Prófaðu að heimsækja hugann þinn

Geir Konráð Theódórsson

Einveran er búin og ég er sloppinn úr sóttkvínni. Ég sat uppi einn með sjálfan mig í tvær vikur og ég held að þetta sé manni bara hollt, að kynnast sjálfum sér – en segjum samt hollt í hófi því ég er svo feginn að vera kominn aftur út á meðal fólks. Það var mér til happs að hafa með mér litla bók sem ég fann fyrir löngu á svona „gamalt og gefins“ borði á bókasafni í Harvard háskóla. Þetta er bókin Peace is every step eða Friður er hvert fótatak eftir búddamunkinn Thich Nhat Hanh frá Víetnam.

Ég er nú ekki búddisti eða mikill hugleiðslumaður en ég hafði heyrt sögur af þessum munki og hvernig hans friðarboðskapur hafi haft áhrif á Martin Luther King, sem síðan tilnefndi Thich Nhat Hanh til friðarverðlauna Nóbels árið 1967. Eftir dvöl mína í ófriðarástandinu í Níger þá hef ég verið leitandi að friðsömum fróðleik til að bæta mína andlegu líðan, sem og að koma til móts við þessa reiði sem bergmálar á samfélagsmiðlunum mínum. Fólk er skiljanlega reitt í garð þessa ástands sem ríkir í mörgum löndum en ef réttlætið á að koma með reiði, hatri og jafnvel ofbeldi þá er eitthvað ekki rétt.

Þessi litla bók gerði mér gott. Hún samanstendur af viskukornum, sögum og leiðbeiningum sem leiða mann að því að njóta augnabliksins og vera meðvitaður um að upplifa hverja líðandi stund. Bókin þjálfar mann í að nota áreitið í daglega umhverfinu okkar sem áminningu um að brosa, anda og vera með sjálfum sér. Til dæmis í hvert þegar síminn þinn gefur frá sér hljóð þá getur þú gefið þér stund til að muna að anda vel og djúpt. Eitthvað eins og illgresi sem þú sérð allsstaðar getur orðið að jákvæðri áminningu um að brosa ef þú myndar þau hugrenningatengsl, að fífillinn geymir fyrir þig brosið þar til þú sérð hann næst.

Hugleiðsla þarf ekki að vera löng formleg íhugun á djúpum fornum sannindum í óþægilegri stellingu á ákveðnum stað. Hugleiðsla getur einfaldlega verið hugarfarið okkar þegar maður á þessar daglegu stundir með sjálfum sér, eins og til dæmis að vaska upp eftir matinn. Það getur verið stund til að vera meðvitaður um andardráttinn, gefa sér tíma til að skilja sjálfan sig og hlusta á hugsanirnar sem koma og fara, ekki staldra við heldur bara fylgjast með þeim flæða – og svo gera þetta með bros á vör því í stóra samhenginu er bara magnað að þú sért þarna á þessari stundu að upplifa alheiminn. Anda, hlusta og brosa, þetta þarf ekki að vera flókið.

Já, ég mæli með bókinni. Það er eitthvað sérstakt við að byrja að hlusta svona á sjálfan sig með hugleiðandi hugarfari. Upplifunin við að fylgjast með sínum eiginn huga getur verið eins og maður sé gestur sem kemur óvænt í heimsókn. Þú sérð hugann vera ögn undrandi þegar hann býður þér inn, það er allt á rúi og stúi, hugurinn er vandræðalega að taka til í kringum sig, spjalla og reyna að hella upp á kaffi á sama tíma. Maður er ögn undrandi á þessu ástandi hjá huganum og jafnvel skammast sín aðeins, en þú verður að sýna þessu skilning því allt sem þú upplifir þarna er auðvitað á þinni ábyrgð. Þetta er samt allt í lagi, þú gefur þessu smá tíma. Á endanum komið þið ykkur vel fyrir, eigið góða stund yfir kaffibollanum talandi um allt og ekkert og það rennur upp fyrir þér hvað þér þykir vænt um þennan hug þinn.

Það verður hugarfarsbreyting við að heimsækja sjálfan sig svona, sérstaklega þegar maður ímyndar sér að hver einasta manneskja í kringum okkur er með hug eins og við sjálf – hug með kannski svipaðri óreiðu, vandræðalegheitum og væntumþykju. Ég held að innri friðurinn komi með því að heimsækja hugann sinn oftar, sama hve vandræðalegur hann er – bara mæta með bros á vör, hjálpa honum að taka til þarna uppi og sýna að þér þykir vænt um hann. Kannski kemur svo ytri friðurinn eftir það, þegar þú og hugurinn farið í heimsókn hjá öðrum og mætið með væntumþykjuna.

 

Geir Konráð Theódórsson.