Óvæntur hlutur á pokasvæði

Axel Freyr Eiríksson

Existentíalismi eða tilvistarstefnan var áhrifamikil heimspekistefna upp úr heimstyrjöldinni og hafði víðtæk áhrif á menningu og hugvísindi um heim allan. Kirkegaard, Nietzsche, Sartre og Dostojevskíj voru taldir til mikilvægra leikmanna (MVP´s) á þeim leikvelli. Hugmyndin um sjálfræði er stór þáttur í stefnunni, þó var Nietzsche einn af þeim sem dró í efa möguleikann á skynsamlegu sjálfræði en það er efni í annan pistil. Í stuttu máli fjallar þessi stefna um að hin traustu bönd mannsins við Guð og náttúru séu rofin og maðurinn skuli ryðja sína eigin leið. Maðurinn ber sjálfur ábyrgð á sínum mistökum, hvorki Guð né einhver annar. „Hver er sinnar gæfu smiður“ er orðatiltæki sem hnýtir þessa stefnu snyrtilega saman.

En eins og fanginn stígur út fyrir veggi fangelsisins þá kemur það fyrir að manneskjan upplifi ótta, ótta við allt það frelsi og sjálfræði sem hann var eitt sinn sviptur. Hver skal vera leiðarvísir þessara týndu sála í öllu því frelsi sem sprottið hefur upp líkt og í aldingarðinum Eden, hver segir til um hvað sé rétt og hvað sé rangt o.s.fv? En hvernig er það? Á ég að setja bananaknippið fyrst á vigtina eða leita að þeim fyrst í kerfinu og setja þá svo á vigtina? Hvar er Æ-ið á takkaborðinu fyrir sætu kartöfluna? Hvernig raða ég á pokasvæðið án þess að konan í tölvunni fari að kvabba við mig að það sé óvæntur hlutur á pokasvæði? Sjálfsafgreiðslukassarnir í matvörubúðunum hefur breytt því hvernig fólk hagar sér í búðinni, eflaust hafa þeir haft meiri áhrif en ég geri mér grein fyrir.

Eins og leikskólabörn sem bíða í röð eftir að vera smúluð af kennaranum eftir að hafa leikið sér í sandkassanum og drullunni áður en þau fara inn í nestisstund biðu viðskiptavinirnir eitt sinn eftir því að röðin kæmi að þeim á kassanum. Áhyggjuleysið í algleymingi þegar vörurnar rúlluðu hægt en örugglega í átt að peysuklædda starfsmanninum með nafnspjaldinu. Í huga okkar viðskiptavina var hann Guð og náttúran holdi klædd. Hann einn veit hvernig á að stimpla inn vörunúmerið þegar strikamerkið bregst, hvort það eigi að setja ávextina á vigtina fyrir eða eftir vöruleit. Hann einn getur breytt magni dósa. Hjá honum er enginn óvæntur hlutur á pokasvæði.  Nú er enginn tími fyrir spjall við kassana ef vel á að ganga við sjálfsafgreiðsluna, hnykkluð enni og einbeitt augu föst í störu á 15“ snertiskjánum einkenna þessa nýju áþján, sjálfs (afgreiðslu) stæði einstaklingsins.

 

Axel Freyr Eiríksson

Ferjukoti

 

Fleiri aðsendar greinar