Ráðherra veldur vonbrigðum

Guðjón S Brjánsson

Skyldur og ábyrgð velferðarráðuneytisins um forvarnir fellur undir ábyrgðasvið heilbrigðisráðherra og hann sem slíkur ber ábyrgð á forvörnum og lýðheilsu samkvæmt forsetaúrskurði. Með lýðheilsu er átt við aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga, þjóðfélagshópa og þjóðarinnar í heild. Unnið er að þessu með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu og markmiðið er að efla og bæta lýðheilsu.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um að leyfa sölu áfengis (bjórs, léttvíns og sterks víns) í venjulegum matvöruverslunum. Þetta er forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á þingi og flutningsmaður er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis. Í umræðu um áfengisfrumvarpið var ráðherra spurður beint út, hvort hann styddi frumvarpið. Ráðherra svaraði því til að hann óskaði eftir að frumvarpið fengi þinglega meðferð, fengi umsagnir frá almenningi, heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðilum í verslun og þjónustu og að hann vildi sjá hvernig frumvarpinu reiddi af áður en hann gæfi upp sína endanlega afstöðu. Í umræðunni vitnaði ráðherra í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem sérstök áhersla er lögð á að draga skuli úr beinum og óbeinum samfélagskostnaði með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Hann bætti við að í mótun sé heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna. Hann drap líka á að stóraukið aðgengi að áfengi geti ekki samræmst stefnu um lýðheilsu.

Ráðherra tók ekki beina afstöðu gegn frumvarpinu í umræðunni. Þar með gengur hann gegn öllum þeim sem starfa að lýðheilsu og forvörnum í landinu. Með afstöðu sinni styður hann ekki þá aðila sem berjast gegn frumvarpinu. Þetta eru kaldar kveðjur til fjölda fólks sem telur að með samþykkt frumvarpsins muni áfengisneysla aukast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Verra er að ráðherra skuli ekki geta staðið af festu í báða fæturna í þessu máli, sem er að viðhalda og bæta heilbrigði. Væntingar til heilbrigðisráðherra eru þær að hann taki skýra afstöðu gegn áhrifaöflum sem berjast fyrir aukinni óheilsu og verra heilsufari þjóðarinnar.

Það er haft á orði að ráðherra eigi erfitt með að taka ákvarðanir. Í þessu mikilvæga máli á að vera auðvelt að taka af skarið og standa af einurð með viðleitni okkar sem bæta vilja heilsu almennings.

 

Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður