Pólitíkin með augum unga fólksins

Sigurður Páll Jónsson

Ég fékk það skemmtilega verkefni á dögunum að heimsækja tvo framhaldsskóla sem fulltrúi Framsóknarflokksins vegna svokallaðra skuggakosninga sem haldnar voru í öllum menntaskólum landsins þann 13. október sl. Ég mætti í FSN í Grundarfirði og Menntaskólann í Borgarnesi ásamt fulltrúum annarra framboða. Ég lét í ljós ánægju mína með það að þessar kosningar skyldu haldnar, hvatti unga fólkið til að láta sig stjórnmál varða, þar ættu ekki að vera aldurstakmörk að mínu mati og þau skyldu hafa skoðanir eftir sínu höfði og láta þær í ljós samkvæmt því. Og það kom á daginn í þessum heimsóknum mínum, unga fólkið hefur sínar skoðanir líkt og aðrir aldurshópar.
Það var gaman að fást við þær spurningar sem á borð voru bornar, t.d. hvað finnst frambjóðendum um afglæpavæðingu á neysluskömmtum fíkniefna, hvað um skatt á ferðþjónustu, aðstoð við flóttafólk og hvað með búvörusamningana?
Það var gaman að heyra hvað brann á unga fólkinu og hvar þekking þess liggur. Svo kom stóra spurningin, er hægt að treysta kosningaloforðum frambjóðenda?

Mér vafðist tunga um tönn, sagðist ekki getað lofað því, enda væri ég ekki mikið fyrir að gefa út loforðalista, samt sem áður myndi ég lofa að gera mitt besta.
Í stjórnmálum geta ekki allir orðið sammála, allt of margir, þar á meðal ég (stundum) skella hurðum ef einhver er ekki sammála. Ég hef þó reynt að temja mér það að virða skoðanir annarra. Við verðum að treysta okkur til að eiga samtal við einstaklinga þó þeir geti verið eða hafi verið okkur ósammála.
Ég var spurður af hverju ég væri Framsóknarmaður. Það var spurning sem vafðist ekki fyrir mér. Framsóknarflokkurinn er hógvær miðjuflokkur, félagshyggjuflokkur sem hefur samvinnuhugsjón að leiðarljósi, þess vegna hef ég kosið Framsóknarflokkinn í fjörtíu ár og kýs núna að bjóða mig fram fyrir hann og Norðvesturkjördæmi.

 

Sigurður Páll Jónsson, Stykkishólmi.

Höf. er þriðji maður á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar