Óskar Þór Óskarsson – minning

Björn Bjarki og Magnús minnast Óskars Þórs

Fallinn er frá á sjötugasta aldursári Óskar Þór Óskarsson gröfumaður, æðarbóndi og kvikmyndagerðarmaður á Tröðum á Mýrum. Hann hafði verið á næturvakt til að gæta þess að lágfóta kæmist ekki í æðarvarpið hjá þeim hjónum til að valda usla. Ef til vill er það táknrænt að hann skyldi verða brátt kvaddur við einmitt þessar aðstæður, því aldrei talaði Óskar Þór illa um nokkurn, nema kannski ef vera kynni „bölvaða“ tófuna sem hann taldi óþarflega heimtufrekan varg í véum. Í ljósi þess sem Óskar Þór gerði fyrir samfélagið hér á svæðinu, langar okkur félagana að minnast hans með nokkrum orðum.

Óskar Þór var borinn og barnfæddur Eyjamaður. Faðir hans var skipstjóri og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum og foreldrar hans komu stórum systkinahópi á legg, sex drengjum og einni stúlku. Öll unnu þau að einhverju leyti við útgerð föður þeirra en það átti ekki fyrir Óskari að liggja að gera sjómennsku að ævistarfi. Hann reyndi að vísu fyrir sér á einni vertíð sem ungur maður, en var jafn sjóveikur í síðustu veiðiferðinni sem og þeirri fyrstu þannig að sjómennskan varð ekki hans fag, má segja góðu heilli fyrir okkur hér í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Hann var kominn í land tveimur árum áður en gos hófst í Eyjum. Heimasætunni á Tröðum, Sigurbjörgu Helgadóttur, kynntist hann þegar hann leiddi rafmagnið á bæinn gosárið 1973. Rekstur og útgerð gröfu varð eftir það ævistarf Óskars Þórs og vinna fyrir Rarik var bakbeinið í þeim rekstri alla tíð þótt fyrir fjölmarga aðra ynni hann einnig. Í viðtali við Óskar Þór fyrir mörgum árum rifjar hann upp að þau Sigga fóru á vertíð til Eyja eftir gos til að safna pening til kaupa á nýrri gröfu. Vinnan var mikil, einungis tvö frystihús af fjögur voru starfhæf eftir gosið, en aflinn var ævintýralega mikill enda allir bátar á floti. Eftir þessa vetrarvertíð gátu þau keypt nýja gröfu og hafið útgerð í landi. Auk þess að koma rafmagni á bæina í hinum dreifðu byggðum, var m.a. síminn lagður í jörðu og vatnsveitum á Mýrunum komið í betra horf. Allt framfaraskref sem bættu búsetuskilyrðin.

Árið 1975 keypti Óskar Þór sína fyrsta kvikmyndatökuvél. Í fyrstu þurfti að senda filmur úr vélinni til framköllunar í Svíþjóð, en svo batnaði tæknin og hægt var að yfirfæra efnið yfir á videóspólur þannig að fleiri gætu notið. Stærri upptökuvél keypti Óskar svo árið eftir og hóf að taka upp efni af alvöru. Allt frá því hefur Óskar Þór tekið upp viðtöl og frásagnir um fjölmargt fólk. Safnaði hann heimildum meðal annars með því að heimsækja fólk og ræða við það um líf þess og störf. Var hann ætíð aufúsgestur. Ræddi við fólk sem hafði frá skemmtilegu og óvenjulegu lífshlaupi að segja; alþýðufólk, félagsmálafólk og athafnafólk. Ekki sakaði ef viðkomandi skar sig aðeins úr hópnum. Þá mætti hann á fjölmargar samkomur, kóraskemmtanir eða önnur mannamót til að taka upp efni. Oft kom hann á samkomur í Brákarhlíð og festi á filmu það sem gerðist í veislum og á opnum húsum hjá eldra fólki og tók einnig viðtöl við heimilisfólk. Óskar Þór var viðstaddur síðasta stóra þorrablótið sem fór fram í Brákarhlíð fyrir allar þær miklu takmarkanir á samverustundum sem upphófust með Covid faraldrinum á fyrri hluta árs 2020. Frá þeirri samkomu hafa varðveist heimildir, þökk sé Óskari Þór. Hann var duglegur að setja á Facebook síðu sína upptökur frá samkomum og samtölum og höfum við vinir hans á þeim vettvangi fengið að njóta þeirra heimilda ásamt ýmsum gamanmálum sem Óskar Þór var duglegur að setja þar inn og lýstu vel hans góðu kímnigáfu. Nú eru margir af viðmælendum Óskars Þórs farnir yfir móðuna mikla og vafalítið verður nú blásið til mynda- og skemmtikvölds á fjarlægari slóðum, við hin komumst að því síðar.

Með sínu dúttli, eins og Óskar Þór orðaði það sjálfur í viðtali í Skessuhorni, hefur hann forðað frá glötun ógrynni af efni og dýrmætum heimildum um menn og málefni, heimildum sem annars hefðu lent í glatkistunni. Okkur langar að þakka Óskari Þór fyrir ómetanlegt starf hans við skráningu, geymslu og miðlun menningararfsins okkar í víðu samhengi. Ekki síður viljum við þakka þessum geðþekka, gamansama og fróðleiksfúsa manni fyrir samfylgdina í gegnum árin. Eyjamanninum sem leið betur uppi á landi, undi hag sínum best við sjávarsíðuna vestur á Mýrum; þar sem hann einmitt kvaddi þetta jarðlíf við að gæta að æðarkollunum þeirra Siggu við geisla rísandi vorsólar. Óskar Þór hafði góða nærveru, hlýr í viðkynningu allri og hafði góð áhrif á fólk, var mannbætandi.

Við sendum Siggu, dætrum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum Óskari Þór af heilhug framlag hans og væntumþykju til samfélagsins undanfarna áratugi.

Útför Óskars Þórs verður gerð frá Borgarneskirkju á morgun, föstudaginn 11. júní klukkan 14.

 

Björn Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri Brákarhlíðar

Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns