Ræðum saman

Kristinn Hallur Sveinsson

Það hefur verið gaman að taka þátt í kosningabaráttunni nú í vor! Við sem erum í framboði fyrir Samfylkinguna höfum lagt okkur fram um að vera málefnaleg, sanngjörn og bera fram stefnumál sem eru brýn, framkvæmanleg og til framfara fyrir okkur öll. Við vildum hafa stefnuskrána skýra og skiljanlega, ekki langorða né loðmullulega, þó að baki hennar liggi mikil málefnavinna og miklar umræður. Allt það efni liggur fyrir í heimildabankanum og nýtist þegar kemur að ákvarðanatöku og framkvæmdum.

Ég veit að hinir flokkarnir hafa líka lagt mikla vinnu við sínar stefnuskrár og þar má sjá margar góðar og vel ígrundaðar hugmyndir og stefnumál. Þetta mun nýtast á næsta kjörtímabili og eiga því frambjóðendur allir þökk og heiður skilinn fyrir óeigingjarna vinnu í þágu íbúa Akraness.

Lifandi lýðræði

Kosningabarátta er spennandi og lærdómsrík. Við höfum gengið í hús, dreift bæklingnum okkar og rósum. Í þessu annríki hittir maður fjöldann allan af fólki, spjallar, hlustar og rökræðir. Þeir sem eru í framboði hafa gott af því að kynnast sem flestum sjónarmiðum og viðhorfum, að þurfa að verja sinn málstað og svara fyrir það sem gert hefur verið eða ekki gert. Þessi lifandi umræða er lýðræðið í sinni einföldustu mynd og er þroskandi fyrir þá sem taka þátt í henni og ég þakka fyrir mig.

Kosningar enda alltaf á niðurstöðu sem vinna þarf úr. Allir flokkar leggja sig fram um að kynna sig og sína stefnu sem best og oft eru væntingar auðvitað umfram niðurstöðuna. Fylgifiskar lýðræðisins eru sigrar, ósigrar eða óbreytt staða. Snilldin er að vinna sem best úr því, vera trúr því sem lofað var og forðast beiskju, því hún er ekki góður förunautur þegar vinna þarf að ákvarðanatöku.

Ágætu kjósendur!

Í kosningunum á laugardaginn veljið þið þá sem munu fara með umboð ykkar næsta kjörtímabil. Ég sé ekki betur en allir flokkar bjóði fram gott og dugmikið fólk og kosningabaráttan hefur hingað til að mestu verið málefnaleg og hófstillt. Það er ánægjuefni að Skagamenn séu svo heppnir. Við í Samfylkingunni munum leggja okkur öll fram um að koma stefnumálum okkar í höfn. Þau lúta að því að styrkja og efla samfélagið í víðum skilningi og eru byggð á hefðbundinni jafnaðarstefnu, stefnu sem sannanlega hefur skapað réttlátustu og bestu þjóðfélög heims.  Til þess að svo megi verða þurfum við öflugan stuðning ykkar.

XS – Að sjálfsögðu!

 

Kristinn Hallur Sveinsson.

Höf. skipar 3. sætið á lista Samfylkingar á Akranesi.