Pistill Axels: En þetta var bara eitthvað svo „hygge“

Axel Freyr Eiríksson

Myndin af formönnum og konum flokkanna fjögurra heima hjá Sigurði Inga formanni fyllti hjarta mitt af óútskýrðum yl. Þetta var bara eitthvað svo „hygge,“ eins og Daninn myndi segja. Mig langaði að hita mér kakó og horfa á skítaveðrið úti. Ég meina, það voru bara allir á sokkaleistunum og meira að segja Lilja Alfreðs fór úr því að vera alltaf klædd eins og Charlize Theron í Promotheus í að vera þægilega klædd svona til tilbreytingar. Katrín formaður VG slakaði sýndist mér ekki á verðinum og hélt uppi merkjum flokks síns, klæddist ullarklæðnaði í sterkum litum. Ég ímynda mér að þegar forkólfar flokkanna tóku að streyma inn til hans Sigurðar Inga formanns Framsóknarflokksins að hann hafi staðið í dyragættinni og brosað breitt, heitt loftið sem streymdi út úr dyragættinni (því það er orðið kalt úti) faðmaði stjórnmyndunarliða líkt og gamall góður vinur. Mögulega var verið að bralla gúllassúpu fyrir fólkið líka svo lyktin hefur verið ennþá hlýlegri en svo kom í ljós að það var pizza í hádegismatinn. Þetta var bara eitthvað svo „hygge“.

Þegar inn var komið fékk kannski Helgi Hrafn Pírati að sjá hluti sem hann myndi annars aldrei rekast á í sínu daglega lífi því ég ímynda mér að hann þekki bara stráka á miðjum fertugsaldrinum sem leigja í miðbænum, kannski vinna við forritun og eru með „stolna“ Netflix áskrift í gangi því þeir eru með IP tölu einhversstaðar í Asíu því þeir kunna að fokka í DNS-servernum sínum. Svo eru þeir ekki að stela heldur að nýta rétt sinn til að hlaða niður afþreyingu að þeirra vali og ánægju. Þar hanga engar myndir á veggjunum þar, kannski kvikmyndaplakat. En hjá Sigurði Inga ímynda ég mér bókavegg með leðurinnbundnum bókum rammaðar inn af mahónískáp úr Húsgagnahöllinni, landsmótsmyndir, myndir af hestum (ýmist skeiðandi eða á tölti), árshátíðarmyndir og fjölskyldumyndir þar sem hann situr í einhverri brekkunni undir hlýju teppi með einn kaldan. Jafnvel einhverjir verðlaunabikarar og medalíur sem einhver úr fjölskyldunni hafði unnið á einhverju fjórðungsmótinu. Semsagt alveg ógeðslega „hygge“ og nú eru eflaust margir búnir að henda lopasokkunum sínum í ruslið þar sem Framsókn varð allt í einu kalt á fótunum og hætti við.

En hvað um það. Guðni fær boltann aftur og hinn pólitíski laumukapall hefst aftur á ný. Ég er spenntur fyrir því. Hvað Miðflokkurinn gerir er ekki gott að segja til um, kannski tekur hann bara yfir, ég meina annað eins hefur nú gerst. Ég var lengi að leita að hliðstæðu úr poppkúltúrnum til að skilja hvað Miðflokkurinn er, hvað hann stendur fyrir. Ég kaupi ekki þessa róttæku rökhyggju og bara þeir sem skrá sig í félagsfræði í HÍ hafa svona nokkurn veginn óljósa hugmynd um hvað hún er. Mér finnst skemmtilegt að skilgreina suma hluti út frá dægurmenningunni og komst að þeirri niðurstöðu að Miðflokkurinn er eins og her hinna dauðu úr Game Of Thrones (eða exem, því ef þú klórar það þá kemur það sterkara til baka), með Sigmund Davíð í hlutverki Næturkonungsins því her hans samanstendur af uppvakningnum úr Framsókn og Sjálfstæðisflokknum. Verð að viðurkenna að ég saknaði þess að sjá Sigmund á vettvangi stjórnmálanna, maður veit aldrei hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú ef ég ætti að halda áfram þá gætum við sagt að Katrín sé Khaleesi drekadrottning sem berst við ná sæti sínu á Járnhásætinu (forsætisráðherrastóllinn í þessari meiningu) og Bjarni Benediksson sé þessi eineygði úr Bræðralagi án Fána sem er alltaf lífgaður fyrir aftur eða er hann kannski Jamie Lannister? Ég er ekki viss.

Góðar stundir,

Axel Freyr Eiríksson