Pizza og franskar

Axel Freyr Eiríksson

Sjónarsviðið þrengist með auknum hraða, þar sem eitt sinn var löng röð af fólki bíðandi eftir skíðalyftunni, er nú horfið sjónum, rauða öryggisnetið meðfram brekkunni er orðið að rauðleitu leiftri og það eina sem ég sé skýrt í gegnum Smith polarized skíðagleraugun er hvítt algleymi. Hvítt algleymi af hraða og hæfni, ég er Stenmark, Ingemar Stenmark í præminu. Líkt og Stenmark vill ég fara hratt en örugglega. Stenmark setti reyndar maxið sitt við 120 km niður brekku, ég sjálfur aðeins minna.  Ég stíg ölduna og svíf í stórsvigi niður brekkuna, hraðar og hraðar þangað til ég nem staðar. Reyndar þurfti ég ekki að bremsa sjálfur því brekkan sá um að hægja á mér, yfirráðasvæði mitt þessa ferð var nefnilega Paddi Broddgöltur og Töfrateppið, vinalegar 3% halla brekkur fyrir fólk sem hefur ekki farið á skíði síðan í 9. bekk og þarf að rifja upp taktana. Pizza til að bremsa, franskar til að fara hratt og spaghettí til að stórslasa sig, munið þið ekki? Ég passaði mig á því að gera ekki spaghettí, það gæti nefnilega orðið spaghettí bolognese. Ástæðan fyrir því að ég var búinn að strappa á mig skíði er að langþráð skíðaferð með skólanum sem sonur minn gengur í var orðin að veruleika. Ég ætlaði reyndar ekki að skíða neitt, bara vera á hliðarlínunni og hvetja drenginn til dáða, nema þegar á staðinn var komið hljóp einhver skíðapúki í mig. Einu kortastroki og mátun síðar var ég runninn af stað við hliðina á 8 ára syni mínum.

Þegar ég stóð í röðinni að skrá mig sjálfur inn í kerfið eftir að hafa komið stráknum mínum af stað var ég byrjaður að fá ranghugmyndir um eigin hæfni „ætti ég á eftir að prófa Kónginn?“, af þremur hæfnistigum setti ég mig í miðjuna (ágætlega vanan skíðamann sem vill krefjandi brekkur við og við). Eitruð karlmennska? Allavega, þegar ég byrja að renna af stað þá ber mig ágætlega í hallanum og finn að þarna er um að ræða vöðva sem ég hef ekki notað í 20 ár (mental note; muna grindarbotnsæfingar og hnébeygjur fyrir næstu ferð). Ég sker engar brekkur í þessari ferð.

Eftir að ég og sonur minn vorum orðnir alveg þokkalegir í því að kljást við Patta Broddgölt og að læra ganga með þessar plastspýtur fastar á löppunum (sama hversu töff og góður þú heldur að þú sért að ganga á skíðum í átt að diskalyftunni þá er það ekki rétt, þú munt líta út eins og fáviti. Börn eru reyndar mjög krúttleg þegar þau gera það, svona eins og kálfar á svelli, sem er fyndið) þá fórum við í mat. Heit samloka, kex og djús er hátíðarmatur upp á fjalli, sérstaklega í skólaferðalagi inn í skíðaskála. Eftir að hafa nærst vel og rætt næstu skref vorum við feðgar staðráðnir í því að nú væri nóg komið af barnabrekkum og svoleiðis leikaraskap, við vildum hraða og fjör. Amma Mús og Hérastubbur urðu fyrir valinu (Í alvöru? ég átti ekki breik). Hjá syni mínum og skólafélögum hans kom í ljós þessi frægi hæfileiki ungra skólabarna að læra hluti á ljóshraða og eftir 2-3 ferðir var hæfnistig þeirra komið nokkrum hæðum fyrir ofan mig. Ég hætti samt ekki að reyna og nokkrum ferðum síðar var ég orðinn þokkalega öruggur með mig og gat farið að stíga ölduna, enginn Stenmark, en alveg þokkalegur þó ég segi sjálfur frá.

Í lokin kom í ljós að þetta var slysalaus dagur, það voru fleiri foreldrar sem voru á sömu slóðum og ég. Skíðaferill þeirra endaði með útskriftinni úr grunnskóla og ekki stigið ölduna síðan. Þegar í rútuna var komið þá gerðum við feðgar upp daginn og komumst að því að nú þyrfti fjölskyldan að gera eitthvað í þessu skíðaleysi, því þetta væri svo gaman. Á meðan rútan hlykkjaðist í áttina að höfuðborgarsvæðinu lét ég mig dreyma; ég var staddur í Grindelwald – litlu þorpi sem lúrir undir norðurhlið Eiger, skíðasölumaðurinn í bjálkakofanum afhendir mér tréskíðin mín og annan búnað því ég er svo mikill hipster að gerviskíði henta mér ekki. Ég skíða fimlega niður brekkuna til fjölskyldunnar eins og leikari úr einhverri svarthvítri mynd eftir G.W. Pabst, frægum austurrískum leikstjóra á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Ég fer frekar með fjölskyldunni á skíðasvæðin hér á landi fyrst um sinn.

Þangað til..

 

Axel Freyr Eiríksson

Fleiri aðsendar greinar