Örfá orð um komandi kosningar

Guðjón Guðmundsson

Skoðanakannanir benda til að þjóðarinnar bíði vinstri stjórn á næstu vikum, en nú eru þrjú og hálft ár síðan síðasta vinstri stjórn var afþökkuð af kjósendum og sagt var að hún hefði í þeim kosningum fengið versta afhroð sem nokkur ríkisstjórn á Vesturlöndum hefur fengið frá stríðslokum. Ferill þeirrar ríkisstjórnar var hörmulegur, m.a. 100 skattahækkanir, niðurskurður til heilbrigðismála m.a. með fækkun starfsmanna á Landspítalanum um nokkur hundruð á sama tíma og fjölgað var í utanríkisþjónustunni, árásir á stjórnarskrána og algjör stöðnun í orkumálum sem hefur þær afleiðingar að Silicor fær ekki raforku til umhverfisvænnar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga sem skapa myndi á fimmta hundruð störf á Vesturlandi. Ekki má heldur gleyma ofuráherslu á að þjóðin tæki á sig hundruð milljarða byrðar vegna Icesave og ofurkapp á að troða okkur inn í ESB.

 

Svona mætti lengi telja. Einnig má minna á endalausar uppákomur milli stjórnarflokkanna og innan þeirra, t.d. hrökkluðust nokkrir þingmenn Vinstri grænna úr flokknum og fengu nafnbótina villikettir því þeir létu ekki nógu vel að stjórn. Sú saga er komin út í bók eftir Jón Torfason og er hún fróðleg lesning sem fólk ætti að lesa áður en það gengur til kosninga.

 

Nú hafa Vinstri grænir, Samfylkingin, Píratar og Björt framtíð hafið viðræður um stjórn á næsta kjörtímabili. Þetta eru nákvæmlega sömu flokkarnir og nú stjórna Reykjavíkurborg og hefur tekist á örfáum árum að koma borginni á kaldan klakann fjárhagslega, sem er með ólíkindum því borgin hafði fjárhagslega yfirburði yfir önnur sveitarfélög áður en þessir flokkar tóku við stjórninni. Það er með ólíkindum ef þjóðin ætlar að fela þessum sömu flokkum stjórn þjóðarskútunnar.

 

Ríkisstjórnin sem nú er að ljúka störfum skilar góðu búi. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi öll ár kiörtímabilsins, skuldir ríkisins hafa lækkað um hundruð milljarða sem leiðir til lækkunar vaxtagjalda um tugi milljarða á ári, kaupmáttur eykst jafnt og þétt, atvinnuleysi er í lágmarki og verðbólga nánast engin. Það er hrollvekjandi ef sömu flokkar og hafa komið Reykjavík á kaldan klakann eiga nú að taka við góðri stöðu þjóðarsbúsins.

 

Ég hvet Vestlendinga til að kjósa öflugan lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum á laugardag. Haraldur Benediktsson leiðir listann, en hann hefur getið sér gott orð sem traustur og vinnusamur þingmaður á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Hann hefur setið í tveimur af þýðingarmestu nefndum þingsins; fjárlaganefnd og atvinnumálanefnd auk þess sem hann hefur stýrt starfshópi um uppbyggingu ljósleiðaravæðingar í hinum dreifðu byggðum landsins og fengið mikið lof fyrir það starf.

 

Guðjón Guðmundsson.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.

Fleiri aðsendar greinar