Óskabarn Snæfellinga 20 ára

Björg Ágústsdóttir

Föstudaginn 30. ágúst 2024 voru 20 ár upp á dag síðan Fjölbrautaskóli Snæfellinga var settur í fyrsta sinn. Um leið og við Snæfellingar gleðjumst yfir tilefninu er við hæfi að líta bæði um öxl og fram á við, því sagan af stofnun og starfsemi FSN verðskuldar að hún sé rifjuð upp.

Hugmynd fæðist, heimavinnan unnin

Um aldamótin síðustu fór sveitarstjórnarfólk á Snæfellsnesi að tala fyrir þeirri hugmynd að stofnaður yrði framhaldsskóli á svæðinu. Framhaldsdeild frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hafði verið starfrækt í Stykkishólmi og sérstakt þróunarverkefni um fjarnámsdeild á framhaldsskólastigi, kennt frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, hafði verið í gangi í Grundarfirði. Upplýsingatæknin var í gríðarlegri uppsveiflu og margir voru orðnir móttækilegir fyrir tækifærunum sem sú þróun gaf fyrirheit um.

Í ársbyrjun 2000 stofnuðu sveitarfélögin á Snæfellsnesi undirbúningshóp, sem átti að skoða möguleikann á framhaldsskóla á svæðinu. Hópurinn skilaði af sér greinargerð, að lokinni rannsóknarvinnu og heimsóknum í nokkra minni framhaldsskóla landsins.

Niðurstaða hópsins var á þá leið að framhaldsskóli ætti að vera raunhæft markmið fyrir Snæfellsnes – en að veikleika minni framhaldsskóla, eins og okkar yrði, bæri þó að taka alvarlega. Lykillinn að því að yfirvinna þá veikleika væri hagnýting upplýsingatækninnar. Það gilti nefnilega, að enginn lítill skóli gæti kennt alla nauðsynlega áfanga, sem hann þyrfti að geta boðið nemendum sínum, en allir skólar gætu kennt einhverja áfanga. Með aðstoð tækninnar gætu skólar skipst á að bjóða áfanga í fjarnámi og okkar nemendur gætu þá, sem dæmi, tekið viðbótaráfanga, kennda frá öðrum skólum, með stuðningi heima fyrir. Þannig mætti auka fjölbreytni í námsframboði skólanna, með samvinnu og hagnýtingu tækni. Þetta hljómaði, fyrir nær 25 árum, alls ekki eins sjálfsagt og það hljómar í dag. En fleiri spennandi breytingar voru handan við hornið og tónninn var sleginn strax í upphafi – fyrir nýjum kennsluháttum og óhefðbundnum skóla, á svo margvíslegan hátt.

Og þar með hófst samtalið við ríkisvaldið. Greinargerð undirbúningshópsins var send Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra sem rökstuðningur með beiðni sveitarfélaganna um stofnun framhaldsskóla á svæðinu. Því fylgdi staðfesting sveitarfélaganna á að þau hefðu ennfremur komið sér saman um hvar skólinn ætti að vera staðsettur, miðsvæðis á norðanverðu Snæfellsnesi – í Grundarfirði – og að daglegur skólaakstur nemenda á milli byggðarlaga væri lykilforsenda. Framundan var mikil og lærdómsrík vegferð, vinna og málflutningur fyrir þessu brýna hagsmunamáli Snæfellinga.

Ákvörðun og undirbúningur

Það var svo loks 6. febrúar 2003 að menntamálaráðherra, sem þá var Tómas Ingi Olrich, lýsti því yfir að hafinn yrði undirbúningur að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi, með samkomulagi við sveitarfélögin á svæðinu.

Fréttin spurðist út og Snæfellingar flögguðu íslenska fánanum, í bæ og sveit, í gleði sinni yfir þessari ákvörðun. Óhætt er að segja að íbúar hafi verið fullir eftirvæntingar og bjartsýni.

En rifjum aðeins upp af hverju Snæfellingar lögðust svo fast á árarnar í þessu máli. Í þó nokkurn tíma höfðu sveitarfélögin á Snæfellsnesi átt aðild að Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þrátt fyrir það sýndu tölur að á Snæfellsnesi væri menntunarstig umtalsvert lægra en á öðrum landsvæðum og brottfall úr námi væri umfram meðaltal. Hækkaður lögræðisaldur skv. nýsamþykktum lögum og breytt samfélagsleg viðhorf kölluðu á að börn væru ekki lengur send 15-16 ára í burtu af heimilum sínum, auk þess sem Snæfellingar vissu að tækifæri spretta af gróskumikilli kynslóð; að hafa þennan hóp heima gjörbreytti svo mörgu, bæði í félagslegu og efnahagslegu tilliti.

Snæfellingar töldu að með því að leggja áherslu á góða menntun í heimabyggð væri verið að stíga eitt veigamesta skrefið sem hægt væri, til eflingar byggðar og samfélags á Snæfellsnesi. Framhaldsskólinn var ósk íbúanna um að njóta þeirra gæða sem samfélag 21. aldarinnar gerði kröfur til.

Og sannarlega varð skólinn ein langbesta byggðaaðgerð sem hægt er að hugsa sér; óskabarn heimamanna og menntamálaráðuneytisins sömuleiðis. Þegar ákvörðun ráðherra lá fyrir, stillti ráðuneytið upp faglegu og metnaðarfullu skipulagi fyrir undirbúning komandi stórverkefnis þar sem aðferðum verkefnastjórnunar var beitt á skilvirkan hátt. Verkefnisstjórn ráðuneytis og sveitarfélaga var sett á fót og verkefnisstjóri ráðinn. Vinnuhópar með fjölda manns tóku til starfa vorið og sumarið 2003, með fulltrúum nemenda, foreldra, skóla og íþróttastarfs, aðfengnu skólafólki og fleirum.

Mótuð var framtíðarsýn og markmið sett um skólastarf og aðstöðu. Byggt var á hugmyndafræði dreifnáms, sem er blanda af stað- og fjarnámi, með tilstyrk upplýsingatækni til fjölbreytts námsframboðs. Mikil áhersla var á almenna hagsmuni nemenda, einstaklingsmiðað nám var kjarninn og hugtökin „víðsýni, vellíðan og velferð“ voru frá upphafi nátengd hugmyndafræði skólans og útfærslu skólastarfsins.

Sérstök húsnæðisnefnd tók til starfa 3. apríl 2003 og síðar ákváðu sveitarfélögin að ráðast í það stórvirki að byggja sjálf húsnæði fyrir skólann. Í takt við hugmyndafræði skólans var byggingin hönnuð og aðlöguð þeirri námstilhögun og skólastarfi sem stunda átti í húsinu. Og skólastarfið var sannarlega fullt af nýjungum, bæði í kennsluháttum og annarri starfsemi – sem kallaði því á óhefðbundið skólaumhverfi, í byggingu með opnu rými sem þekktist ekki í öðrum skólum á sama stigi.

Áskorun sveitarfélaganna fólst ekki eingöngu í að byggja óhefðbundið hús, heldur átti það að gerast á innan við 18 mánuðum! Það þurfti að finna fjárhagsmódel fyrir svo óhefðbundna verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum, semja við ríkið um fyrirkomulag og leigugreiðslur, ráða hönnuði í þetta sérstaka verk, ráða verktaka og koma þeim af stað – og byggja! – Allt þetta á innan við 18 mánuðum!

Í desember 2003 stofnuðu sveitarfélögin Jeratún ehf., félag til að koma fram út á við og halda utanum flókið viðfangsefni; þessa miklu fasteign í eigu sveitarfélaganna. Reyndist það góð ákvörðun þó róðurinn væri þungur fyrstu árin hjá félaginu og sveitarfélögin legðu félaginu til aukið hlutafé, svo dæmið gengi upp. Þann 17. desember 2003 var fyrsta skóflustungan tekin að húsinu. Það var byggingarfyrirtækið Loftorka og fjölmargir iðnaðarmenn og verktakar á Snæfellsnesi sem komu að jarðvinnu, byggingu og frágangi skólans og umhverfis hans.

Sérstakur ráðgjafarhópur starfaði um tækni- og búnaðarmál skólans og kennslufræðingur var ráðinn til starfa vorið 2003 vegna undirbúnings.

Í nóvember 2003 tóku grunnskólanemendur í 10. bekkjum á svæðinu sig til og stofnuðu fyrsta nemendaráðið, með aðstoð verkefnisstjóra, enda voru þau á leiðinni í glænýjan framhaldsskóla! Það var hugur í unga fólkinu okkar og þau ætluðu svo sannarlega að sjá til þess að félagsstarf yrði öflugt og gefandi, eftir heila níu mánuði, þegar framhaldsskólalífið hæfist.

Í lok árs 2003 komst FSN í fyrsta sinn á fjárlög og voru þá forsendur til að skipa skólanefnd, sem beið það fyrsta hlutverk að veita ráðherra umsögn við ráðningu skólameistara. Guðbjörg Aðalbergsdóttir tók til starfa í upphafi árs 2004, sem fyrsti skólameistari FSN. Það var margt sem hún þurfti að láta til sín taka á komandi mánuðum, þó skólastarf hæfist ekki fyrr en að hausti.

 

Ef gripið er niður í fundargerð stjórnar Jeratúns ehf. 20. ágúst 2004, tíu dögum fyrir fyrstu skólasetningu í húsinu, þá segir þar orðrétt:

  1. Ásgeir [Valdimarsson, formaður stjórnar] fór yfir hvenær hugsanlega væri hægt að fara inn í bygginguna.
  2. Björgvin [Magnússon, eftirlitsmaður byggingarframkvæmda] taldi útilokað að hefja starfsemi í húsinu fyrr en 29. ágúst.

Guðbjörg [Aðalbergsdóttir, skólameistari] sagði frá því að hún þyrfti nauðsynlega að komast inn í húsið ekki síðar en 25. ágúst. Rætt var um þá möguleika sem hugsanlega eru fyrir hendi til að undirbúningur skólastarfs gæti gengið upp á sem bestan hátt.

  1. Farið á byggingarstað og framkvæmdir skoðaðar.
  2. Ákveðið að eftirlitið hafi samband við Loftorku og óski eftir því að fá stjórnunarálmuna afhenta miðvikudaginn 25. ágúst eða fimmtudaginn 26. ágúst í síðasta lagi.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði. Ljósm. Skessuhorn/tfk

 

Ekki er endilega hægt að mæla með þessum byggingarhraða, m.v. það sem gekk á þessar síðustu vikur byggingartímans, en allt gekk þó upp. Þann 30. ágúst 2004 var skólinn settur í fyrsta sinn, við hátíðlega athöfn, í hluta hússins, af þáverandi menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og 7. janúar 2005 bauð Jeratún ehf. í vígsluathöfn fullbúins húss! Þess má svo geta að skólamannvirkin hafa staðist vel tímann tönn, þessi 20 ár sem húsið hefur verið í notkun og engin meiriháttar vandamál gert vart við sig.

Það væri of langt mál að telja upp alla sem að komu og lögðu hönd á plóginn, en þeir voru fjölmargir. Ég hef velt því fyrir mér og er mjög efins um að þennan leik væri hægt að leika í dag, á einungis 18 mánuðum og með öllum þeim góða undirbúningi sem fram fór!

Ávinningur af starfi FSN

Ég er sannfærð um að hugmynd um framhaldsskóla á Snæfellsnesi kom fram á hárréttum tíma. Að fara frá hugmynd að veruleika var ekki sjálfgefið. Stórfelldar tæknibreytingar, breytt samfélagsleg viðhorf og miklar samgöngubætur á Snæfellsnesi greiddu hugmyndinni leið og gerðu skólastarf mögulegt.

Í undirbúningi sögðum við Snæfellingar hátt og skýrt, að við vildum ekki bara einhvern framhaldsskóla; við vildum góðan framhaldsskóla, fyrir unga fólkið okkar – skóla með gott námsframboð, þar sem nemendum liði vel og hver einstakur nemandi væri miðpunkturinn. Við vildum skóla með skýra sýn og sérstöðu, sem hefði burði til að þróa nýjungar samhliða því að standa vörð um gæðin í skólastarfinu.

Skólinn okkar hefur notið þess frá upphafi að hafa gott og metnaðarfullt starfsfólk. Hann er sannkallaður „hornsteinn í héraði“ en við vitum jafnframt, að við þurfum alltaf að vera á tánum.

Það var ákall Snæfellinga, frumkvæði þeirra og samstaða sveitarstjórnarfólks og íbúa, þéttur stuðningur þingmanna kjördæmisins og fagleg nálgun ráðherranna og þeirra starfsfólks, sem var grunnurinn að stofnun skólans, auk afbragðs starfsfólks skólans sjálfs. Skólinn hefur nú starfað í tuttugu ár og hefur náð að byggja gott skólastarf, einmitt á sérstöðu sinni.

  • Tuttugu ár eru nógu langur tími fyrir framhaldsskóla til að sanna gildi sitt og mikilvægi, fyrir nemendur, fyrir samfélögin okkar og fyrir íslenskt samfélag. Skólinn er fyrsta val unga fólksins okkar, sem á nú kost á því að stunda framhaldsnám í heimabyggð, nokkuð sem eldri kynslóðir nutu ekki.
  • Tuttugu ár eru nógu langur tími til að sanna að framúrstefnulegir kennsluhættir virkuðu, þrátt fyrir efasemdarraddir og að hið óhefðbundna skólahúsnæði næði að þjóna hlutverki skólans vel; allt með aðlögun, eftir því sem reynslan kenndi okkur.
  • Tuttugu ár eru nógu langur tími til að festa sig í sessi sem framúrskarandi dreifnámsskóli, sem sinnir námsþyrstum nemendum víðsvegar í heiminum með sömu aðferðum, á sama tíma og nemendum á staðnum – og með framhaldsdeild á sunnanverðum Vestfjörðum sem skólanum hefur verið treyst til að starfrækja síðan haustið 2007.
  • Nægur tími til að metnaðarfullir kennarar FSN hafi í áraraðir verið eftirsóttir fyrirlesarar sem boðið er að kynna nýjungar í skólastarfi við fjölmörg tækifæri.
  • Tuttugu ár eru líka nógu langur tími til að ná þeim frábæra árangri að eldri nemendur skólans séu nú orðnir kennarar nýjustu nemendanna og að FSN sé eftirsóttur vinnustaður.
  • Og nægilega langur tími til að útskrifa rétt um 600 nemendur, frá fyrstu útskriftinni í desember 2005 – nemendur sem hefðu þurft að flytja í burtu eða hefðu jafnvel ekki lokið námi, hefði skólans okkar ekki notið við.

Í tuttugu ár hefur skólinn okkar sannað að hann var, er og verður óskabarnið okkar!

En eins og með öll börn, þá þarf að hlúa að og rækta. Við þurfum áfram að sýna metnað, vera framsækin og standa saman um skólann okkar! Ég er ekki í nokkrum vafa um að næstu tuttugu árin verða þá ekki síður til góðs og gæfu fyrir skólann, fólkið og samfélögin okkar!

Til hamingju FSN – til hamingju við öll!

Greinin er byggð á samantekt í ávarpi fluttu á 20 ára afmælishátíð FSN þann 30. ágúst 2024.

 

Björg Ágústsdóttir, formaður skólanefndar FSN