Í dag –  40 árum síðar – eru veiðiheimildir í þorski um 200.000 tonn. Á áratugunum fyrir kvótakerfið var þorskveiði á Íslandsmiðum um 400.000 tonn á ári, og mun hærri á sum árin. Árangurinn af kvótakerfinu þegar kemur að uppbyggingu þorskstofnsins er því enginn. Nákvæmlega enginn. Þetta árangursleysi ætti að leiða til umræðu og endurskoðunar á vísindunum sem kvótakerfið byggir á og kvótakerfinu sjálfu. Enginn áhugi er á því hjá ráðandi öflum og umræða og gagnrýni á vísindin og kerfið þekkist ekki í helstu fjölmiðlum landsins.

Frjálsar handfæraveiðar stuðla að markmiði fiskveiðistjórnarlaga með því að tryggja atvinnu og byggð í landinu. Þær hleypa nýju lífi í brothættar sjávarbyggðir og styrkja dreifða byggð í landinu með sjálfstæðum smáútgerðum og fjölbreyttari útgerð.

Kvótakerfið, sem sett var til verndar fiskistofnum, á að ná til þeirra veiðiaðferða og veiðarfæra sem ógna fiskistofnunum. Handfæraveiðar með önglum ógna ekki fiskistofnum og ber því að gefa frjálsar, eins og áður sagði. Rökin fyrir núgildandi takmörkun handfæraveiða eru ekki fyrir hendi og ættu handfæraveiðar að vera fyrir utan kvótasetningu. Handfæraveiðar veita upplýsingar um ástand fiskistofna við strendur landsins sem ætti að nýta betur. Mokveiði undanfarnar vikur og sjálfát þorsks veita upplýsingar um ástand þorskstofnsins. Kominn er tími á strandveiðirall líkt og togararall og netarall.

Sátt um fiskveiðistjórnarkerfið mun nást með sanngjörnu veiðigjaldi og aðgengi að fiskveiðiauðlindinni með frelsi til handfæraveiða með náttúrulegum og eðlilegum takmörkunum. Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í átt að réttlæti fyrir þjóðina og sjávarbyggðir landsins verða að byggja á jafnræði og atvinnufrelsi. Það verður gert með því að virða rétt almennings til handfæraveiða við Íslandsstrendur.

 

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

eyjolfur.armannsson@althingi.is