
Óskum svara bæjarfulltrúa við sjö spurningum
Starfsfólk í Fjöliðjunni
Sælir fulltrúar í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar!
Við undirrituð mótmælum þeirri ákvörðun bæjarstjórnar að færa hluta starfsemi Fjöliðjunnar í samfélagsmiðstöð að Dalbraut 8. Við höfum þegar rætt við fulltrúa bæjarstjórnar, skilað inn undirskriftalista og farið í fjöldagöngu til að mótmæla þessum fyrirætlunum. Hingað til hefur lítið verið hlustað á okkur og fátt verið um svör. Þess vegna óskum við þess að hver bæjarfulltrúi og bæjarstjóri Akraness svari eftirtöldum tölusettum spurningum.
Nr. 1. Hafið þið kynnt ykkur samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Nr. 2. Af hverju var ekki haft samráð við okkur áður en sveitarstjórn ákvað að gera svo stórar breytingar á vinnustað okkar?
Nr. 3. Hver er ástæða þess að bæjarstjórn ákveður að tvístra vinahópum upp (Flöskumóttaka/ Búkolla/ Vinnusalur) og af hverju fáum við ekki að vera saman?
Nr. 4. Við höfum þegar sagt að við höfum ekki áhuga á að flytja í samfélagsmiðstöðina, af hverju er ekki hlustað á okkar sjónarmið og kröfur?
Nr. 5. Er ástæðan fyrir því að ekki er hlustað á okkar sjónarmið sú að við erum fötluð?
Nr. 6. Hvað getum við gert til að hlustað sé á okkur?
Nr. 7. Finnst ykkur þessi málsmeðferð, að hafa ekki samráð við okkur, tvístra vinahópum og hlusta ekki á okkur vera í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Við krefjumst þess að þessum spurningum verði svarað fyrir 01.03.2024.
Með von um góð viðbrögð,
Áslaug Þorsteinsdóttir, Daníel Ágúst Björnsson, Emma Rakel Björnsdóttir, Kathrin Schymura og Sigurður Smári Kristinsson.
Höf. eru starfsmenn Fjöliðjunnar