
Öryggi íbúa og varnir landsins
Jóhannes Finnur Halldórsson
Rakst á auglýsingu um atburð; „Rescue26 16.-18. október 2026“ sem er alþjóðleg ráðstefna skipulögð af Slysavarnafélaginu Landsbjörg og verður þá í 18 sinn (hefur verið annað hvert ár). Það er merkileg seigla hjá þessum félagsskap og ávallt horft til framtíðar, m.a. með því að læra af öðrum og miðla öðrum af reynslu sinni.
Á ruv.is (2.10.2025) var varpað fram spurningu: Hvað er þjóðaröryggisráð? Eitt af því sem þar kom fram var hlutverk þess sé fyrst og fremst að hafa yfirsýn yfir neyðarástand og tryggja að nauðsynlegum ráðstöfunum sé fylgt eftir þegar eitthvað gæti haft áhrif á öryggi þjóðarinnar.
Það hefur ýmislegt dunið á hér á landi og getur dunið á, enda er land og þjóð mótuð af öflugum náttúruöflum. Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 truflaði alþjóðlega flugumferð og nýleg skjálftavirkni við Grindavík minnir okkur á að náttúran bíður ekki eftir að við séum tilbúin. Slík atvik reyna á viðbragðsgetu okkar, innviði og efnahag. Þó Ísland búi yfir öflugum viðbragðskerfum, krefst umfang og ófyrirsjáanleiki þessara atburða víðtækari stuðnings.
Netógnir aukast hratt. Innviðir Íslands; orkukerfi, heilbrigðiskerfi og fjármálanet, eru sífellt berskjaldaðri. Skýrsla frá 2023 sýndi að grunsamleg netvirkni jókst sexfalt í kjölfar spennu í Evrópu. Stefna stjórnvalda um netöryggi (2022–2037) er metnaðarfull, en framkvæmd hennar krefst fjármagns, sérfræðiþekkingar og alþjóðlegrar samvinnu.
Ísland hefur ekki eigin her. Hernaðarlegt öryggi okkar og varnir byggir á NATO og tvíhliða samningi við Bandaríkin. En nútímaöryggi snýst ekki aðeins um varnarmál; það snýst um svo miklu meira, loftslagsbreytingar, farsóttir, skipulögð glæpastarfsemi, netárásir og jafnvel efnahagsleg óvissa eru ógnir. Engin þjóð ræður við þær ein og sér.
Það er mín skoðun að vegna þessa málaflokks, sé mikilvægt að Ísland verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Hvað væri að sækja þangað?
Aðild að ESB myndi veita Íslandi aðgang að:
- Fullri þátttöku í samræmdum viðbrögðum við hamförum í gegnum Civil Protection Mechanism ESB. Ísland er þátttakandi í dag án atkvæðisréttar.
- Samvinnu í netöryggismálum með sameiginlegum ramma og fjármögnun.
- Upplýsingamiðlun og sameiginlegum aðgerðum gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
- Samræmdum loftslagsaðgerðum og umhverfisvernd.
- Efnahagslegum stöðugleika í gegnum innri markað ESB og fleira.
Þó Ísland eigi í samstarfi við ESB í gegnum EES-samninginn myndi full aðild dýpka áhrif okkar og aðgang. Þetta snýst ekki aðeins um ávinning, þetta snýst um að taka þátt í mótun stefna sem snerta okkur.
Jóhannes Finnur Halldórsson.
Höfundur er á eftirlaunum, en hugsar oft eins og yngri kynslóðir, þ.e. til framtíðar