Plönin sem fuku

Ásgeir Kristinsson

Þegar maður flytur tímabundið til útlanda, á stað þar sem skortur er á skýjum og magn sólar er í öfugu hlutfalli við verð á mat og drykk, þá gefast margar stundir til lestrar. Samfélags- og aðrir miðlar gefa núna merkilega mynd af ástandinu á Íslandi eftir atburði síðustu viku. Þegar þetta aðventuhret er yfirstaðið og landsmenn eru farnir að fá yfirsýn yfir það hvað gerðist eiginlega, er farið að örla á samviskubiti og svitadropum hjá einstaka opinberum starfsmanni. Ekki þó þeim fótgönguliðum veitu og vega. Þeir hafa bara svitnað vegna vinnu en ekki sektarkenndar og eiga mikið hrós skilið fyrir sitt framlag. En greinilegt er að hægt hefði verið að gera betur, bregðast hraðar við og sækja fleiri í undirbúning.

Það rifjast upp fyrir mér nokkur atvik í mínu starfi sem forsvarsmanns björgunarsveitar til fjölda ára þar sem ég hef þurft á þjónustu opinberra starfsmanna að halda. Bæði ráðinna og kjörinna. Ég kann of margar sögur af hrokafullum tilsvörum eða ótrúlegum töfum á afgreiðslu erinda. Eða ótrúlegu skilningsleysi á eðli okkar starfsemi og engar tilraunir gerðar til að setja sig í spor okkar. Þetta er þó ekki algilt enda hefðu björgunarsveitir Íslands aldrei getað sinnt sínum verkum síðustu viku annars. Þeir taka til sín sem eiga.

Ég er núna að lesa allar afsakanirnar hjá ráðamönnum: Tetra klikkaði, rafmagnið klikkaði, útvarpið klikkaði… en ekki ég! Þá rifjast upp allir fundirnir, öll erindin, allar beiðnirnar, allar umsóknirnar sem maður hefur sótt, sent og sífrað yfir í gegnum árin fyrir björgunarsveitina. Og viðbrögðin hafa verið á ýmsa vegu. „Já góði minn, þú aftur“, „ja, við erum nú hætt að styrkja“, „já setjum þetta í nefnd“ eða: „Þessir björgunarsveitamenn! Þeir halda bara að þeir geti fengið allt og viti allt.“

En þegar innviðirnir hjá þriðjungi landsmanna hrundu í eftirminnilegu fárviðri þá voru þessi tilsvör gleymd og ekki notuð þegar þurfti að bjarga málum, virkja plan A. Þá var gott að geta fengið fólk til aðstoðar sem gat allt, vissi allt og rukkaði ekki neitt.

Ég á til góða sögu um það þegar fólk áttar sig á í hverju okkar starf felst. Eitt sinn hafði samband við mig forstjóri í stóru fyrirtæki sem vildi kaupa af björgunarsveitinni aspir. Á þeim tíma þræluðum við okkur út við að stinga upp aspartré og selja. Þessi góði maður vildi fá ákveðið magn en sagði svo strax: „Fæ ég ekki 30% afslátt?“ Ég er stundum seinn til svars en í þetta skiptið stóð ekki á svari. „Þannig að þegar þú hringir í björgunarsveitina vegna þess að þakið þitt er að fjúka og biður um tíu menn, á ég þá að biðja um 30% afslátt og senda þér sjö?“ Spurði ég. Frekari umræður um afslætti urðu ekki.

Þetta er nú tilefni skrifa minna. Að minna enn og aftur á þá staðreynd að í tuga ára hafa konur og menn þessa lands unnið ótrúlega ötult og óeigingjarnt starf við að undirbúa sig fyrir viðlíka hamfarir eins og dundu á Íslandi þriðjudaginn 10. desember. Ekki látið þvergirðingshátt embættismanna stoppa sig. Það að hægt hafi verið að senda þrjá snjóbíla og lið björgunarsveitafólks á valda staði á undan óveðrinu var ekki gert með mánaðar fyrirvara. Það þurfti bara eitt samtal til þess. Og sem betur fer þurfti ekki að senda neitt erindi á opinbera stofnun. Þá hefði þetta lið aldrei farið neitt.

Íslendingar hafa byggt upp eitt besta björgunarkerfi í heimi. Það er plan A. Allt hjal um að það þurfi að byggja upp plan C eða að skoða hvað fór úrskeiðis er svo sem gott og gilt en svifaseinir opinberir starfsmenn eiga bara að viðurkenna vanmátt sinn fyrir óblíðum náttúruöflum norðurhjara og láta fagfólk í verkið. Náttúran bíður ekki eftir ákvörðun nefndar.

Kæru opinberu starfsmenn, jafnt ráðnir sem kjörnir. Þegar við þurfum að leita til ykkar með erindi vegna starfa okkar fyrir björgunarsveit, eru þið til í að sinna okkar erindum jafn hratt eða næstum jafn hratt og þið viljið að við sinnum ykkar erindum? Ég efast um það að einhvert ykkar, strand í fjöru eða á fjallvegi hafi áhuga á sambærilegum svörum og ég vísaði til í upphafi þessarar greinar:  „Já góði minn, þú aftur“, „ja, við erum nú hætt að sækja í dag“, og „já setjum þetta í nefnd.“

Sameinumst um að efla enn frekar þann ótrúlega samtakamátt sem birtist í björgunarsveitum Íslands. Plani A. Hikum ekki við að taka á þeim málum sem við, fagfólkið, hert í hverju aðventuhretinu á fætur öðru, bendum á að þurfi að bæta. Og sameinumst um að tryggja að þau sem að rjúka út í sortann til bjargar um leið og flestir flýja inn, hafi þann búnað og öryggistæki sem eru algjörlega nauðsynleg til að tryggja örugga heimkomu allra mæðranna, feðranna, systranna og bræðranna sem eru að brjótast á milli bæja til að sinna náunganum eða eru að leita að og bjarga fólki og fénaði.

Ekki spyrja hvað getur björgunarsveitin gert fyrir mig heldur spyrjum: Hvað get ég gert fyrir björgunarsveitina!

 

Podgorica Svartfjallalandi, þar sem sumarið gleymdi að fara. Sól og endalaust logn.

Ásgeir Kristinsson.

Höf. er fv. formaður Björgunarfélags Akraness.