Plastlaus september – hvað er nú það?

Karen Jónsdóttir

Þann 1. september síðastliðnn var árvekniátakið Plastlaus september sett með opnunarhátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur. Umhverfisráðherra setti átakið og sendiherra ESB á Íslandi sagði frá stefnu sambandsins í plastmálum. Átakið er tveggja ára og þykir það sýna viðsnúning í hugsun hjá stjórnvöldum að umhverfisráðherra skuli koma að slíkum viðburði. En plastlaus september er árvekniátak sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti.

Það vakti mikla gleði hjá undirritaðri þegar Matarbúr Kaju á Akranesi var beðið um að vera með kynningar- og sölubás á hátíðnni. En Matarbúr Kaju er eina verslunin hérlendis og þó víðar væri leitað sem býður upp á úrval af þurrvöru sem hægt er að kaupa umbúðalaust. Auk þess er öll þurrvaran lífrænt vottuð og er verslunin því umhverfisvæn á margan hátt. En þess ber að geta að verslunin er að hefja sitt fimmta starfsár.

Umbúðslaus viðskipti eru að ryðja sér til rúms í Evrópu og var fyrsta verslunin opnuð í Hollandi á þessu ári. En í hverju felast umbúðalaus viðskipti og hver er ávinningurinn og hvernig tengist það heilsu?

Umbúðalaus viðskipti felast í því að viðskiptavinurinn kemur með krukkur eða önnur ílát að heiman og fyllir á þau í verslunni eða fær bréfpoka. Ávinningur slíkra viðskipta er mikill og kemur við buddu margra. Minna plast og aðrar umbúðir lækkar kílóaverð þurrvörunnar auk þess sem pökkunarkostnaður fellur út, minni líkur eru á matarsóun þar sem viðkomandi kaupir einungis það sem hann vantar. En þetta tvennt lækkar svo urðunarkostnað sveitarfélaga sem eykst hlutfallslega með hverju árinu sem líður. Ávinningur sveitarfélaganna er því töluvert mikill þ.e. að stuðla að umbúðalausum viðskiptum.  Varðandi heilufar manna og dýra þá er plast að verða viðurkennt sem heilsuspillandi á margan hátt (ekki ólíkt því sem gerðist þegar Asbest varð viðurkennt sem heilsuspillandi efni). Plast gefur frá sér efni sem sum hver teljast krabbameinsvaldandi í dag. Öragnir smjúga inn í líffæri og blóðrás, setjast þar að og valda skemmdum og veikindum og í sumum tilfellum dauða þá sérstaklega dýra sem gera ekki greinarmun á plasti og fæðu.

Fyrir um sex mánuðum eða svo var nokkuð fróðlegur þáttur á RUV er fjallaði um sögu olíunnar og hvernig plast var markaðssett sem algjör nauðsyn fyrir okkur einungis svo hægt væri að viðhalda og auka framleiðslu á olíu. Jú, því með sparneytnari bílum, auknum afköstum olíuiðanðarins varð að finna leiðir til að nota þessa olíu og úr varð varan plast!

Kæri lesandi! Snúum bökum saman og tökum þátt í að bjarga jörðinni okkar, verum meðvituð um það sem við gerum og tökum ábyrgð á gjörðum okkar. Sefnum að því að hætta allri plastnotkun, flokkum sorp og skilum jörðinni til barnabarna okkar í betra standi en þegar við tókum við.

 

Lífrænar kveðjur,

Kaja